föstudagur, júní 09, 2006

Sat miðstjórnarfund Framsóknarflokksins í dag. Ræðu formannsins var útvarpað og því þarf ekki að segja hvað hann sagði þar. Síðan fóru fram hreinskiptar umræður um innanflokksmál fyrir lokuðum dyrum og því segir maður ekki frá því sem þar fór fram. Þó er leyfilegt að mínu mati að segja frá því að ýmsir kvörtuðu yfir því að það væri ekki hægt að treysta því að það væri ekki komið í fjölmiðla innan skamms sem rætt væri á lokuðum trúnaðarfundum innan flokksins.

Ljóst er að mikið og erfitt starf bíður þeirrar forystusveitar sem kjörin verður á flokksþingi í haust að byggja flokkinn upp úr núverandi stöðu, bæði innan flokks sem utan.

Fer til Eistlands i fyrramálið og verð þar fram á þriðjudag. Hef aldrei komið þangað áður. Ætla að stoppa dag í Tallin og skoða borgina. Tek hlaupaskóna með því það er árangursrík og fjótvirk aðferð að skoða nýjar borgir með því að skokka um þær. Ég sé ekki fram á að komast á Mývatnsmaraþonið því það er fótboltamót á Króknum á sama tíma hjá Maríu. Ég hef látið mín mál vera það mikið í forgrunni að undanförnu að það er kominn tími til að aðrir hafi forgang.

HM byrjaði í dag. Ég hef ekki keypt áskrift að SÝN ennþá þrátt fyrir að ég finni fyrir nokkrum þrýstingi þar um. Kannski það verði látið verða af því en sama er, það má ekki kosta hvað það vill.

Ég hef verið að lesa bókina Distance Running að undanförnu en hún er eftir Norrie Williamsson en hann býr í Suður Afríku og hefur sigrað Comerates nokkrum sinnum, sem sagt gríðarlegur hlaupari. Hann skýrir þann gríðarlega áhuga sem er fyrir Comrates í Suður Afríku þannig að á þeim tíma sem Suður Afrískir íþróttamenn fengu ekki að etja kappi við erlenda kollega sína vegna stjórnmálaástandsins, þá lögðu þarlendir fjölmiðlar sig fram um að sinna íþróttaviðburðum í landinu þeim mun betur. Með vandaðri umfjöllun þarlendra fjölmiðla byggðist upp þessi gríðarlegi áhugi fyrir Comerates sem hefur gert hlaupið að heimsviðburði. Maður veltir fyrir sér í þessu sambandi hvernig innlendir fjölmiðlar sinna langhlaupum hérlendis. Það er vægast sagt lítið. Laugavegurinn er gott dæmi um það. Umfjöllun fjölmiðla um Reykjavíkurmaraþon er annað dæmi. Þrátt fyrir þetta eigum viuð harsnúinn hóp ultrahlaupara sem fer stækkandi ár frá ári. Maður getur hins vegar ekki annað en velt fyrir sér hvernig þróunin yrði ef langhlauparar fengju álíka umfjöllun og t.d. strandblak.

Engin ummæli: