laugardagur, júní 17, 2006

Tvær fréttir vöktu athygli mína öðrum frekar í sjónvarpinu í fyrradag. Önnur þeirra fjallaði um þau stórtíðindi sem gerst höfðu að einhver einstaklingur hafði skipt um vinnu og æki nú stórum vörubíl og færist það nokkuð vel úr hendi. Þessi núverandi vörubílstjóri er víst með lakkaðar neglur, strípur í hárinu, málaðar varir og ég veit ekki hvað eftir því sem sagt var í fréttinni. Reyndar höfðu þessi vistaskipti skapað vandamál fyrir gamalgróna vörubílstjóra eftir því sem sagt var í fréttinni þar sem þeir ættu erfitt með að halda bílum sínum á veginum þegar þeir mættu hinum nýja starfsmanni þar sem það lægi við að þeir sneru sig úr hálsliðnum þegar hann æki framhjá. Hvað ætli staðalímyndarsérfræðingur feministafélagsins segi um þennan fréttaflutning?

Hin fréttin var öllu alvarlegri. Tekið var viðtal við nokkra pólverja sem höfðu komið til landsins eftir 1. maí þegar landamærin voru opnuð og bjuggu í tjaldi á tjaldstæðinu í Laugardal. Þeir höfðu fegnið vinnu en ekki húsnæði. Það hafði ringt undanfarna daga svo tjaldið var orðið eitthvað blautt. Einnig var rætt við fulltrúa Rauða krossins og var fulltrúinn býsna áhyggjufullur á svipinn yfir ástandinu. Skyldi hann almennt fylgjast með ásigkomulagi tjaldbúa á sumrin?

Þegar ég var niðri í Þýskalandi um daginn þá ræddi maður um daginn og veginn við þá þjóðverja sem við kynntust best. Einn þeirra var kennslukona úr Dusseldorf á aldur við mig. Gæf kona og víðsýn sem sagðist ætla að flytjast til Krítar eftir að hún kæmist á eftirlaun þar sem henni líkaði betur við þarlent fólk en sitt heimafólk. Hún lýsti ástandinu í Þýskalandi sem hörmulegu á mörgum sviðum. Fólk úr Austur Evrópu flykkist þangað hundruðum þúsunda saman eða í milljónavís. Í Austur Þýskalandi hefur íbúum fækkað um þrjár milljónir eftir sameiningu ríkjanna. Rússarnir flæða austur yfir í leit að betra lífi. Þeir búa hvar sem möguleiki er á s.s. í kofum, gámum, tjöldum, stigagöngum og ég veit ekki hvað. Staða þessa fólks heima fyrir er með slíkum ósköpum að það er allt betra en að búa áfram við óbreytt kjör. Hún sagði að kostnaður ríkis og sveitarfélaga í Þýskalandi vegna hins félagslega ástands væri þvílíkur að sveitarfélögin hefðu varla efni á nokkrum sköpuðum hlut lengur utan brýnustu lögbundinna verkefni. Það væri verið að loka leikskólum í stórum stíl vegna þess að sveitarfélögin hefðu ekki efni á að halda þeim gangandi. Á margan hátt er tilfinning mín sú að þróunin hérlendis sé svona 20 árum á eftir því sem gerðist á norðurlöndunum og norður Evrópu. Nú vantar vinnuafl hérlendis og erlent vinnuafl er flutt inn í stórum stíl. Þetta sama gerðist í löndunum í krngum okkur fyrir nokkrum áratugum. Staðan breyttist síðan þar og atvinnuleysi upp á 6 - 10% þykir ekkert sérstakt. Við verðum að móta okkur skýra stefnu í þessum málum og hafa glögga framtíðarsýn hvernig menn vilja láta þessi mál þróast ef þjóðfélagið á ekki að sigla beint upp í brimgarðinn á eftir nálægum ríkjum. Verst er að ef einhverjir voga sér að ræða þessi mál á annan hátt en fjölmenningarliðið gerir þá eru menn stimplaðir rasistar og öfgamenn. Öfgalaus en raunsæ umræða verður að komast að.

Áftur að Pólverjunum í Laugardalnum. Til hvers er þessi fréttaflutningur Stöðvar 2? Býr ekki fólk í tjöldum í Laugardalnum alla vega hálft árið og veðrið er bara eins og það er? Ég veit ekki til að sjónvarpið hafi mætt á vettvang til þessa í hvert skipti sem hafi blotnað tjaldbotn. Þessi fréttaflutningur er greinilega gerður til að skapa þrýsting á stjórnvöld að gera eitthvað í málinu, setja upp búðir eða að auka fjárveitingar til Rauða krossins svo hann geti leigt þessum mönnum herbergi eða eitthvað álíka. Hvað myndi gerast næst ef umræddum tjaldbúum yrði boðið húsnæði? Það væri hringt samstundis til Póllands og þarlendum tilkynnt að það sé nú eitthvað betra að fara til Íslands út í óvissuna heldur en Þýskalands þar sem menn þurfi að búa í gámum eða stigagöngum. Hér komist menn í sjónvarpið um leið og málunum sé svo bara bjargað? Komið hingað sem flestir.

Ég fékk bréf í gær frá félagsmálaráðuneytinu þar sem mér var tilkynnt að ég sé skipaður varamaður í nefnd sem hafi það hlutverk að endurskoða lög frá árinu 2000 um jafna stöðu karla og kvenna. Varamenn hafa svo sem ekki miklu hlutverki að gegna í svona nefndum að öllu jöfnu. Ég veit ekki hvernig ég á að taka þessu. Kannski á að reyna að kristna kvikindið eða láta það standa fyrir máli sínu? Kemur í ljós.

Engin ummæli: