Kom frá Sauðárkróki í gærkvöldi. Áttum þar góða helgi í ágætu veðri. Stelpurnar spiluðu fótbolta við stöllur sínar á góðum völlum Sauðkræklinga og var mótið allt hið besta. Það hefði mátt verða fjölmennara en að baki því lágu ákveðnar aðstæður sem ekki var við ráðið.
Það fór eins og ég átti von á að WSER reyndist hin mesta þolraun þetta árið eða réttara sagt meiri þolraun en að öllum jafnaði og er það nógu erfitt undir venjulkegum kringumstæðum. Hitinn var gríðarlegur eða um 40 stig í bæjunum og þá jafnvel meiri í gljúfrunum. Menn voru farnir að detta út vegna tímamarka strax í Robinson Flat eða eftir 25 mílur (40 km). Ég sé að Cowman hætti strax á Escarpment eða þegar hann var kominn á hæsta punkt í upphafi hlaupsins. Hann hefur séð að það væri engin meining í að halda áfram, búinn að fá stemnminguna í startinu og hitta kunningjana. Gordy Aingsleigh (59) kláraði hins vegar hlaupið á rúmum 29 klst. Í fyrra fór hann undir 24 klst. Rétt tæpir 400 hlauparar hófu hlaupið. 211 komu í mark en 191 hætti. Báðir norrænu hlaupararnir hættu á meðan á hlaupinu stóð. Ég sé að á Devils Thumb hætta nær 50 hlauparar. Þá er fyrra gljúfrið búið og hið seinna bíður eins og saunaklefi. Það var töluverður snjór fyrsta fjórðung hlaupsins eins og ég átti von á. Sá elsti sem kláraði hlaupið var 67 ára gamall það ég man.
Það eru svona aðstæður sem gera WSER að sérstöku hlaupi og einstakri þolraun. Ég þakka pent fyrir að hafa ekki lent í svona aðstæðum í fyrra. Nú standa vonir til að það líði nokkur ár þangað til svona bakarofn kemur aftur.
Ég sá gott viðtal við Svein Elías tugþrautarkappa í DV um helgina. Það hefur því miður ekki farið mikið fyrir umfjöllun um hinn góða árangur íslenskra ungmenna í fjölþraut í Noregi á dögunum. Íslensku strákarnir (Sveinn Elías og Einar Daði) unnu gull og bronsverðlaun í tugþraut undir 18 ára. Sveinn verður 17 ára í ár og Einar Daði er árinu yngri. Þeir öttu kappi við 10 stráka frá öðrum Norðurlandanna með þessum frábæra árangri. Ég er búinn að vita af þessum strákum síðan þeir voru pattar. Maður sá Svein Elías fyrst í götuhlaupunum með pabba sínum þegar hann var 10 - 12 ára gamall, grjótharðan og öflugan strák. Síðan þróaðist hann út í að stunda aðhliða frjálsíþróttaæfingar með frábærum árangri. Einar Daði æfði fótbolta með Víking þegar hann var yngri og vakti fljótt athygli fyrir hvað hann var öskufljótur að hlaupa. Hann var meðal annars sprettharðastur af öllum þegar hann keppti á Essomóti 5. flokks á Akureyri á sínum tíma þótt hann væri á yngra ári í flokknum. Helga Margrét vann silfur í kvennaflokki í sjöþraut á norðurlandamótinu og var ekki langt á eftir sænskri stúlku sem er talin vera ein hin efnilegasta í heiminum í þessari íþróttagrein. Helga hefur lengi verið yfirburða manneskja hérlendis í sínum aldursflokki og er gaman að sjá að hún er farin að takast á við þær sterkustu í sínum aldursflokki á Norðurlöndunum með frábærum árangri. Ég hef oft sagt að fjölmiðlamenn bera mikla ábyrgð. Árangur þessara unglinga og þjálfara þeirra er þess eðlis að hann verðskuldar ekki síður umfjöllun heldur en margt annað sem fjölyrt er um á íþróttasíðum af takmarkaðri ástæðu. Það er ekki lítið mál að íslenskir krakkar vinni 3 verðlaun af 6 á norðurlandamóti ungmenna í fjölþraut. Við erum 300 þúsund, á öðrum norðurlandanna búa rúmlega 20 milljónir. Það verður gaman að fylgjast með þessu efnilega frjálsíþróttafólki í framtíðinni.
mánudagur, júní 26, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli