Hélt af stað á tíunda tímanum niður í Laugar. Þar voru vinir Gullu mættir og nokkrir í stuttbuxum. veðrið var afar gott og farið að verða sumarlegt. Haldið var eftir ýmsum krókaleiðum inn í Elliðaárdal, þaðan út Fossvog og síðan niður í Laugar. Samtals gerði dagurinn 23 km. Leiðin frá Elliðaárdalnum og niður í Laugar var hlaupin á góðum hraða eða á ca 4.20 - 4.40. Það er alltaf gagnlegt að hlaupa með sér hraðari mönnum, það setur ákveðna pressu á mann. Löppin var góð og ég held að hún hafi bara skánað við hlaupin. Veðrið var eins og best var á kosið. Þetta var síðasta langa æfingin fyrir Odense en eitthvað verður nú reynt að baxa þar til haldið verður út.
Deildin byrjaði svo í dag. Fylkir mætti í Fossvoginn. Aðstæður voru eins og best gat verið, sól, hlýtt, logn og full stúka af fólki. Það gerast ekki margir vellir betri en Víkingsvöllurinn hérlendis við svona aðstæður. Leikurinn var jafn framan af en í byrjun fyrri hálfleiks sótti Víkingur mun meir og voru til alls líklegir. Þá skoraði Fylkir eins og skrattinn úr sauðarleggnum og síðan aftur, bæði skiptin úr föstum leikatriðum þar sem styrkur Víkinga í varnarleiknum á að vera hvað mestur. Svona fór þetta en það var huggun harmi gegn að önnur úrslit voru einnig dálítið óvænt. Ég heyrði fyrr um daginn einhvern fréttamann vera að tala um leik KR og FH. Hann sagði að FH hefði Grettistak á KRingum. Svona er það þegar farið er að klæmast með orðtök. Menn hafa ekki Grettistak á einum eða neinum, heldur hreðjatak. Menn lyfta Grettistaki ef þeir ná miklum árangri í einhverju. Það hefur t.d. verið lyft Grettistaki hjá FH í fótboltanum á liðnum árum. Ég get hins vegar skýrt út hvað hreðjar eru ef einhver skyldi ekki skilja það og þá einnig hvað það er sem gerir hreðjatak öflugara öðrum tökum.
Setti myndir af leiknum inn á síðuna undir Nýtt myndaalbúm.
mánudagur, maí 15, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þú átt ekki mynd af "hreðjataki", fyrir þá sem ekki eru að átta sig.
Kv. H
Skrifa ummæli