Við Hallgrímur Sveinsson, bókaútgefandi, fórum upp á Grensás um hádegið í dag og hittum Eddu Heiðrúnu baráttujaxl. Okkur langaði til að afhenda henni nokkrar bækur í tengslum við að hluti af söluverði bókarinnar "Að sigra sjálfan sig" rennur til Grensássamtakanna. Edda tók vel á móti okkur eins og hennar er von og vísa. Það er alltaf gaman að hitta hana og fá að kynnast því hvað hún er að fást við. Hún situr aldrei auðum höndum. Nú er hún nýlega komin inn í erlendan listaskóla fyrir fólk sem málar myndir með munninum. Listamaðurinn heldur á penslinum í munnunum og málar myndirnar þannig. Ég hef séð nokkrar slíkar myndir eftir hana. Edda er fyrsti íslendingurinn sem kemst inn í þessan skóla. Ég minnist þess að ég sá sýningu á myndum eftir Ólöfu Pétursdóttur sem málaði listafínar myndir með pensli í munninum. Hún lést á síðasta ári. Ég man einnig eftir Játvarði Jökli í Reykhólasveitinni sem skrifaði ófáar bækur á þennan hátt. Hetjurnar eru víða.
Edda sagði okkur að síðar í dag færi hún suður í álver í Hafnarfirði að taka á móti peningum sem hlaupahópur starfsmanna álversins hefur safnað í Grensásssöfnunina. Hún sagði að nokkrir hlaupahópar hefðu lagt fram álíka framlög. Það er ánægjulegt að vita til þess að fólk sýnir þessu málefni góðan stuðning í verki því það veit enginn hver er næstur til að þurfa á þjónustu Grensássdeildarinnar að halda.
Hún sagði okkur einnig að nýlega hefðu vinir hennar og kunningjar myndað nokkursskonar "hjálparsveit" til að gera henni betur kleyft að halda heimili og lifa eins eðlilegu lífi og mögulegt er. Það eru ótal lítil viðvik sem þarf að gera á hhverju heimili sem ófatlað fólk veltir kannski ekki fyrir sér frá degi til dags. Það þarf að fara út með ruslið, baka köku, þvo bílinn o.s.frv. o.s.frv. Vinir hennar skiptast á við að kíkja við hjá henni eftir ákveðnu kerfi og gera sín ákveðnu verk. Það sem liggur henni þyngst á hjarta nú er að fá lestrarvél. Þá er bók sett í sérstakt statíf með ljósum og ákveðnum tækjum. Þá getur hún flett bókinni fram og aftur og grúskað. Hún segir að bókalestur sé sér afar nauðsynlegur eins og maður getur ímyndað sér.
Þáttaserían sem sjónvarpið er nýbúið að taka upp og var kynnt sérstaklega með því fororði að hún hefði verið tekin upp að viðstöddum áheyrendum er afar léleg að mínu mati. Það má vel vera að það hafi setið eitthvað fólk og horft á þegar upptökur fóru fram en það hefur þá líka verið á staðnum maður með spjald sem stóð á "Hlæið". Hann hefur svo brugðið spjaldinu upp af og til því ég get varla ímyndað mér að nær því samfelldur hlátur áhorfenda sé náttúrulegur. Einnig er vitaskuld hægt að fá aðkeyptan hlátur. Það er ekki síður líklegt að málið hafi verið leyst þannig. Þessi þáttaröð er þýdd og staðfærð eftir einhverjum seríum sem eiga það sameiginlegt að vera hallar undir Simpson syndromið. Karlar eru feitir, latir og heimskir.
föstudagur, nóvember 13, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli