Fór út á laugardagsmorguninn um kl. 8.00 til móts við Halldór. Hittumst við göngubrúna um héldum hefðbundna leið fyrir Kársnes. Hittum Stefán Örn á léttu rennsli þar en hann er farinn að æfa stíft fyrir grænlandsferð sumarsins. Við Halldór fórum sem leið lá upp í Elliðaárdal, ég sneri við á stíflunni og tók svona 18 km en Halldór fór allan Poweratehringinn og hefur líklega farið vel yfir 30 km. Ég var svolítið aumur í hægri öklanum en þa versnaði ekkert við hlaupið heldur er á réttu róli. Fór því ekkert að haupa í gær því það er betra að láta þetta jafna sig. Nudda hásinina a.m.k. tvisvar á deg með pensími, sem er hreint undraefni fyrir margra hluta sakir. Í blíðunni í gær vorum við nokkrir að stilla upp spjöldum á Víkingsvellinum og ég horfði í leiðinni með öðru auganu á Maríu og stöllur hennar spila við Þróttarstelpurnar á vellinum við hliðina. Þær spiluðu vel og sigruðu verðskuldað 3 - 0. Svo var hreinsað til á pallinum og farnar tvær ferðir í Sorpu með drasl. Það er kominn sá tími að nú verður ekki undan vikist lengur. Veðrið var emð eindæmum og ekki er það síðra í dag.
Það er kominn ákveðinn fiðringur við tilhugsunina að það fari að styttast í fyrsta alvöru leik sumarsins. Hann verður á sunnudaginn kemur en þá kemur Fylkir í heimsókn.
Á Borgunarhólmi var þreytt um helgina 24 tíma, 12 tíma og 6 tíma hlaup. Sá sem hljóp lengst í 24 tíma hlaupi fór yfir 200 km. Við í UMFR36 ætlum að byrja með 6 tíma hlaup í haust en ég spáí því að það líði ekki langur tími þar til við verðum farin að fara allar þessar tímalengdir. Hlaupið á Borgundarhólmi er þreytt á ca 1,5 km löngum hring.
Greip ofan í nýtt helgarblað DV íbúð í gær. Útgáfudögum var fækkað um 5 í viku hverri svo nú kemur bara út eitt þykkt helgarblað. Ekki leist mér á forsíðuna sem var dæmigerð fyrir hið svokallaða sorgarklám. Ég fletti á bls tvö og þar var frétt um að "Tinna og Egill eiga von á barnabarni": Þá lokaði ég blaðinu og skilaði því. Hvaða fréttamennska er þetta? Til hvers er verið að gefa út blað sem hefur ekki neitt að segja? Það hvarflaði að mér að kannski hefði átt að fækka útgáfudögunum um sex fyrst að byrjað var á að skera niður útgáfuna á annað borð.
Fór á laugardaginn upp í Perlu á ferðamálasýningu Vestfirðinga. Það var virkilega gaman að fara þarna í gegn, bæði með það fyrir augum að skoða það sem Vestfirðingar höfðu fram að færa en einnig og ekki síður að hitta fólk sem maður hafði margt hvað ekki séð árum saman. Það er verið að vinna gott starf að kynningarmálum fyrir vestan og gaman að sjá hvað margir öflugir sprotar eru að spretta upp úr því starfi.
mánudagur, maí 08, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli