þriðjudagur, desember 16, 2008

Ég hefði þurft að vera á þremur stöðum í kvöld á sama tíma. Jói og félagar hans í Víking voru að spila við Aftureldingu í Vikinni, Fókus var með jólafund í Faxafeninu þar sem árbókin var afhent og félagsmenn héldu litlu jólin og síðan var Íslenski lífeyrissjóðurinn með kynningarfund á Grand Hotel þar sem reynt var að útskýra hvernig sjóðnum tókst að tapa milli 30 og 40% af raungildi sjóðsins það sem af er árinu.

Ég valdi lífeysissjóðinn í þeirri von um að þar væri hægt að boxa svolítið. Sú von brást ekki. Í bréfi því sem sjóðsfélagar fengu sent frá sjóðnum var ýmislegt sem vakti grunsemdir um að það væri verið að fóðra mann á hálfsannleik. Sá grunur reyndist á rökum reistur. Þetta var fínn fundur. Það komu margir upp bæði með innlegg og fyrirspurnir, vel undirbúnir og málefnalegir. Ég hefði ekki viljað vera í sporum framkvæmdastjórans (reyndar er hann nýlega ráðinn til starfans því sá sem stýrði skútunni fram yfir bankahrun sagði upp störfum þegar niðurstaðan lá ljós fyrir) eða stjórnarformannsins þegar þeir voru að reyna að verja ákvarðanir um vörslu fjárins. Þegar Frjálsi lífeysissjóðurinn fjárfesti eins og hann gat í ríkiskuldabréfum og uppskar fína ávöxtun á árinu þá sogaði Landsbankasvartholið til sín mikið af peningum Íslenska lífeyrissjóðsins. Sá íslenski sagði að það hefpði verið erfitt að fá ríkisskuldabréf. Restin af peningunum var notuð til að kaupa skuldabréf af Baugi, Exista, Eimskip, Samson, Mosaic, Stoðum, Bakkavör og ég man ekki hvað þau heita öll þessi fyrirtæki sem eru í eigu höfuðpauranna í efnahagshruni landsins. Þetta var alveg eftir teoríunni eins og maður hafði ímyndað sér hana. Landsbankinn var að drepast úr lausafjárskorti jafnt og Glitnir. Þeir notuðu öll tiltæk tækifæri til að soga til sín allt það lausafé sem tiltækt var inn í bankasvartholið. Þar á meðal peningamarkaðssjóðina og lífeyrissjóðina.

Það kom upp í ræðustól maður sem er bankamaður og hafði unnið hjá þessum lífeyrissjóð fyrir allnokkrum árum. Hann talaði mjög vel og af þekkingu. Hann vandaði stjórn og starfsmönnum ekki einkunnagjöfina fyrir unnin störf. Hann sagði að allir sem ynnu í bankageiranum vissu að þessi fyrirtæki sem lífeyrissjóðurinn keypti skuldabréf af væru verstu og áhættumestu skuldarar landsins. Þeir ættu ekkert eigið fé heldur lifðu á lánum. Hann sagði að Íslenski lífeyrissjóðurinn væri ekkert annað en peningamylla fyrir Landsbankann. Svokallað öryggisálag upp á 4.1% sem stjórnin tók frá til að hafa vaðið fyrir neðan sig að sögn, sagði hann að væri einungis gert til að varna því að sjóðsfélagar færu úr sjóðnum því þeim er sagt að þeir fái ekkert greitt ef þeir fara og staðan reynist betri en ætlað var. Á sama tíma sendir Frjálsi lífeyrissjóðurinn mönnum bónusgreiðslur ef staðan er betri en ætlað er þegar þeir fara úr sjóðnum.

Annar maður sem vinnur einnig í banka sagði frá því á fundinum að hann hefðu hringt í Landsbankann og reynt að fá upplýsingar um ýmis atriði fyrir fundinn. Honum var sagt að þeim upplýsingum sem hann bað um að fá yrði dreift á fundinum. Ekkert sást af slíku. Upplýsingar um viðskiptaaðila fengust eftir þrýsting og eftirrekstur. Menn vilja fá nákvæma útlistun á því við hverja var skipt og hvenær. Það verður ekkert gefið eftir. Það reyndist rétt sem mann grunaði að maður á að taka allt með fyrirvara sem sagt er að mönnum í svona stöðu og treysta engu. Sannreyna allt. Forsvarsmenn sjóðsins sögðu að yfirmenn landsbankans hefðu aldrei beitt sig þrýstingi varðandi fjárfestingarstefnu sjóðsins. Það er ekki von því Landsbankamenn ákveða hana sjálfir. Sjóðurinn semur við Landsbankann um fjárstýringu á eignum sjóðsins. Það var ofvaxið skilningi fundarmanna hvernig framkvæmdastjóri sjóðsins gat verið fullur bjartsýni um ávöxtun fjárins fram í lok september. Menn sem eru að hrærast í þessum geira og eru með öll fjármálaleg skilningarvit óvirk eiga að fá sér annað starf.

Þetta var fínn fundur, fundarmenn voru mjög málefnalegir og vel undir búnir. Það er ljóst að stjórnin á erfitt verk fyrir höndum að vinna traust sjóðsfélaga aftur svo hann tæmist ekki. Nú á tímum er ekki rétt að treysta neinum að óreyndu. Það var góð tilfinning að taka aðeins úr sér stinginn á þeim sem áttu það skilið.

Ég átti ágæt bréfaskipti við Hrafnkel íþróttafréttamann á RÚV í dag. Ég skrifaði formanni íþróttafréttamanna nýlega og fór yfir að mér og fleirum fyndist íslenskir íþróttafréttamenn sinna þeirri þróun sem er að gerast í ultragreinum heldur laklega. Það var skemmtileg tilviljun að viðtalið við Bibbu og Ásgeir var birt skömmu síðar í íþróttafréttatíma. Ég minntist sértaklega á Laugaveginn sem er mjög stór viðburður. Hvaða fréttamennska er það þótt þess sé getið í textavarpinu hver vann hlaupið. Sér er nú hver fréttamennskan. Vitaskuld kostar allt peninga en þá verða menn að forgangsraða. Ég fór síðan að hugsa um fjöldann á Laugaveginum og fór að velta fyrir mér hvort geti verið að hann sé fjölmennasta ultrahlaup á norðurlöndunum. Í sumar fóru 250 manns Laugaveginn. Ég veit ekki um neitt fjölmennara ultrahlaup á Norðurlöndunum. Þess þá heldur ber íþróttafréttamönnum skylda til að sina honum almennilega. Það væri hægt að gera fínan þátt um hlaupið með lítilli fyrirhöfn. Sjálfboðaliðar eru einnig alltaf tilbúnir að hjálpa til með svona verk. Ég þarf að skoða þetta betur með fjöldann. Það væri óvænt pre fyrir Laugavegshlaupið ef hann væri fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndunum.

4 ummæli:

Sigurdur Einarsson sagði...

Sæll Gunnlaugur

Ég var líka á fundinum í gær og þakka þér fyrir góðar og málefnalegar fyrirspurnir. Fyrsti fyrirspyrjandi byrjaði ansi líflega og hafði greinilegan sterkar franskan tilfinningahita í farteskinu. Spurningar beittar en málefnanlegar þótt orðbragðið væri óheflað. Reyndar sneiddu svarendur hjá því að greina frá sínum launakjörum og fríðinum en nefndu reyndar að sjóðurinn hefði engin risnuútgjöld en hins vegar gæti risna og fleira sukk hafa verið raunin hjá Landsbankanum sem er bakhjarl sjóðsins og flestir starfsmenn hans og stjórnarmenn einnig starfsmenn bankans. Það kemur berlega í ljós að stjórarnir þarna voru undir þrýstingi (beint eða óbeint) frá bankanum, eigendum hans og helstu skuldurum (Baugi) að kaupa heldur í vafasömum skuldabréfum bankanna og fyrirtækjanna þótt klárlega hefðu verið betri kostir í stöðunni mánuðunum fyrir hrunið (t.d. ríkisskuldabréf) þegar skuldabréfaálag bankanna var sívaxandi og fór í allt að 100%. Ég var sjálfur í Leið 1 og var því tilbúinn að taka nokkra áhættu en jafnvel fyrir þá leið var þessi áhætta með skuldabréfakaupunum of mikil, hvað þá fyrir Leið 4 sem átti vera nánast án áhættu. Það hlýtur að teljast til refsiverðra afglapa að taka svo mikla áhættu í þeim sjóði. Þá er furðulegt að þeir sem segja sig úr sjóðunum nú eigi ekki að fá hugsanlega inneign vegna niðurfærslunnar. Formaður sjóðstjórnar kom með ótrúverðuga skýringu um að með því væri verið að mismuna sjóðfélögum! Fæ það ekki til að ganga upp. Stjórnin hefði átt að sjá sóma sinn í að bjóðast til að segja af sér á fundinum, sem þeir gerðu auðvitað ekki. Því tel ég að við verðum að fara fram á aukaaðalfund til að við getum valið okkur nýja stjórn. Eigendur sjóðsins hljóta að geta það. Trúverðugleiki sjóðsins er í hættu með sama fólk við stjórnvölinn þarna.

Gangi þér svo vel í hlaupunum.
Áfram Víkingur!

Kveðja
Sigurður Einarsson

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir sendinguna Sigurður. Það er dálítið skrítin upplifun að hafa horft á atburðaráðsina utan að frá og reynt að átta sig á henni af fréttum og Silfrinu. Síðan er maður dreginn upp á sviðið í tengslum við lífeyrissjóðinn sinn og fær að sjá beint ofan í ormagryfjuna. Þetta er ekki búið. Það þarf meðal annars að kanna hvernig hægt er að kalla saman aukaaðalfund og koma stjórninni frá. Það er það minnsta sem hægt er að gera.
kv.
Gunnl.

Gisli E Arnason sagði...

Sæll Gunnlaugur, þakka þennan pistil um Ísl Lífeyrissjóðinn. Er sjálfur sjóðfélagi í leið 4 og komst ekki á fundinn þar sem ég bý úti á landi.
En þarna er eitthvað mikið loðið sýnist mér á öllu, og bréfið sem við fengum inn um lúguna í síðustu viku hrein móðgun.
Þetta þarf að fara lengra.
Kv. Gísli Einar

Nafnlaus sagði...

Ekki treysta á textavarpið lengur Gunnlaugur. Sérvitringar sem sáu um það áður eru horfnir (eða að hverfa) frá RÚV.
JóhannaH