sunnudagur, desember 14, 2008

Það hefur verið ágætlega hlaupið á helginni. Á laugardaginn fór ég af stað um 7.30 og hitti Jóa, Stebba, Gauta, Bigga og Sigurjón við brúna yfir Kringlumýrarrautina. Við fórum vestur á Lindarbrautina á Seltjarnarnesi, þaðan í gegnum miðbæinn og inn í Laugar. Þaðan inn í Elliðaárdal og út af brúnni aftur. Síðan fór ég heim til baka. Vel yfir 30 km. Í morgun fór ég af stað kl. 8.30 og fór Poweratehringinn og þaðan niður í Laugar. Þaðan fórum við vestur á Suðurgötu og síðan austur Fossvog. Þetta gerði tæpa 30 km. Það hefur verið svolítið kalt en stillt og fínt veður. Á þessum ca 60 km drakk ég um hálfan líter. Það er svo miklu minna en ég gerði áður. Þá hefði ég ekki þurft minna en 4 lítra á svona rúnt. Bæði er ég léttari og síðan er ég viss um að próteinhristingurinn skiptir máli í þessu samhengi.

Ríkið þarf auknar tekjur.Það hækkar skatta, bæði beina og óbeina. beinir skattar hækka ekki vísitölu neysluverðs en gallinn við þá er að það borga ekki allir tekjuskatt sem hafa vel efni á því. Það er skattlausa liðið sem hefur allar tekjur sínar af fjármagnstekjum. Á tímum eins og nú fara í hönd á að fara í herferð til að ná í þetta lið sem lifir eins og óværa á þjóðfélaginu og almennum skattborgurum. Það greiðir sáralitla beina skatta til ríkisins í gegnum fjármagnstekjuskatt og jafnvel engan. Það geriðir aftur á móti enga skatta til sveitarfélaganna en þiggur af þeim alla þjónustu á kostnað annarra skilvísra skattgreiðenda. Það borga hins vegar flestir óbeina skatta. Gallinn við þá er hins vegar að hækkun óbeinna skatta hækkar vísitölu neysluverð sem hækkar lánin sem eru verðtryggð. Ég bara skil ekki hvernig fjármálaráðherra geteur fengið út að það sé enginn munur á beinum og óbeinum sköttum hvað þetta varðar. Það voru tekin af mér ein mánaðarlaun í síðasta mánuði þegar lánið hækkaði um 250 þúsund verðtryggt. Teorían segir að þegar lánin séu verðtryggð þá séu launin það líka. Það er náttúrulega fjarri lagi. Kaupmáttarrýrnunin núna er svakaleg hjá þeim sem þó halda vinnunni, hvað þá hjá þeim sem eru atvinnulausir. Ég verð að segja að það er eitthvað öfugsnúið við það að enda þótt brennivínið hækki þá tapa ég peningum. Hvað ef ég drekk ekkert brennivín yfir höfuð. Auðvitað á brennivín og tóbak ekki að vera inni í útreikningi neysluvísitölunnar. Það er eins og fleira hér að það er alltof lítil umræða um þetta kerfi sem menn búa við. Lífeyrissjóðirnir hanga á því eins og hundar á roði og segja að lífeyrisþegar megi ekki tapa peningum. Á sama tíma er verið að gambla með lífeyrissjóðina eins og í versta lottói, alla vega suma. Áhættuminnsti séreignasjóðurinn hjá Kaupþingi hefur hækkað um ca 23% á árinu að nafnvirði. Áhættuminnsti sjóðurinn hjá Íslenska lífeyrissjóðurinn hefur lækkað um milli 20 og 30% á árinu að nafnvirði. Á það að vera eitthvað lotterí hvaða lífeyrissjóð maður velur? Þeir eiga að róa á svipuðum sjó.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ein teoría, sem ég lærði, segir að til þess að til að menn séu tilbúnir til að lána peninga, þá þurfi þeir að minnsta kosti að geta gert sér vonir um að fá jafnmikla peninga til baka og að auki álag sem nægir til þess að fá þá til að fresta neyslu.

Önnur teoría segir að til þess að verja sig fyrir ýmiskonar verðsveiflum, þá leggi menn aukavexti ofaná lán, til þess að hafa borð fyrir báru.

Vextir eru þá c.a. Verðbólga + neyslufrestunarálag + sveifluálag. Síðan er álag vegna áhættu skuldara, kerfisáhættu, o.s.frv., en látum það liggja á milli hluta

Af þessu leiðir að ef tryggt sé að verðbreytingar skili sér beint ofan á höfuðstólinn, þá þurfi lánveitendur ekki að leggja sérstakt sveifluálag á vextina. Þetta lækki vextina þegar til lengri tíma sé litið.

Ég kaupi þessi rök. Ég trúi því að afnám verðtryggingar myndi þurka upp lánsfé og/eða hækka raunvexti gífurlega. Sérstaklega í þeirri verðbólgu sem nú er.

En fyrir utan þetta, þá er nauðsynlegt neyslufrestunarálag á Íslandi yfirgengilegt. Þegar hinir margfrægu IceSave reikningar voru að bera 6 – 7% nafnvexti, og fólk flykktist til að leggja inn, þá þurftu peningamarkaðssjóðir á Íslandi að auglýsa upp undir 20% ávöxtun í núll til tvö prósent verðbólgu (ef húsnæðisverð og eldsneyti eru ekki talin með).

Grímur

Nafnlaus sagði...

Svo satt hjá þér - ég hef aldrei skilið af hverju "lúxusvörur" eins og tóbak og áfengi eru inn í neysluvísitölunni. Ég er arfafúl yfir þessu öllu. Það er fullkomið rugl. Jóhanna Hafliðadóttir