fimmtudagur, júní 22, 2006
Þegar maður keyrir eftir Langholtsveginum þá sér maður oft mótmælanda Íslands. Helgi trésmiður Hóseasson stendur þar gjarna með spjald í hendi. Ég hef lengi hugsað um að maður ætti að stoppa og spjalla við hann, gamlan manninn, þar sem hann stendur einn með spjaldið sitt. Af því hefur ekki orðið meðal annars vegna þess að ég var ekki viss um hvernig honum fyndist það að ókunnugt fólk væri að hafa samskipti við hann. Á sínum tíma sá ég myndina sem gerð var um hann og fannst hún betur gerð en ógerð. Ég man fyrst eftir Helga árið 1974 þegar hann sletti skyrinu á alþingismenn í mótmælaskyni við að hið opinbera vildi ekki afmá skírnarheitið af honum. Ég lét loks verða af því í dag að heilsa upp á hann því á morgun gat það orðið of seint eins og með svo margt. Fór og heilsaði upp á gamla manninn. Hann tók mér ljúflega og heilsaði mér með virktum. Hann hefur eina þá hljómfallegustu rödd sem ég hef heyrt í nokkrum manni. Áttatíu og sjö ára gamall stendur hann þarna dag eftir dag og viku eftir viku og heldur fram skoðun sinni. Hann sagði að oft væri hann þreyttur af því að standa svona hreyfingarlaus því skrokkurinn væri farinn að láta sig en sama væri. Hann hefði ekkert betra að gera. Einnig væri minnið farið að bila frá því sem áður var. Ef hægt er að leggja mat á efnahag eftir klæðum þá er hann bláfátækur. Hann býr enn í íbúðinni sem hann og kona hans bjuggu stóran hluta æfinnar í en ekkert á hann í henni. Hann sagðist hafa reynt að komast inn á elliheimili en verið hafnað sökum góðrar heilsu. Kannski óar elliheimilisforkólfum við því að fá svona mótmælenda inn á heimilin til sín. Ég er feginn að hafa látið verða af þessu og stoppa óhikað hjá honum hér eftir, til að spjalla og heyra hvernig hann hefur það. Hvet aðra til að gera hið sama því Helgi er merkilegur maður enda þótt skoðanir hans harmooneri kannski ekki í öllum tilvikum við það sem almenningi finnst vera eðlilegt. Það er bara allt annað mál.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli