Fréttamenn hafa veruleg áhrif með umfjöllun sinni í fjölmiðlum á hvað er efst á baugi hverju sinni í almennri umræðu í þjóðfélaginu. Ritstýring fjölmiðla getur þannig bæði dregið mál fram í dagsljósið svo þau fái athygli en einnig á hinn kantinn kæft mál með því að halda þeim til hliðar. Nú er það vitaskuld svo að í almennri ritstjórn er erfiðara að draga fram einhverjar heildarlínur í þessu sambandi en þó er það svo að ríkjandi viðhorf innan fréttamanna hafa oft áhrif á fréttamat. Það gerist oft óafvitað með því að sumt er inni en annað ekki. Ég man eftir því að kunningi minn sem starfaði lengi sem fréttamaður og er einn af virtari fjölmiðlamönnun landsins sagði mér eitt sinn frá því hve erfitt það hafi verið að fá hljómgrunn fyrir því fyrir um 25 árum síðan að birta fréttir af sjávarútvegi og landbúnaði. Fréttir úr landbúnaði voru mjög out. Hvaða fréttir voru það sem gerðust í einhverri sveit úti á landi? "Hvaða erindi áttu þær við landslýð?" spurðu sjálfbirgingslegir íbúar höfuðborgarinnar. Þetta hafist nú samt með tíð og tíma að slíkar fréttir þóttu jafngildar öðrum fréttum sem höfðu þótt mikilvægari.
Íþróttafréttamenn eru smækkuð mynd af þessari stöðu. Þeir eru gjarna fyrrverandi íþróttamenn sem horfa á íþróttaheiminn út í gegnum sitt þrönga skráargat. Þeir hafa fyrst og fremst áhuga á því sem þeir stunduðu sjálfir en hafa ekki mikið álit eða áhuga á öðrum íþróttum. Vitaskuld eru til heiðarlegar undantekningar frá þessu en sama er, meginlínan er svona. Þessu viðhorfi hafa götuhlauparar kynnst rækilega. Fæstir íþróttafréttamanna hafa áhuga á hlaupum og hafa ekki kynnst þeim, kannski af eðlilegum ástæðum. Aðdráttarafl jarðar lætur ekki að sér hæða. Það er helst að fréttamenn sem sinna almennum fréttum og hafa kynnst hlaupum sýna þessari deild íþróttanna áhuga. Ritstýring íþróttafréttamanna kemur meðal annars fram í því að fréttir af götuhlaupum eða utanvegahlaupum eru ekki birtar á íþróttasíðum. Þessar greinar virðast ekki vera taldar til íþrótta í augum íþróttafréttamanna heldur er litið á þær sem eitthvað gutl. Ég hef heyrt það viðhorf að Laugavegshlauparar megi bara vera ánægðir með að það sé minnst á úrslitin á Laugaveginum í textavarpi sjónvarpsins. Þó er Laugavegurinn fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndum. Sparnaður er nefnd sem ástæða fyrir því að Laugaveginum er ekkert sinnt af fjölmiðlum. Á sama tíma sér maður að ríkisútvarpið/sjónvarp hefur til skamms tíma yfirleitt sent tvö pör af fréttamanni og tæknimanni þegar bein lýsing er frá leikjum í handbolta eða fótbolta, sama hvar það er á landinu.
´
Mogginn kom út í morgun eftir gott jólafrí. Í honum var átta síðna íþróttablað. Ég taldi að gamni mínu fjölda frétta og skipti þeim eftir íþróttagreinum. Ég fór ekki út í að reikna dálksentimetra, þá hefði útkoman orðið eitthvað önnur.
Niðurstaðan var þessi:
Handbolti 18 fréttir
Fótbolti: 16 fréttir
Frjálsar: 1 frétt
Karfa: 2 fréttir
Golf: 2 fréttir
Tennis: 1 frétt
Ruðningur: 1 frétt
Skíði: 1 frétt
Samtals voru 42 íþróttatengdar fréttir á þessum átta síðum fyrir utan úrslit og stöðutöflur. Sumar fréttir íþróttasíðnanna voru "ekki fréttir" eins og að fótboltamaður segir að frétt um að hann hafi verið á leið til landsins sé uppspuni. Í annarri "íþróttafrétt" er skýrt frá því að þjálfari í handbolta hafi slitið hásin og sé á hækjum um nokkrurra vikna skeið. Aðrar fréttir eru vitaskuld fínar eins og gefur að skilja.
Framar í þessu sama blaði undir "Fréttir/innlent" er frétt um Skokkhóp ÍR. Hún er ágæt sem slík en er á sömu fréttasíðu og sagt er frá því að farbann yfir meintum glæpamanni hafi verið framlengt í 11. sinn og að þjóðvegir í þéttbýli skuli færðir til sveitarfélaga. Í fréttinni er einnig sagt frá Poweratehlaupunum og Gamlárshlaupi ÍR. Ætli það séu ekki einhversstaðar á milli 1500 og 2000 manns sem taka þátt í þessum hlaupum á hverju ári. Það þætti ágætur fjöldi á einhverjum stað. Þessi mót eru hins vegar ekki talin íþróttamót af íþróttafréttamönnum heldur flokkuð undir sömu kategoríu og hrútasýningar, fréttir af glæpamönnum og vegagerð.
Þetta er afar glöggt dæmi um ritstýringu á íþróttafréttum þar sem íþróttir eru flokkaðar í "íþróttir" og "ekki íþróttir" af einhverjum sem telja sig hafa vald til þess. Hinir svokölluðu "íþróttafréttamenn" virðast ekki vilja sjá fréttir af íþróttum sem þeir meta sem óæðri eða "ekki íþróttir" inni á sínum síðum. Ekki er hægt að kenna því um að upplýsingum sé ekki komið á framfæri. Menn hafa oftar en einu sinni meir að segja séð að tölvupóstum með fréttatilkynningum um viðburði tengda götuhlaupum er eytt óopnuðum.
mánudagur, desember 29, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Frábær pistill Gunnlaugur. Sammála hverju einasta orði. Að lesa íþróttasíður dagblaðanna er með hreinum ólíkindum oft á tíðum. Þetta með staðsetningu frétta af hlaupum og hlaupurum hefur löngum verið mér með öllu óskiljanlegt. Ég þekki málið aðeins af eigin raun því í eina tíð var ég blaðamaður á litlu dagblaði norður í landi, þ.e. gamla Degi (áður en DV-feðgar lögðu hann undir sig og eyðilögðu). Þá sá ég m.a. um íþróttafréttirnar í ein 2 ár. Þetta var 1 síða á dag sem þurfti að fylla og hefði tekið mann ca. hálftíma með fréttum af handboltanum og fótboltanum hjá Þór og KA. Ég er hins vegar svo skrítinn að ég lagði mig sérstaklega eftir íþróttagreinum eins og sundi, frjálsum, júdó, skautum og skíðum (sem reyndar er mikil hefð fyrir á Akureyri). Einnig gerði ég mér sérstakt far um að gera íþróttum barna og unglinga góð skil. Og viti menn - ég fékk alveg frábær viðbrögð frá lesendum. Enn þann dag í dag, nærri 15 árum seinna, er fólk að minnast á þetta við mig og það gleður mig alltaf jafn mikið. Þetta var alveg hægt án þess að "ganga á hlut" boltagreinanna. Og hvað varðar fréttamennsku almennt þá er það mikið þroskamerki hjá fréttamönnum þegar þeir gera sér grein fyrir og viðurkenna að það er ekkert til sem heitir hlutleysi í þessum efnum. Með því einu að taka mál til umfjöllunar og sleppa öðru þá ertu að taka afstöðu. Þú getur vissulega leistast við að draga fram báðar hliðar mála og fjalla um þau með þeim hætti að jafnræðis sé gætt en þú ert aldrei hlutlaus. Þakka þér svo fyrir marga góða pistla á árinu.
Kveðja að norðan, Halldór Arinbjarnarson.
Þetta er alveg rétt hjá þér og á við á mörgum fleiri sviðum. Ég hef gaman að því að þú sérð "rautt" þegar þetta er yfirfært á hlut kvenna í fjölmiðlum...
Jafnréttiskveðja, Kristín
Gaman að lesa reynslu þína af þessum málum Halldór. Ég þekki það af eigin raun að enda þótt blöðunum séu sendar fullbúnar fréttir með mynd og frásögn af um úrslitaleik í Reykjavíkurmóti eða bikarkeppni hjá 14-16 ára krökkum þá var svarið: Við birtum ekki fréttir úr unglingaflokkunum (ekki einu sinni með vegagerð eða laxveiði).
Gott að heyra frá þér Kristín.
Mbk
Gulli
Skrifa ummæli