Það var ekki annað hægt í gær en að fara út að hlaupa. Í stuttbuxum og hlýrabol var hverfishringurinn tekinn til að prufukeyra fótinn. Allt í sómanum og eins og best verður á kosið. Þetta hefur þá bara verið smá bólguskot eins og sagt er um aðra og verri bólgu sem er farin á láta kræla á sér og ég er ekki viss um að takist að lækna með pensímnuddi.
Það var ágæt grein eftir Carl Eiríksson í Fréttablaðinu í morgun. Hann fer yfir hvernig íbúð breyttist bókaskáp og nokkrar bækur hér á árum áður. Fólk sem er undir þrítugu gerir sér varla grein fyrir þessum tímum þegar græddur er geymdur eyrir var eitt mesta öfugmæli sem hægt var að hugsa sér. Þegar fréttamenn hamast á stjórnmálamönnum og þráspyrja "Á ekki að hækka launin?" verður manni hugsað til fyrri tíma þegar launin hækkuðu og hækkuðu en kaupmátturinn minnkaði og minnkaði. Stjórnmálaóvitringar (þetta er ekki innsláttarvilla) þeirra tíma fullyrtu að taumlausar launahækkanir væru ekki verðbólguvaldur heldur væri einungis verið að leiðrétta gegn verðhækkunum. Launahækkanir væru því afleiðing en ekki orsök. "Dettur ykkur í hug að það sé hægt að láta vextina elta verðbólguna?" sagði einn.
Ég var einu sinni á fundi vestur á Snæfellsnesi, líklega árið 1977 eða fyrir tæpum 30 árum síðan. Ólafur Jóhannesson dómsmálaráðherra var frummælandi og fjallaði um landsins gagn og nauðsynjar. Þar talaði meðal annars Björn á Kóngsbakka. Hann kvað vel í veiði að hafa dómsmálaráðherrann á fundinum því hann sagðist hafa verið rændur. Hann hefði fyrir nokkrum árum selt sjö kýr og lagt andvirði þeirra inn á bankabók. Nýlega hefði hann tekið peningana út af bókinni og ætlað að kaupa sér kýr að nýju. Þá bar svo við að hann gat einungis fengið sem svaraði sjö nýfæddum kálfum fyrir kýrverðin sjö. Hann sagðist hreinlega hafa verið rændur og leitaði ráða hjá dómsmálaráðherra. Fátt var um svör hjá Ólafi sem kannski var eðlilegt, svona var þjóðfélagið svona á þessum árum. Ólafur hafði síðan frumkvæði að Ólafslögunum nokkrum árum síðar sem fólu í sér upptöku verðtryggingu lána.
Hart er sótt að Tony Blair í kjölfar afhroðs flokksins í sveitarstjórnarkosningum í Bretlandi nýverið. Manni dettur í hug hvort álíka umræða komi upp í kjölfar sveitarstjórnarkosninga hérlendis. Maður sér ekki annað en Framsóknarflokkurinn eigi mjög undir högg að sækja í flestum stærri kjördæmum landsins (að Ísafirði undanskyldum) samkvæmt skoðanakönnunum. Vitaskuld á að spyrja að leikslokum en það er allt í lagi að velta fyrir sér stöðu mála ef annar ríkisstjórnarflokkurinn bætir verulega við sig í sveitarstjórnarkosningum en hinn tapar verulegu fylgi. Hverra er ábyrgðin?
miðvikudagur, maí 10, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli