föstudagur, maí 12, 2006

Tók góðan hring í morgun. Það er frískandi að fara út í morgunsvalann þegar veðrið er eins gott og raun ber vitni þessa dagana.

Maður veltir stundum fyrir sér ábyrgð fjölmiðla. Nýlega var umfangsmikil umfjöllun í Kompás þeirra 365 manna um innbrot í heimahús og þann djöfulskap sem þeim fylgja. Tekin voru viðtöl við fólk sem höfðu orðið fyrir þessari lífsreynslu og voru lýsingar þeirra sjaldnast fallegar á aðkomu og eftirköstum svona verknaða. Inn á milli voru síðan viðtöl við fulltrúa Securitas og Öryggismiðstöðvarinnar um hvernig ætti að varast innbrot, hvaða þjónusta væri í boði og svo farmvegis. Krakkarnir horfðu á þetta og voru dálítið andaktug yfir því hvaða ógnir væru til staðar út í hinum grimma heimi. Þeim fannst náttúrulega sjálfsagt að gera allar þær öryggisráðstafanir sem minnst var á í umfjölluninni. Ég er ekki að gera lítið úr því að fólk geri ákveðnar öryggisráðstafanir en mer finnst það skipta dálitlu máli í þessu sambandi að það er sami eignaraðili að Stöð 2 og Securitas. Stöð tvö er þannig notuð til að byggja upp þörfina fyrir því að fólk telji nauðsynlegt að gera allskonar öryggisráðstafanir og síðan tekur Stöðin viðtal við Securitas mann um hvaðs é til ráða að bægja þessari ógn frá sér og fyrir tilviljun eru þessi tvö fyrirtæki í eigu sama aðila. Þetta er ekki nógu sniðugt.

Mér finnst forsvarsmenn Baugs hafa tapað ákveðnum styrjöldum í áróðursstríðinu að undanförnu. Í ljós er komið að dylgjur þeirra um að Þórhallur eða Jóhanna hefðu farið í siglingu á hinum umræadda bát Víking eru tilhæfulausar. Kristján var vel undirbúinn í viðtalinu við Gest Jónsson og Gestur mátti gæta sín. Mér finnst hins vegar ánægjulegt að Baugur hafi hagnast vel í London. Þeir eiga þá líklega fyrir sektunum í næstu Gumball ferð.

Fór í hraðbanka á Réttarholtsveginum í morgun upp úr átta. Í gamla Íslandsbankahúsnæðinu stóð stúlka fyrir innan gluggan og bar sig illa. Hún hafði verið að skúra og hafði læstst inni í forstofunni og hafði verið þar á annan klukkutíma. Hún var bæði lykla- og símalaus. Nokkur umferð hafði verið fyrir framan eins og gengur en einhvern veginn hafði enginn veitt henni athygli. Hringdi á Securitas !! og þeir lofuðu að koma og losa hana úr prísundinni. Talaði við kallinn í sjoppunni við hliðina og bað hann að fylgjast með að henni yrði hleypt út. Í ljós kom að hann vissi af stelpunni en hafði ekki mjög miklar áhyggjur af henni. Það hlyti fólk að koma til vinnu þarna innan skamms. Hvað ef tannlæknirinn á stofunni sem er í þessu húsnæði væri nú veikur eða í fríi til mánaðamóta?

Engin ummæli: