Kom heim í gær frá Þýskalandi eftir vel heppnaða ferð með Víkingsstrákana. Þetta var alvörumót með mörgum góðum liðum sem gaman var að sjá. Víkingur fékk verðlaun fyrir íþróttamannslega framkomu sem veitt eru á mótinu. Þau komu meðal annars til vegna þess að í leik Víkinga og Kiev meiddist einn úkraníski leikmaðurinn svo að þurfti að alla á sjúkrabíl. Líklega höfðu brákast rifbein í honum eftir harkalegt samstuð við einn Víkinga sem var hrint á hann. Þjálfari þeirra Úkraníumanna lét eins og hann sæi ekki þegar dreingurinn lá þjáður á gólfinu en Anton þjálfari Víkinga stökk inn og hlúði að honum eins og sá úkraníski væri úr hans eigin liði. Þjóðverjarnir hundskömmuðu úkraníska þjálfarann á eftir fyrir framkomuna. Á sunnudaginn fórum við í stutta freð til Köln og kíktum meðal annars inn í dómkirkjuna og sáum endann á kaþólskri messu á hvítasunnudagsmorgni. Síða gengum við yfir á Köln arena sem er 20 þúsund manna íþróttahöll þar sem stórleikir í þýsku bundesligunni eru spilaðir. Það kitlaði strákana að sjá Guðjón Val Sigurðsson notaðan sem auglýsingaefni utan á húsinu og ekki var það lakara þegar inn var komið og við sáum kynningarbækling fyrir næstu heimsmeistarakeppni í handbolta sem verður haldin í Þýskalandi í jan- feb n.k. Í bæklingnum var aðeins mynd af einum handboltamanni sem glæsilegri fyrirmynd handboltamanna og það var áðurnefndur Guðjón Valur. Hann hafði verið kjörinn besti handboltamaður Bundesligunnar um helgina af þjálfurum og leikmönnum. Glæsilegt svo ekki sé meira sagt. Þetta kveikir vonandi ákveðinn neista hjá strákunum sem dæmi um hvað er hægt að ná langt með ástundun og aga.
Það hefur mikið gengið á í Framsóknarflokknum þann tíma sem ég hef verið í burtu og ekki séð fyrir endann á því sem þar er að gerast. Það er best að segja sem minnst um það dæmi allt en þó verð ég að segja að mér finnst í hæsta máta undarlegt að nokkrum manni skuli hafa dottið í hug að ætla sér að skipta um forystu í flokknum í heilu lagi og kynna það fyrir flokksmönnum án þess að til þess bærar stofnanir flokksins s.s. flokksþing hefði neitt um það að segja. Vitaskuld hefði aldrei náðst samstaða um slík vinnubrögð þannig að menn hefðu getað sagt sér sjálfir að hugmyndin var dauðadæmd fyrirfram. Þessar vangaveltur ásamt tilkynningu formannsins um afsögn hafa síðan hrundið af stað atburðarás sem ekki er séð fyrir hvernig endar. Auðvitað er eðlilegast að varaformaður taki við þegar formaður hættir á milli flokksþinga. Það kemur síðan í ljós hvort hann hafi brautargengi næsta flokksþings til áframhaldandi starfa. Sama gildir um aðra í forystu flokksins.
Nóg um þetta.
Ég hef lítið hlaupið síðan í Danmörku, notaði tímann úti til að hvíla fæturna en nú er mál að linni hvað hvíldina varðar. Í sumar ætla ég að einbeita mér að því að byggja upp hraða og undirbúa mig fyrir Laugaveginn með Esjugöngum, ég held að þolið sé þokkalega gott.
fimmtudagur, júní 08, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Til hamingju með hlaupið. Brillíant. Þú ert öndvegis fyrirmynd, ekki síður en Guðjón Valur. Annars ósammála þér um forystuskiptin. Sjálfsagt og eðlilegt í þessu tilfelli að varaformaðurinn víki líka.
Kv., Trausti Fannar.
Skrifa ummæli