Kom heim í gærkvöldi frá Eistlandi. Sat ráðstefnu um sveitarstjórnarmál á hotel Laulesmaa sem er rúma 30 km fyrir utan Tallin. Það var mjög gaman að koma til landsins og sjá þær gríðarlegu breytingar sem hafa átt sér stað þarna eftir fall Sovétríkjanna og heljarkló þeirra var létt af landinu. Það er ómögulegt að reyna að setja sig inn í þær breytingar sem hafa átt sér stað í landinu, þær eru svo gríðarlegar. Fólk lýsti fyrir okkur ástandinu fyrir rúmum fimmtán árum síðan þegar staðið var í biðröð klukkutímum saman í ríkisversluninni í Tallin (þar búa 400 þúsund manns) vegna þess að það gat skeð að það yrði hægt að kaupa efni til sósugerðar!!! Undir það síðasta var ekkert til, engar vörur, ekkert. Svo þegar Eistar tóku upp sinn eigin gjaldmiðil, þá varð allt fullt af vörum í öllum búðum. Rússneska rúblan var orðin einskis virði. Í gær fórum við í heimsókn í forsetahöllina og þinghúsið. Í forsetahöllinni hittum við forsetann og innanríkisráðherrann. Forsetinn núverandi leiddi andófið gegn Sovétmönnum á árunum fyrir 1990. Það var áhrifamikið að heyra hann lýsa átökunum við rússneska þingið þegar Eistarnir stóðu fámennir klukkutímum saman fyrir framan samkomu fleiri þúsund rússa undir hótunum um fangelsanir og þaðan af verra ef þeir létuekki af þessu sjálfstæðisbrölti. Þeir stóðu fastir á sínu og fengu til þess óskoraðan stuðning heima fyrir. Sjálfstæðisbarátta baltnesku ríkjanna var þúfan sem leiddi síðan til hruns Sovétríkjanna. Það er ánægjuleg staðreynd að íslensk stjórnvöld báru gæfu til þess að leggja þar hönd á plóg sem skipti gríðarlegu máli á sínum tíma. Torgið þar sem helstu ráðuneyti Eistneska ríkisins standa við í Tallin heitir Íslandstorg.
Gamli bærinn í Tallin er mjög sérstakur og nokkuð vel varðveittur. Hann byggðist upp á þeim tíma þegar Estrasaltið var miðstöð verslunar og viðskipta í Skandinavíu, norður Evrópu og austurvegi. Það er þó gríðarlegt verk framundan hjá þeim varðandi viðhald húsa eftir áratuga vanhirðu undir Sovéttímanum. Á Gotlandi er áþekkur gamall bær sem hefur byggst upp á svipuðum tíma.
Í Skandinavíu og í Eystrasaltslöndunum var hitabylgja, 25 - 30 stiga hiti. Það var fínt að taka góða hlaupatúra seinni part daganna þegar heldur var farið að verða svalara. Ég finn ekki annað en að allt sé í besta standi nema kannski hafa bæst við nokkur kíló í þessu hvíldartímabili. Það verður bara að taka á því.
miðvikudagur, júní 14, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli