Það heyrist heldur lítið af fuglaflensunni þessa dagana. Svanurinn sem var á leið til Íslands samkvæmt glöggum fjölmiðlamönnum en fannst dauður við Skotlandsstrendur olli því að það var sett á viðbúnaðarstig tvö hérlendis. Samkvæmt viðbúnaðarstigi tvö eiga allir alifuglar að vera birgðir inni. Vanræki menn þær skyldur sínar þá liggur við allt að árs fangelsi. Ég geri ráð fyrir að lögreglan sé á útkíkki um sveitir landsins gagnvart því að það séu hvergi alifuglar undir berum himni og dragi bændur í steininn ef þeir hafa ekki farið að fyrirmælum samkvæmt viðbúnaðarstigi tvö. Hvað eru alifuglar og hvað ekki? Eru fuglar húsdýragarðsins alifuglar? Ég fer þar stundum fram hjá og sé ekki að neitt hafi breyst. Þeir baða sig í tjörninni og eru að spássera á flötinni eins og ekkert hafi í skorist. Einn morguninn hjólaði ég þar í gegn og sá dularfullt grænhöfðapar vera að stjákla fyrir utan girðinguna og bra bra hvert við annað með erlendum hreim. Það getur varla vitað á gott. Ég heyrði í fréttum nýlega sagt frá erindi fuglafræðings sem lét hafa það eftir sér að umræðan um fuglaflensuna væri fyrir löngu komin út í tómt rugl og vitleysu. Það var mikið að það talar einhver af viti. Samkvæmt mogganum í morgun hafa 18 kínverjar smitast af fuglaflensu og 12 látist. Það ku hinsvegar búa vel á annan milljarð manna í Kína.
Feministafélagið bregður ekki vana sínum. Nú síðast sá ég viðtal við einhverja talskonu þess í sjónvarpinu fyrir nokkrum dögum þar sem hún var að fordæma það að konur vildu megra sig. Það var helst að sjá að umræða um megrun væri komin frá hinum svarta sjálfum in general í hennar augum. Nú er það alveg rétt að umræða um megrun getur gengið allt of langt, ungar stúlkur geta leiðst út í mikil vandræði þegar þær hafa fyrirmyndir tískublaðanna fyrir augunum þar sem er ekki grammi of mikið á skrokknum og svo framvegis. Einnig er auglýsingamennskan um ýmsa megrunarkúra á þann veg að oft er hún bara tómt skrum og kjaftæði. En síðan er hin hliðin. Það er erfitt og óheilsusamlegt að vera of feitur. Það á bæði við konur og karla. Það getur einnig haft áhrif á andlega líðan fólks. Talskonan sagði hins vegar að það væri konum eðlilegt að vera feitar og þannig ættu þær bara að vera. Punkt slut. Skynsamlegar leiðbeiningar um breyttar áherslur í mataræði í bland við hóflega hreyfingu hefur gjörbreytt lífi margra einstaklinga. Sjálftraustið eykst þegar kílóunum fækkar og þau nálgast það sem eðlilegt er, heilsan batnar og lífsgleðin almennt. Öfgarnar eru hins vegar jafnslæmar, sama úr hvrri áttinni þær koma. Á það jafnt við um skrum auglýsingamennslunnar og þröngsýni talskonu feminstafélagsins.
föstudagur, maí 05, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli