Ég er að jafna mig í fætinum og vona að bólgan hverfi innan tíðar. Ætla að taka það rólega þessa viku því maður hefur svo oft sagt við aðra að maður verði að hlusta á skrokkinn.
Fékk eintak af Marathon & Beyond í gær. Þar er meðal annars frásögn af þátttöku bandarískrar konu í WS í fyrra, Hún þurfti að gefast upp á mílu 70 (ca). Þá afhenti hún næsta hlaupara armbandið sitt og bað um að því yrði komið til skila á næstu drykkjarstöð og gekk út úr stígnum í myrkrinu og upp á þjóðveg. Þegar maður les frásögnina þá var rótin að erfiðleikum hennar að því mér virðist fyrst og fremst skortur á nógu markvissum undirbúningi og skipulagningu í hlaupinu.
Á Robinson Flat (24 mílur) var hún orðin blaut í fæturna og varð vesen að finna handa henni sokka. Hún hafði greinilega göslast áfram í bleytunni án þess að hugsa um að reyna að halda sér þurri í fæturna eins og var mjög auðvelt ef maður vildi. Það var hins vegar mjög auðvelt að verða drullublautur mjög fljótt. Þetta hefur vafalaust virkað stressandi og hún jafnvel farið að hlaupa hraðar fyrst á eftir til að vinna upp tapaðan tíma. Þessi kona er grænmetisæta og því gat hún ekki borðað allt sem var á drykkjarstöðvunum og reyndar heldur fátt af því. Því lendir hún tiltölulega snemma í orkuskorti og magavandræðum þar sem hún gat ekki innbyrt það prótein sem í boði var. Scott Jurek er einnig grænmetisæta en hann hleypur hraðast af öllum svo það er ekkert vandamál að vera grænmetisæta í svona löngum hlaupum. Hún hefði sem best getað sent út sínar vistir á drykkjarstöðvarnar og haft nóg að borða alla leiðina ef hún hefði hugsað um það fyrir fram. Þar var ekki gert og því fór sem fór. Í Michican Bluff (55 mílur) var reynt að þeysa út í næstu búð til að kaupa grænmetisborgara en þá var maginn kominn í herping og mótþróa. Svona sögur eru fyrst og fremst til að læra af þeim því það eru mistökin sem skila meiri þekkingu heldur en þegar allt gengur vel. Umrædd kona hefur síðan í WS klárað 100 mílna hlaup með glans svo þetta var ekki spurning um getu heldur skipulagingu.
Ég verð að segja það að ég sé eftir DV. Blaðið var oft á tíðum nauðsynlegur þáttur í heldur fátæklegri blaðaflóru. Ögrandi og óskammfleilið og varpaði ljósi á ýmislegt sem aðrir fjölmiðlar sinntu ekki en ástæða var til að fjalla um. Sú lína sem ritstjórnin valdi sér er hins vegar vandrötuð. Blaðið fór hins vegar of oft yfir strikið í umfjöllun um persónuleg málefni sem ekki var ástæða til og því byggðist upp gegnum tíðina forakt á því sem náði hámarki í umfjöllun þess um málefni Gísla heitins Hjartarsonar á Ísafirði. Slík blaðamennska sem DV stundaði krefst reyndra blaðamanna sem skynja hvar jafnvægislínan er og hvenær er farið yfir strikið. Ég held að það hafi ekki farið mikið fyrir slíkum blaðamönnum á DV á seinni tímum heldur hafi hópurinn að miklu leyti samanstaðið af sjálfhverfu liði sem hafi haft lítinn skilning á því að hugsa þyrfti um slíka hluti. Þegar ritstjórnarstefnan er "Finnið einhverjar focking fréttir", þá er ekki á góðu von.
miðvikudagur, maí 03, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli