miðvikudagur, maí 17, 2006

Gerði energikakor löbararsons í gærkvöldi. Þær verða góðar í Odense. Uppskriftin er sem hér segir: Ein eining sýróp, ein eining sykur og ein eining rjómi. Eining getur t.d. verið 3 dl. Þessu er öllu hellt í pott og látið krauma í allt að hálftíma þannig að það sé orðið karamellulegt. Á meðan þessi metall kraumar þá eru mældar sjö einingar af haframjöli í skál. Nú notaði ég reyndar Bónus múslí í stað haframjöls samkvæmt ábendingu Halldórs. Smá salti er stráð yfir því maður notar þetta gjarna þegar saltútfeling er mikil. Síðan er karamellulíminu hellt yfir mjöðið/múslið og hrært vel saman. Að þessu loknu er kökkurinn lagður laglega í lengjur á plötu sem smjörpappír hefur verið lagður yfir. Lengjurnar eru þjappaðar vel með hnúfum sem eru bleyttir öðru hverju í vatni. Þetta er svo látið kólna, skorið í hentuga bita og geymt í frysti. Ég borðaði ársgamlar kökur í þingvallavatnshlaupinu um daginn og voru þær eins og nýjar. Þetta er ekki síðra en rándýrir orkubitar sem maður kaupir úti í búð en miklu ódýrara. Löparlarsson hefur notað þessa uppskrift í róðrartúr yfir Atlandshafið, og á hlaupum milli Spörtu og Aþenu svo dæm séu nefnd. Slóðin hans er www.loparlarsson.se.

Hlustaði í gær á viðtal við aðstoðarrektorinn á Bifröst þar sem var verið að tala við hann um hvort það væri siðferðilega rétt af blaða- og fréttamönnum að leika í auglýsingum fyrirtækja. Þessi umræða kom líklega til í framhaldi af Landsbankaauglýsingunni um úrvaldsdeildina í knattspyrnu. Rektorinn taldi ekki að það hefði nein áhrif á trúverðugleika þeirra og lagði fréttamenn í þessu efni að jöfnu við leikara. Leikarar væru gjarna að tala inn á auglýsingar og þyrftu síðan að koma fram af trúverðugleika sem mismunandi persónur í leikhúsum. Ég verð að segja að ég skil ekki svona lagað. Að þessi maður skuli vera næstæðsti stjórnandi menntastofnunar og fyrrverandi alþingismaður(að vísu sem varamaður sem datt inn og datt svo út aftur). Hvernig getur það farið saman að fréttamaður sé einn daginn á kaupi hjá einhverju fyrirtæki við að leika í auglýsingu eða tala inn á auglýsingar sem eiga að stuðla að framgangi fyrirtækisins og síðan daginn eftir að fjalla um sama fyrirtækið á gagnrýnan og krefjandi hátt. Ég ætla að vona að það sjái flestir að þetta gengur ekki upp. Fréttakonan sem talaði við aðstoðarrektorinn var ekki sammála honum og gekk á hann með frekari skýringar sem voru vitaskuld ekki til. Mér leiðst alltaf að hlusta á vitleysu í útvarpinu.

Útstrikanir í kosningum hafa aðeins komið til umræðu síðustu daga. Þær hafa ekkert að segja. Að telja fóki trú um að útstrikanir skipti einhverju máli er einfaldlega rangt.

Það er einhver Ágústa Eva í Grikklandi sem var lasin í gær samkvæmt kvöldfréttum ríkissjónvarpsins. það hefur alveg fariðp fram hjá mér hvaða manneskja þetta er. Það hefur hins vegar verið fimbulfambað fram og til baka um Silvíu Nótt sem virðist varla vita hvort hún sé eða sé ekki. Mér sýnist að ýmsir séu loks að átta sig á því að dramb er falli næst.

Engin ummæli: