mánudagur, júní 19, 2006

Fór í gott hlaup með hinum síbreytilegum Vinum Gullu í gærmorgun. Í gær voru vinirnir Hafrún Rauðagerðisbúi, Ragnheiður Vald. Maggi frændi og undirritaður. Alls gerði dagurinn 24 km ásamt miklum og djúpum samræðum um margvísleg málefni. Esju / Leggjabrjótskeppnin var í gær. Þetta er alvöru þraut. Fremstu menn kláruðu á um 9 klst. Flott að koma á svona keppni sem skilur eftir sig innlegg í reynslusjóðinn hjá þeim sem tóku þátt í þessu og eins hjá þeim sem langar til að takast á við þetta verkefni síðar. Næringarþátturinn skiptir miklu máli í svona verkefni, að borða og drekka reglulega og ekki bara gel og blávatn.

Í dag er 19. júni, kvenréttindadagurinn. Ef ég ætti að taka undir tón dagsins þá ætti ég að skrifa mærðarfulla grein um hvað jafnréttisbaráttan gengi hægt, karlar væu á margan hátt valdafíknir og allt það og klykkja út með því að enn sitji engin kona í stjórnum á Verðbréfaþingi. Ég er ekki í stemmingu fyrir það. Sá til dæmis leiðara í Fréttablaðinu í morgun sem er skrifaður af konu. Hann hefst á því að minnast á að konur hafi fyrst fengið kosningarétt fyrir níutíu árum og þá einungis þær sem voru 40 ára og eldri. Ekki ætla ég mér þá dul að fara að setja mig í dómarasæti yfir því samfélagi og þeim tíðaranda sem ríkti hér fyrir 90 árum. Það segir mér ekkert hvort ástandið var gott eða lélegt hérlendis á þeim tíma. Það myndi hins vegar segja mér nokkuð ef maður sæi samanburð um hvort Ísland hafi verið mörgum öldum á eftir öðrum þjóðum í þessu efni eða á undan einhverjum löndum. Slíkt segir nokkuð til um andann á hverjum stað en ekki hráar tölur án viðmiðunar. Þessu til áréttingar má minna á að ég heyrði frétt um það kl. 8.00 í morgun að í fyrsta sinn hefði kona verið kjörinn biskup í Bandaríkjunum innan einhverrar kirkju. Einungis væru tvö önnur lönd í heiminum þar sem kona hefði verið kjörinn biskup innan þessarar sömu kirkju. Í mjög mörgum löndum væri meir að segja talið óhugsandi að konur gegndu starfi prests sagði í fréttinni. Hver er staða Íslands í þessu samhengi? Í Fréttablaðsforystugreininni var það einmitt gert að umræðuefni að kona hefði ekki verið kjörin biskup hérlendis og tekið sem dæmi um að jafnréttisbaráttan væri mjög stutt komin. Hér gegna margar konur prestsembætti og gera það með miklu sóma. Vitaskuld verður kona biskup innan tíðar. Það er mest undir sjálfum þeim komið hvenær það verður.

Kona hefur ekki orðið forsætisráðherra og ekki bankastjóri. Þetta eru náttúrulega stórmál í augum ýmissa. Það heyrist hins vegar nú orðið mjög sjaldan minnst á það að Ísland var fyrst allra landa til að kjósa konu sem þjóðhöfðingja, meir að segja einstæða móður. Það sem mestu máli skipti í því samhengi var að þar valdist til verka frábær einstaklingur sem hefur hlotið verðskuldaða virðingu víða um heim. Það virðist ekki skipta máli í huga þeirra sem sjá stjórnarsetur í fyrirtækjum á Verðbréfaþingi vera eitt helsta vígi jafnréttisbarátturnnar sem þurfi að sigra. Hví er t.d. ekki lögð áhersla á að það sé þokkalegt jafnrétti í ráðningum kennara í grunnskólum landsins eða leikskólum?

Mér finnst þessi umræða um kynjajafnvægi í stjórnum fyrirtækja á Verðbréfaþingi vera eitt af því vitlausasta sem ég hef heyrt lengi í tengslum við umræðu um jafna stöðu kynjanna. Af hverju bara konur og karlar? Af hverju ekki ungir og gamlir svo annar átakaflötur sé nefndur. Þarf síaðn ekki að koma fulltrúa nýbúa í stjórnir fyrirtækja á verðbréfaþingi. þetta eru kannski afkáralegir útúrsnúningar en ef ég væri ráðandi aðili í fyrirtæki á verðbréfaþingi sem ég hefði keypt með fjármagni sem ég ætti sjálfur þá fyndist mér kjörnun fulltrúum þjóðarinnar ekki koma nokkuð við hvernig ég raðaði saman stjórninni. Ef ég vildi bara hafa vini mína í stjórninni þá er það mitt mál. Ef það er hins vegar viðskiptalegur ávinningur að hafa jafnt kynjahlutfall þá gerir maður það vitaskuld sem góður businessmaður. Það að komast í stjórnir fyrirtækja á Verðbréfaþingi er slagur um völd og áhrif og þeir einstaklingar sem vilja komast þangað inn en eru þar ekki í dag verða versogú og spís að taka þann slag.

Sá í 19 júní að Ari Hole, framkvæmdastjóri ráðuneytis jafnréttis og barna í Noregi er einn af hugmyndafræðingum lagasetningar í Noregi um þessi mál. Ég kynntist Ari á sínum tíma úti í Noregi á ráðherrafundi árið 1990. Mér kemur ekki alveg á óvart að hún skuli aðhyllast þessa hugmyndafræði. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist þegar Stoltenberg fer að hóta að leysa upp fyrirtæki á Verðbréfaþinginu í Noregi.

Það er margt í þssari umræðu sem minnir mig á gamla vísu sem er svona:

Lastaranum ei líkar neitt.
Lætur hann ganga róginn.
Finni hann laufblað fölnað eitt
þá fordæmir hann skóginn.

Eða kannski er það undirritaður sem er að misskilja allt saman. Það væri svo sem eftir öðru!!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ,
ég bíð eftir umfjöllun um kvennaleikinn! Hélt hún væri komin inn og í tilefni af deginum var ég þess eiginlega fullviss. Koma svo!