Spartathlon 2008
„Nu er du en vuxen mann Gunnlaugur, större kan det ikke bli““ sagði Eiolf Eivindssen, hinn norski félagi minn, þar sem við sátum eins og rómverskir keisarar í móttökutjaldinu við hliðina á styttu Leonidasar i Spörtu með lárviðarsveig á höfði og fagrar grískar yngismeyjar lauguðu fætur okkar nærfærnum höndum.
Langri leið var lokið, bæði hvað varðaði undirbúning fyrir þetta mikla hlaup og síðan átökin í hlaupinu sjálfu. Allt hafði gengið upp. Það er ekki sjálfgefið. Tölfræðin segir manni að um 1/3 hluti þeirra sem leggja af stað ár hvert nái í mark. Vissulega er hlutfallið aðeins misjafnt milli ára en í 26 ára sögu hlaupsins er þetta niðurstaðan. Á það ber að minna að menn eru ekki teknir í hlaupið nema að hafa staðist ákveðnar lágmarkskröfur svo hér eru ekki neinir byrjendur á ferðinni.
Ég kom til Aþenu á aðfaranótt þriðjudags. Til að venjast aðstæðum aðeins betur og ná tímamuninum út dvaldi ég einum degi lengur en í fyrra. Á hótel London á þriðjudagsmorgun hitti ég Eiolf sem var í sínu sjöunda Spartathlon hlaupi, Trond Sjövik, gríðarlega reyndan ultrahlaupara sem meðal annars hefur hlaupið þrisvar yfir Þýskaland (1200 km) og varð eitt sinn í öðru sæti þar. Hann varð þriðji í Trans Gaul í sumar sem er hlaupið yfir Frakkland. Það er 1100 km langt og hlaupið á 18 dögum, Geir Fryklund, reyndan ultrahlaupara sem hefur einnig haldið út hinni fínu Kondis.no/ultra síðu og svíann Kent Sjölund frá Arnboga i Norrbotten. Hann lauk meðal annars Balaikaultramarathoni í Ungverjalandi i sumar í 37 – 40°C á um 31 klst. Það hlaup er rúmir 200 km að lengd. Við héldum svo mikið sjó saman á meðan á Grikklandsdvölinni stóð. Þarna voru einnig fleiri kunnungir norðurlandabúar, Kim Rasmussen, hinn mikli hlaupari, Lars Skytte frá Danmörku sem náði gríðarlega góðum árangri í 48 tíma hlaupinu á Borgundarhólmi í vor, svíinn Matthias Bramstrang sem hljóp m.a. Trans Gaul í sumar. Síðan hitti ég finnana og meðal þeirra var hlaupafélagi minn frá í fyrra sem ég hljóp með sem lengst. Nú vorum við báðir þarna kom nir í annarri tilraun. Hann minnti mig á að ég hefði sagt í fyrra rétt áður en ég hætti að myndi aldrei koma aftur í þetta helvítis hlaup. Svona er þetta, það breytist ýmislegt.
Norðmennirnir og Kent höfðu ætlað að taka nokkra daga í að venja sig við hitan en nú brá svo við að það hafði ekki verið neitt heitt heldur skýjað og rigningarskúrir öðru hverju. Þeir voru því heldur vonsviknir yfir því sem átti að vera lokahnúturinn á uppherslunni. Höskuldur hafði einnig komið niður eftir um helgina. Hann hafði m.a. notað tímann til að hvíla sig eftir mikið vinnuálag og tekið því rólega. Við notuðum tímann til að fara yfir áætlanir okkar fyrir hlaupið, skipuleggja útsendingu á drykkjarstöðvar, hvar við þyrftum á hverjum hlut að halda o.s.frv. Þetta er dálítið mál og sérstaklega þegar maður þekkir ekki seinni hluta leiðarinnar nema að á kortinu var sýnt að þar væru tvö fjöll.
Eftir reynsluna frá því í fyrra hafði ég ákveðið að stjórna eins miklu og ég gæti sjálfur. Fækka óvissuþáttum eftir megni og treysta sem mest á sitt eigið. Ég sendi 8 poka út á brautina. Í þeim var Herbalifeprotein i plastpokum sem var ætlað að vera aðalnæringin í hlaupinu og ég ætlaði að nota með vissu millibili, þrjú pör af skóm og sokkar, síðbuxur, blússa, nokkrar skyrtur, bæði síðerma og léttari bolir, tvö vasaljós og batterí, gel, próteinstangir, steinefnatöflur, plástrar, skæri, orkudrykkjaduft og klósettpappír. Þessu var deilt út á þá brautina eftir því sem við töldum að þörf væri fyrir hendi. Höskuldur var með álíka plan.
Skráning í hlaupið var í anddyri hótelsons á miðvikudaginn og þá var einnig upplýsingafundur. Þetta pláss hefur dugað vel þegar þáttakendur voru á bilinu 50 til 100 en þegar þeir eru orðnir hátt á fjórða hundrað þá er þetta hálfgerð kaos. Margir stóðu utan dyra. Til viðbótar fyrir klassískar upplýsignar var sagt frá því að hjálparmenn í bílum mættu einungis hitta hlauparana á ákveðnum drykkjarstöðvuð. Annars mættu þeir bara taka myndir úti á vegum en ekkert aðstoða þá. Ef það væri gert yrði viðkomandi hlaupara vísað úr keppni ef upp kæmist. Manni sýndist að þetta væri ekkert síður beint að Scott Jurec en öðrum því hann hefur ætíð verið með góðan hóp með sér sem hefur fylgt honum eftir á bíl.
Á miðvikudaginn komu þrír kóreyjubúar í herbergið til mín. Þeir voru brosmildir og þægilegir en við gátum svo sem ekki mikið talað saman. Einn þeirra sagðist þó hafa tekið þátt í Western States og klárað það á rúmum 18 klst. Það er svakalega gott. Hann sagðist síðan hafa verið nr. 2 í hlaupinu árið 2006 þegar hlaupið var hálfnað en þá fór allt í baklás og hann kláraði hlaupið á 35 klst 50 mínútum. „Bad race, bad race“ sagði hann sorgmæddur. Þeir plástruðu sig svakalega og ekki bara á tærnar heldur einnig á kálfana og lærin. Einn sá ég plástraðan um allt með litlum hringlaga plástrum. Þetta plástrasystem á að virka til þess að auka blóðflæðið í kálfunum. Hvort þetta er eitthvað trúaratriðið eða hvað veit ég ekki.
Þeir sofnuðu á kvöldin eins og slökkt væri á þeim en verst var að einn þeirra hraut dálítið mikið. Það gerði það að verkum að ég svaf ekki alltof mikið þrátt fyrir eyrnatappa. Með því að setja koddann yfir haus náði maður þó að bægja hrotunum aðeins frá sér.
Rúturnar fóru af stað á sjötta tímanum á föstudagsmorgun frá hótelinu og við vorum komin að Acropolis á sjöunda tímanum. Við Höskuldur gerðum okkur klára, báðir dálítið stressaðír. Það er ekki lítið mál að vera kominn um langan veg til að taka þátt í verkefni sem allsendis óvíst er um hvort gangi upp. Sama gildir vafalaust um aðra. Eftir myndatökur og annað sem dreifði huganum þá gall skotið og strollan rann af stað niður brekkuna og út á stræti Aþenu í næturrökkrinu en skammt var til dögunar. Maður fann vel hve það var mikið svalara en í fyrra. Það var ekki þessi þrúgandi hiti og raki sem ætlaði að ganga frá manni frá fyrstu stundu. Það gekk vel að komast út úr Aþenu og ég fann vel að ég var léttur í spori og í sjálfu sér nokkuð vel á mig kominn. Ég kveikti af og til á Garminum til að stilla hraðann en ég ætlaði að vera frekar rólegur til Korinth þar sem 81 km er búinn. Drykkjarstöðvarnar komu og fóru en ég kom ekkert við á þeim. Ég var með orkudrykk sem dugði mér fram um eitt maraþon. Ég fór fljótlega að átta mig á því að ég mundi afar lítið eftir leiðinni frá því í fyrra þegar komið var út úr Aþenu. Í sjálfu sér myndi ég bara eftir fjórum stöðum, skólanum þar sem krakkanrir stóðu og klöppuðu, fallegu útsýni meðfram strandlengjunni, olíuhreinsunarstöðinni og síðan skipaskurðinum við Korinth. Öðru mundi ég bara ekkert eftir. Maður hafði öðru að sinna þá en að festa myndir í minnið. Nú leið mér afar vel og naut hlaupsins. Þó hafði ég af því smá áhyggjur að eeftir um 50 km fór ég að finna fyrir smá stirðleika framan á hægra lærinu. Brekkurnar voru miklu lengri og erfiðari en mig minnti. Ég gekk upp allar langar brekkur til að spara kraftana. Þegar um 60 km voru liðnir sá ég að ég var að fara of hratt miðað við tímamörkin. Ég hægði þá markvisst á mér og fór að ganga meira. Á einum stað í þorpi sýndu hitamælarnir 28°C og 32°C. Ég held að lægri talan sé réttari. Þó að það væri þetta heitt þá skipti hitinn mig engu máli. Ég svitnaði rétt hóflega, stoppaði aldrei til að væta mig eða hella vatni á hausinn eins og margir gerðu. Hitaæfingarnar í Laugum skiluðu sér svo sannarlega vel.
Ég kom til Korinth rúmlega kl. 15.00 en ætlaði að vera þar um kl. 16.00. Það var bara svona, ég hafði líklega verið of hraður án þess að vilja það. 81 km búnir en rúmir 160 eftir. Þar átti ég skó og sokka. Ég veit ekki fyrr en Trond stendur með pokann minn tilbúinn. Hann hafði þá hætt eftir 50 – 60 km þegar maginn sagði stopp. Hann hafði fengið illt í magann dagana fyrir hlaupið og var ekki búinn að jafna sig. Svona getur þetta verið því miður fyrir þennan mikla hlaupara. Hann sagði að Eiolf hefði farið fyrir 10 – 20 mín síðan. Ég fór frá Korinth kl. 15.20 og var þá 1 klst og 20 mín undir tímamörkum.
Eftir Korinth fer maður frá ströndinni og inn í landið. Það er heldur þægileg hlaupaleið gegnum vínekrur og smá þorp. Krakkarnir eru á hjólum á götunni, spyrja hvaðan maður sé og biðja um eiginhandaráritanir. Þær voru svona í styttra lagi. Ég fann nú einnig fyrir smá stirðleika í vinstra lærinu. Líklega hafði ég einfaldlega verið og slakur við að hlaupa niður brekkur. Það varð hins vegar ekki aftur tekið en góð áminning um að maður tekur ekki meira út en innistæða er fyrir hendi í þessum bransa. Tímin leið og allt gekk vel. Ég fann út að með því að skokka á þeim hraða sem þreytti mig ekki, ganga rösklega upp og niður lengri brekkur þá náði ég að bæta við innistæðuna sem svaraði um 5 mín á milli hverra drykkjarstöðva. Ég vissi að því meira sem ég átti inni því meira væri öryggið þegar á hlaupið liði en á hinn bóginn varð ég að gæta þess að fara ekki of rösklega í að byggja innistæðuna upp. Það myndi hefna sín. Það var gaman að fara fram hjá staðnum sem ég hætti á í fyrra eftir um 150 km og bera saman stöðuna þá og nú. Þá var allt komið í steik en nú var allt í fínu lagi.
Nú tóku við ókunnar lendur. Ég vissi ekkert hvað við tók nema að það átti eftir að fara yfir tvö fjöll og annað þeirra var hátt. Leiðin liðaðist áfram gegnum þorp og inn dal og alltaf heldur upp á við. Ég skipti aftur um skó og sokka í Lyrkia. Það er mikið mál að reyna að sinna fótunum vel því ef þeir sleppa við vandræði er margt hægt. Nú var maður farinn að finna verulega fyrir álaginu í báðum lærunum en annars var ekki að finna að neitt væri að. Maginn var fínn, engin nuddsár eða blöðrur. Ég hafði átt síðbuxur og langerma bol í poka um það leyti sem fór að dimma og síðar um kvöldið átti ég blússu í poka. Hvoru tveggja var mjög nauðsynlegt því það fór kólnandi eftir því sem leið á kvöldið. Vasaljósið var einnig komið í hendina en það er aldimmt í u.þ.b. 12 tíma. Loks var komið að fjallinu sjálfu. Leiðin upp það lá í upphafi í löngum sniðum sem maður kraftgekk eftir bestu getu. Enskur hlaupari kom aftan að mér og spurði hvort hann mætti nota birtuna hjá mér því vasaljósið hans reyndist bilað. Vitaskuld mátti hann það en ég talaði sem minnst við hann því ég vildi ekki tengjast neinum hlaupara einhverjum böndum í hlaupinu sjálfu því þá getur fókusinn farið út um þúfur. Mér datt heldur ekki í hug að lána honum varaljósið mitt sem ég var með á hausnum. Það var löng leið eftir í myrkrinu. Sniðin voru afar löng en loks komst maður á enda þeirra. Þá sá maður ljósaröðina sem merkti stíginn yfir fjallið hlykkjast upp hlíðina upp í 1200 metra hæð og þar fyrir ofan stjörnubjartan himininn. Falleg en dálítið ógnvekjandi sjón. Ég stoppaði ekkert á drykkjarstöðinni heldur byrjaði strax að paufast upp stíginn með það í huga að það er ekki eftir sem búið er. Stígurinn er erfiður því hann er bæði brattur og grýttur. Á vissum stöðum er hann hálfgert einstigi. Hann er leiðinlegur í dagsbirtu en hvað þá fyrir þreytta hlaupara með stirða fætur í myrkri. Mér finnst ekki skrítið að hann reynist mörgum erfiður sem eru óvanir príli. Það gekk allt saman og að lokum var maður uppi í skarðinu en síðan lá leiðin beint niður aftur. Þetta er eins og Siglufjarðarskarð nema um 400 metrum hærra. Leiðin niður var ekkert betri. Það var grýttur malarstígur í sniðum. Hann var svo brattur og grófur að það var ekkert vit að reyna að skokka hann niður heldur varð að ganga eins og hægt var. Hækkunin hafði tekið töluvert innan úr fótunum svo nú var hraðinn farinn að minnka nokkuð. Á þessum tíma var ég um tveim og hálfum tíma undir tímamörkun og því orðinn nokkuð bjartsýnn en sama var, það var löng leið til Spörtu eftir eða nær 80 km.
Í þorpinu Sanga átti ég poka með plástri og skærum, skó, sokka og second skin plástri. Þegar þangað var komið settist ég niður og græjaði málunum. Smá blaðra var á annari stóru tánni og vísir að blöðru á hinni. Ég plástraði báðar vel, setti nýtt second skin undir jarkana, klæddi mig í skó og sokka og ætlaði af stað. En þá fór í verra. Skrokkurinn var eiginlega fastur. Ég hríðskalf einnig enda ekki á mér þurr þráður og hitinn töluvert undir 10 gráðum. Nú voru góð ráð dýr. Skrokkurinn hefur örugglega gert ráð fyrir að nú væri nóg komið að sinni eftir að vera búinn að hlaupa um fjögur maraþon. En það voru tvö eftir eða svona sirka langt eins og frá Reykjavík yfir Hellisheiði austur að Þjórsá. Ég brölti áfram bálreiður. Nú hófst baráttan milli anda og efnis. Andinn barði skrokkinn áfram með látum; „Ætlarðu að fokka þessu upp auminginn þinn“? Smám saman fór skrefunum að fjölga. Eitt og eitt, tvö og tvö. Maður tautaði við sjálfan sig „Áfram, áfram“ og smám saman fór skrokkurinn að liðkast. Síðan fór maður að beita verðlauna aðferðinni. Ef maður hleypur 100 skref þá fær maður að ganga 50. Ef maður hleypur að ákveðnu kennileyti þá má maður ganga að öðru og svo framvegis. Svona tókst að ná upp smá skriði aftur.
Eftir nokkra tíma fór að birta og þá fór strax að hlýna. Þá varð allt auðveldara. Eftir að frá fjallinu var komið tóku við langar sléttar leiðir sem gaman hefði verið að rúlla í þægilegheitum ef allt hafði verið normalt en því var ekki því að heilsa lengur að það væri hægt. Lærin voru orðin ansi stirð og maður fylgist fyrst og fremst með því hver innistæðan væri í tímanum. Hún hélst nokkuð jöfn eða um tveir klukkutímar. Á meðan svo var var ég heldur rólegur en vissi að það mátti ekki slaka á neinu. Eftir dagrenningu náði ég Eiolfi félaga mínum. Hann kvartaði undan verk aftan í öðrum kálfanum. Ég var með verkjastillandi krem og lét hann fá og hann smurði sig vel. Vonandi hefur það eitthvað hjálpað honum. Sólin var nú komin upp og landið allt að lifna. Grískir vínberjabændur voru í óða önn að gera sig klára fyrir uppskerustörf dagsins. Miðað við tækjakost þeirra þá er afkoman ekki beysin. Manni fór að hitna vel og það gerði allt auðveldara. Um kl. 9.00 hitti ég Kim Rasmussen og félaga hans. Þeir sögðu mér að það hefðu borist fréttir af því að Lars Skytte félagi þeirra væri í þriðja sæti. Kim hefur náð 10 sæti í þessu hlaupi og lokið því fjórum sinnum. Nú var hann í hægari gír. Framundan var seinna fjallið. Ég kom að því um kl. 9.30. Löng brekka var framundan. Upp hana var þrælast og það var eins og hún ætlaði aldrei að taka enda. Síðan tóku við allt að því endalausar brekkur bæði upp og niður. Þegar maður er orðinn lerkaður virðast þær bæði langar og brattar. Það var ekki mikið hlaupið úr þessu enda er þetta alltaf spurning um hvað á að gera og hvað ekki.
Á tímabili hafði ég áhyggjur af sólinni. Þegar maður starir niður í veginn klukkutímum saman í heitri sól verður maður smám saman hálf ringlaður. Ég hafði ekki sent út nein sólgleraugu á seinni daginn og það gat hefnt sín. Sem betur fer kom það ekki að sök. Það hafði finni verið mér samferða í nokkuð marga klukkutíma. Stundum var ég á undan og stundum hann. Þegar um 15 km voru eftir fór hann að hlaupa og hvarf. Þá fór ég að hugsa hvort ég ætti að gera slíkt hið sama. Ég gæti þrælast hraðar áfram en þá væri líka hætta á að ég myndi bræða endanlega úr lærunum. Ég vissi að það hlaut að vera brött brekka eftir og niður hana varð ég að komast skikkanlega. Loks sást til Spörtu í fjarska og þá skynjaði maður að björninn væri hér um bil unninn. Svo var komið að brekkunni niður af heiðinni. Hún var 5.9 km löng. Ég kraftgekk hana niður en ofarlega í henni gekk ég fram á finnann þar sem hann staulaðist niður og fór hægt yfir. Hann hafði greinilega tekið út það sem ekki var til og þurfti að þverganga niður. Hann kom síðan í mark þremur korterum á eftir mér. Þegar komið var niður af heiðinni voru 4 km eftir. Ég þvoði mér í framan á næst síðustu stöðinni svo maður væri ekki krímaður og drullugur í framan þegar í mark væri komið því það hafði ekki verið hugsað mikið um útlitið síðasta einn og hálfa sólarhringinn. Það var góð tilfinning að pjakka síðustu kílómetrana inn í Spörtu og finna sigurtilfinninguna vaxa. Þetta myndi takast. Þegar styttist í mark kemur maður fyrst á stræti með grískum fánum og svo beygir maður fyrir horn og sér þá styttu Leonídasar í fjarsa og þjóðfánar þátttökulanda settir upp á stólpa í miðju götunnar.
Þarna náði ungverskur strákur mér og þegar ég óskaði honum til hamingju með góðan árangur þá sagði hann að við skyldum hlaupa saman síðustu metrana. Það var rosaleg tilfinning að taka síðustu metrana upp að styttunni og snerta fót Leonidasar. Björninn var unninn. Níu mánaða meðgöngu var lokið. Félagi Höskuldur var nærstaddur en hann hafði hætt við 102 km. Þá voru fæturnir orðnir heldur illa útleiknir og allt komið á endastöð. Hann fagnaði mikið og fór síðan í myndatökur sem var ákaflega vel þegið. Eftir hefðbundna móttökuathöfn sem fólst í að drekka af heilagt vatn úr skál, lárviðarsveigur var settur á höfðuðið og maður fékk afhentan viðurkenningargrip. Síðan var maður leiddur í nærliggjandi tjald þar sem fætur voru þvegnir og kannað hvort ekki væri allt í lagi. Eftir nokkar mínútur birtist Eiolf heldur kátur og var gaman að sitja þarna með þessum norska jaxli og fara yfir hápunkta hlaupsins. Maður fékk nudd á lærin og síðan var maður keyrður í leigubíl heim á hótel. Staðan á fótunum var þannig að það var með naumindum að maður kæmist inn í bílinn og hvað þá út úr honum en það hafðist með góðra manna hjálp.
Ég var settur í herbergi með Kim og félaga hans sem voru nýlega komnir. Maður fór í sturtu til að skola af sér mesta svitann og síðan lokuðust augun giska fljótt. Þótt svefninn yrði ekki langur þá var hann sætur. Um kvöldið var verðlaunaafhending í íþróttahúsi skammt frá hótelinu og að því loknu var hægt að fara að ganga til náða. Geir Fryklund, norskur kollegi sem var að klára í fyrsta sinn eins og ég sagði mér morguninn eftir að hann hefði vaknað um nóttina með sára verki í lærunum og verið einnig að drepast í öklunum en brosið náði allan hringinn. Þetta er tilfinningin eftir að hafa debuterað í Spartathlon. Um morguninn var farið að ná í dótið sem maður hafði skilið eftir á drykkjarstöðvunum og því miður vantaði einn poka bæði hjá mér og Höskuldi. Síðan var hádegisverður í boði borgarstjórnar Spörtu og að því loknu haldið til Aþenu. Á hótelinu tók við hefðbundin kaos við að koma keppnendum fyrir á herbergjum. Ég lenti loks í herbergi með þremur Argentínumönnum. Alls komu fimm manns þaðan en enginn þeirra náði að ljúka hlaupi. Dagurinn eftir var til frjálsra afnota en lokaverðlaunahátíðin var haldin um kvöldið niðri í Aþenu. Þar voru sigurvegurum veitt verðlaun og allir þátttakendur fengu afhentar viðurkenningar. Það var skemmtileg stund og var nú komið að endamörkum þessarar reisu. Það er víst að endurminningin frá þessum dögum í Grikklandi mun lifa í minningunni óráðinn árafjölda. Enda þótt slagurinn við Spartathlon hafi tapast í fyrra þá veitti hann það mikið innsæi í hlaupið að maður gat komið betur undirbúinn til leiks í ár og haft fullan sigur. Það er ekki sjálfgefið.
miðvikudagur, október 01, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Góð frásögn. Trúi að það hafi verið andlega niðurbrjótandi þegar þú fannst að allt var stopp á laugardagsmorguninn. Það þarf sterkan koll til að koma sér áfram undir slíkum kringumstæðum.
Enn og aftur til hamingju.
Skemmtileg, góð og fróðleg frásögn hjá þér Gunnlaugur. Sammála fyrra kommenti að það hlýtur að hafa verið afar erfitt að komast í gegnum laugardagsstoppið. En sem betur fer er viji þinn sterkur og hann náði greinilega að yfirvinna efnið og koma þér í gegnum málið.
Ítrekaðar hamingjuóskir, sannarlega mikil upplifun eftir langan og strangan undirbúning.
Bestu kveðjur
Þorkell Logi
Gaman að lesa góða frásögn og láta sig dreyma... Kanski ég 2010? Upplifunin er eilíf!
Ég þakka Benjamin Lee fyrir alla hjálp hans við að tryggja lánið okkar fyrir nýja heimili okkar hér í Fruitland. Þú varst skipulagður og ítarlegur og faglegur, svo og góður sem gerði gæfumuninn í samskiptum okkar við þig. Við settum traust okkar á þig og þú komst örugglega í gegn fyrir okkur. Þakka þér fyrir þolinmæðina sem og að koma fram við okkur sem fólk frekar en bara viðskiptavini til íbúðalána. Þú stendur ofar restinni, ég vil mæla með þeim sem eru hér að leita að láni eða fjárfestum að hafa samband við Benjamin Benjamin og starfsfólk hans vegna þess að það er gott fólk með ljúft hjarta, Benjamin Benjamin Netfang: 247officedept@gmail.com
Kveðja,
John Burley! Húfurnar okkar ber þig !! “
Skrifa ummæli