Það hefur verið mikið fagnað á síðustu dögum. Konur hafa glaðst yfir kosningaréttinum sem þær fengu fyrir 91 ári og samkynhneigðir glöddust yfir því að geta gengið í staðfesta sambúð. Hvernig er það, hafa gagnkynhneigðir karlar enga svona hátíðisdaga til að fagna eða hafa þeir allir verið í hlutverki ráðandi yfirstéttar gegnum aldirnar sem hefur getað og mátt allt eða hvað? Ég held ekki. Yfirstétt landsins hér á öldum áður samanstóð að mestu leyti af körlum (embættismenn og stórbændur) en þó voru nokkrar öflugar konur þar innanum og samanvið segir sagan okkur. Megin þorri almennings var hinsvegar réttindalítill hvort sem um var að ræða konur eða karla á þeim sviðum sem við teljum vera sjálfsögð og eðlileg í dag. Ég rakst t.d. á pistil eftir Jón Fanndal á Ísafirði á Bæjarins Besta þar sem hann er að lýsa kosningum þar um slóðir um næst síðustu aldamót. Hann segir svo frá:
Fyrirliði hvítliðanna sem vildu setja Skúla (Thoroddsen)í tukthús var einmitt Þorvaldur Jónsson læknir sem var ákafur stuðningsmaður Hannesar (Hafstein) og veitti honum lið í kosningabaráttunni þegar Hannes bauð sig fram gegn Skúla sem þingmaður fyrir Ísafjarðarsýslur. Sú kosningabarátta var óvenju hörð og var ýmsum óheiðarlegum brögðum beitt. Þannig er frá þessu skýrt: „Hver sem vildi gat hlýtt á kosninguna og var þá skiljanlegt, þótt sumum þeirra, sem erfitt áttu og litlir voru fyrir sér, skirruðust við að ganga gegn vilja kaupmanna eða annarra ráðamanna. Flestir kannast við brennivínsveitingar kaupmanna á kjördegi en hitt skipti meira máli, að kaupmenn réðu fólk í vinnu og höfðu tök á skuldum þess og úttektum. Fáir dirfðust því að ganga gegn vilja þeirra, síst af öllu í svartasta skammdeginu, þegar tvísýnt var um alla björg, en kjördagur var jafnan einhvern fyrstu dagana í janúar.“ Þannig var það í þá daga.
Hvers virði var svona kosningaréttur þar sem þú þurfti að segja upphátt áheyrn þeirra sem þú áttir allt þitt undir hvað þú vildir kjósa. Ef þú kaust á móti vilja hans þá gast þú gengið að því vísu að fá ekki vinnu og lenda jafnvel á sveitinni. Þeir sem höfðu þegið af sveit höfðu síðan ekki einu sinni þennan auma kosningarétt. Mér finnst vera full ástæða til að halda því á lofti hvenær sú réttarbót var gerð að kosningar til sveitarstjórna og Alþingis urðu leynilegar, því þá mátti segja að almenningur hafi fengið raunverulegan kosningarétt. Ég hef sent fyrirspurn á Vísindavefinn um hvernig kosningaréttur almennings þróaðist en hef ekki fengið svar við því enn. Um þessi tímamót er hins vegar ekkert rætt í fjölmiðlum, líklega vegna þess að hér er um málefni karla að ræða.
Í Danmörku er haldinn einn stærsti hátíðisdagur þjóðarinnar þegar haldið er upp á að vistabandið (stambåndet) var lagt niður. Það eru ca 215 ár síðan. Hvenær heyrist minnst á það hérlendis og var ástandið í þeim málum þó ekki skárra hér en í Danmörku?
Það hefur verið mikið talað um að það séu mannréttindi samkynhneigðra að geta gengist undir gerfifrjógvun (þeir sem það geta) og gengið í staðfesta sambúð. Gott og vel, þetta plagar mig ekki og allt gott um það að segja. Á hinn bóginn plagar mig réttarstaða fráskilinna feðra. Hún er hins vegar mjög sjaldan rædd, líklega vegna þess að þar er verið að fjalla um kallafjandana. Það má vel vera að það sé einhverjum mjög mikið kappsmál að geta látið skrá sig í staðfesta sambúð en ég hef þá trú að það sé mörgum ekki síður stórt og mikilvægt mál að geta umgengist börn sín og fylgst með uppeldi þeirra og þroskaframförum á eðlilegan hátt jafnvel þótt faðir og móðir búi ekki saman. Í 95% tilfella fær konan forsjá yfir barni við skilnað. Karlinn verður þá oft í hlutverki "Tjörnin á sunnudögum og svo farið í ísbúðina" pabba. Hann hefur t.d. giska lítinn rétt til að fylgjast með skólagöngu barnsins ef ekki næst um það samkomulag milli foreldra ef móðirin hefur forsjána (í 95% tilfella). Það er ekki gert ráð fyrir að hann þurfi að hafa yfir húsnæði að ráða til að geta tekið börnin til sín um lengri eða skemmri tíma þar sem hann er einhleypur. Ég hef minnst á það áður að málefni einstæðra feðra eru mér nokkuð hugleikin með hliðsjón af örlögum frænda míns eins sem sá öll sund lokast eftir að hann hafnaði í hlutverki einstæðs föður þar sem umgengisréttur hans við börnin var takmarkaður eins og frekast var unnt. Það má vel vera að það sé rangt mat hjá mér en mér finnst umræða um mannréttindamál af þessu tagi vera ósköp fyrirferðarlítil í þjóðfélaginu.
Það var fín fréttin um Lapplandsfarana fjóra í Fréttablaðinu í morgun. Þau tóku sig vel út og þeim fylgja góðar óskir. Það eina sem ég hafði út á hana að setja var að vitaskuld átti hún að vera á íþróttasíðu blaðsins. Það pirrar mig svolítið að fréttir af ultrahlaupum eru, þá sjaldan þær birtast, settar undir ferðalög, almennar fréttir og eiginlega allstaðar nema á íþróttasíður.
Víkingur vann Skagann örugglega í gær. Einhvern tímann hefði maður farið sótsvartur ofan af skaga við svona úrslit en nú eru tímarnir breyttir.
fimmtudagur, júní 29, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli