Þingvallavatnshlaupið var í gær. Við Halldór ókum saman austur og vorum komnir að Nesjavöllum um 8.40. Á Miklubrautinni beint fyrir neðan headquarters UMFR36 voru 5 lögreglubílar með blikkandi á götunni svo og svartur fólksbíll, vandlega innpakkaður í netgirðingu sem hafði verið reist milli akreinanna en hafði nú fengið nýtt hlutverk. Djúp hjólför á grasgeiranum sýndu að kannski hafði verið of hratt ekið. Lapplandsfararnir fjórir. Pétur, Ellert, Elín og Gunnar komu rétt á eftir okkur austur og við gerðum okkur klár. Ég hafði nokkrar áhyggjur af veðrinu því það hafði verið spáð allhvössu og rigningu. Við lögðum af stað 8.52 og nákvæmlega um leið og við tókum fyrsta skrefið þá fór að rigna. Rigningin og vindurinn var heldur í bakið á leiðinni upp að þjónustumiðstöðinni við Þingvöll. Kristján í Laugaskokki ók með okkur frá byrjun og létti það mikið á farangrinum því gert var ráð fyrir að hafa heldur meiri farangur með en venjulega vegna veðurútlitsins. Þegar við vorum komin upp á afleggjara kom Eiður Aðalgeirsson og ók hann með okkur það sem eftir var. Skömmu síðan kom Ingólfur Arnarson og hljóp með okkur allnokkurn spöl. Rigningin var fljótt verulega mikil og urðu allir fljótt gegndrepa en það vildi til að frekar var hlýtt í veðri. Þegar komið er að brúnni við þjónustumiðstöðina er tekin aukaslaufa upp eftir Uxahryggjaveginum fram hjá Skógarhólum og inn að Bolabás þar sem hlaupið er umhverfis stöng sem stendur þar í vegkantinum. Þetta er um 5 km samtals sem er nauðsynlegt til að hlaupið sé meir en 70 km.
Við skutumst aðeins inn í þjónustumiðstöðina til að vinda úr sokkum og hella úr skónum en annars var ekkert að gera annað en að halda áfram. Veðrið fór versnandi og var manni hætt að lítast á blikuna. Þá fóru þeir Kristján og Eiður að aka á hlaupahraða til að brjóta vindinn og veita hlaupurunum skjól fyrir rigningu og hvassviðri sem var beint í fangið mestan partinn niður að Írafossstöðinni eða um 26 km leið. Reyndar harðneitaði Halldór allri slíkri aðstoð. Við áttum nesti á 35 km og aftur á 48 km. Það var gott að geta bætt á drykkjarflöskur og fengið nesti að maula. Rétt í þann mund sem komið var að Írafosstöðinni stytti upp og varð hlýtt og þægilegt veður það sem eftir var en nokkuð stíf gola. Hundarnir sem hótuðu að éta okkur Halldór í fyrra voru bundnir heim við hús í ár en það heyrðist að þeir létu ófriðlega í keðjunum. Þegar þarna var komið höfðu fleiri fylgdarmenn bæst í hópinn og var það giska fríður flokkur sem fylgdi hlaupurunum síðustu 15 - 20 km eða svo, bæði akandi og hjólandi. Það var mjög gaman að fá stuðning frá félögunum og er vonandi að einhverjir eigi eftir að skokka þennan hring en fái þá aðeins betra veður en við fengum í gær. Það bjargaði miklu að það var heldur hlýtt í veðri þannig að manni kólnaði ekki svo mikið eins og hefði getað orðið.
Við komum að Nesjavöllum eftir um 8 klst hlaup sem er heldur lengri tími en fyrri ár. Mig minnir að við höfum verið um 7.15 í fyrra enda veðrið þá miklu betra svo ólíku er saman að jafna. Lapplandsfarar voru léttir á fæti og skokkuðu þetta kátir í bragði. Þau eru greinilega vel æfð og þrælsterk og verður gaman að fylgjast með hverrnig þeim gengur eftir tvo mánuði. Elín Reed er fyrsta konan sem hleypur þetta hlaup og er henni óskað sérstaklega til hamingju með það. Hún gaf öðrum ekki eftir nema síður væri.
Á Nesjavöllum fengum við aðstöðu til að fara í sturtu og svo var tekinn smá tími í heitapottinum. Allir voru kátir með daginn að leiðarlokum enda þótt það hafi ekki verið mjög gaman þegar rigndi sem mest og vindurinn blés sem harðast í fangið á manni. Þetta gleymist hins vegar mjög fljótt þegar allt gengur upp.
Ég ók síðan sem leið lá undir kvöldið austur á Skeið þar sem gamlir skólafélagar voru saman komnir til að gleðjast á 35 ára útskriftarafmæli og rifja upp gamlar minningar. Þar var dvalið við borðhald, spjall og samsöng langt fram á nótt og ekki farið að sofa fyrr en löngu eftir það sem kallaður er venjulegur svefntími. Það er gaman að hitta gamla félaga, suma hafði ég ekki séð síðan á skólaslitum. Einn þekkti ég ekki alveg strax, sá hafði haft fagurt hár og vöxtulegt skegg á skólaárum. Nú voru hvoru tveggja þessi kennileiti á bak og burt og við hvað á maður þá að miða?
mánudagur, maí 01, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli