þriðjudagur, mars 31, 2009

Börkur sendi mér nokkrar línur í gærkvöldi og mig langar til að rifja upp nokkur atriði þessu tengt í því sambandi.

Ég er ekki mikill fjallgöngumaður en hef þó fengið nokkra reynslu af því sem getur gerst í fjallaferðum. Það hefur t.d. kennt mér að aldrei má slaka á öryggiskröfum, sama hve aðstæður eru góðar. Ég hef farið tvisvar á Hvannadalshnjúk. Í fyrra skiptið sem var árið 1998 komumst við alla leið upp en þegar önnur tilraun var gerð árið 2002 komumst við bara upp í ca 1800 m. hæð.
Í fyrra skiptið fór ég með Ferðafélagi Íslands. Daginn áður en lagt var á hnjúkinn þá var varið heilum degi til að kynnast sigi, ísklifri, öryggismálum og fleiru sem tengist ferðum á jökli. Hermann fararstjóri fór vel yfir ýmis öryggisatriði sem hann taldi nauðsynlegt að kynna fyrir misjafnlega vönum ferðalöngum. Þessari kennslu var tekið vel en af hóflegri alvöru af sumum í sólarblíðunni niðri á jafnsléttu. Í gönguferðinni sjálfri var hann síðan allt að því smámunasamur um að hafa allt undir kontrol. Við skildum það betur seinna hvaða þýðingu þetta hafði. Þegar við vorum á leið niður af hnjúknum var éljagangur svo skyggni var lítið. Fleki rann undan hópnum í fremri línunni svo fremsti hluti hans þeyttist fram af hjalla. Venga þess hve Hermann hafði lagt ríka áherslu á hvernig menn ættu að bregðast við undir slíkum kringumstæðum þá hentu þeir öftustu sér á axirnar og gátu stöðvað rennslið á hópnum áður en allir lentu í eina kös undir ca 4 metra háum kletti. Ef fátið og vankunnáttan hefði ráðið ferðinni þá hefði þarna orðið slys, hve stórt skal ég ekki segja til um. En það hefði verið löng leið að hlaupa til byggða ofan af Hvannadalshnjúk og sækja hjálp, og enn lengri tíma hefði tekið að koma hjálp á slysstað. Áhersla Hermanns fararstjóra á öryggismálin bjargaði því þarna að ekki varð að slysi þó hópurinn lenti í óhappi.
Þegar ég fór síðar með Fjallaleiðsögumönnum var ekki minnst einu orði á öryggismál né neitt sem til fróðleiks gæti komið óvönum hvað þau mál varðaði. Við héldum upp í ca 1800 m hæð en þá var kominn blindbylur, hávaðarok og frostið svo mikið að allri vatnsbrúsar voru botnfrosnir. Það var að frumkvæði göngufólksins sem snúið var við enda ekkert vit í öðru. Við stoppuðum undir Dyrhamrinum til að fá okkur hressingu. Þá fékk einn okkar á sig stein í utanverðan fótinn. Við vorum þarna í stórhættu út af grjótflugi. Allt slapp vel til en maður fann mikinn mun á þessum tveimur ferðum hvað varðaði undirbúning og öryggismál.
Þriðja ferðin líður mér aldrei úr minni en hún var farin sumarið 2003. Við fórum meðal annars í Kverkfjöll. Þar vorum við í eins góðu sumarveðri og hægt er að hugsa sér. Sól, logn og 25 stiga hiti. Allt eins og best gat verið. Engu að síður misstum við mann í jökulsprungu. Þrír úr okkar hópi fóru á undan frá Hveradölunum niður að bílunum. Það sést ekki yfir jökulinn að bílastæðinu þegar komið var niður úr löngu brekkunni. Ég var í forsvari fyrir hópinn og mér urðu á þau mistök að ganga ekki úr skugga um hvort þeir rötuðu ekki örugglega í bílinn. Ég miðaði við ákveðið kennileiti en hafi ekki gætt að því að aðrir hefðu það einnig á hreinu. Þeir fóru af leið og enduðu á sprungusvæði með fyrrgreindum afleiðingum. Fyrir röð óútskýranlegra tilviljana af yfirþungavikt þá náðist sá sem í sprunguna féll heilu og höldnu upp. Ef það hefði ekki tekist hefði maður haft á bakinu það sem eftir hefði verið að hafa á óbeinan hátt orðið valdur að mannsláti vegna óaðgæslu og kæruleysis. Það er betra að vera laus við slíka bagga.

Þessir atburðir hafa kennt mér að slys á fjöllum þurfa ekki að vera vondu veðri að kenna. Þau geta skeð við allar aðstæður og ekki síst þegar þau eiga ekki að geta komið fyrir. Þá er andvaraleysið oft mest. Ég hef líka lært að með varúð og fyrirhyggju þá geta menn komið í veg fyrir slys eða dregið stórlega úr líkum á að óhöpp eigi sér stað. Það er enginn minni maður fyrir að hafa vaðið fyrir neðan sig eða leita leiða til að fyrirbyggja óhöpp og slys. Maður veit t.d. hve gríðarlega hefur dregið úr slysum á fiskiskipaflotanumum á seinni áratugum. Það hefur fyrst og fremst gerst vegna stöðugs áróðurs og fræðslu sem hefur skapað hugarfarsbreytingu meðal sjómanna. Ekki má gleyma landbúnaðinum. Þegar ég er að alast upp þá voru dauðaslys á unglingum á dráttarvélum nær því árlegur viðburður. Að maður tali ekki um drifskaftsslysin. Þetta er alveg búið vegna mikillar fræðslu, eftirlits og áróðurs fyrir því að draga úr slysum. Sama á að gilda um ferðamennsku á fjöllum og í óbyggðum. Hún er ekkert undanskilin í þessu sambandi.

Maður spur sig t.d. hvaða lærdómur hefur verið dreginn af fíflaganginum í hópnum sem lagði á Langjökul í fyrra undir kolöskubrjálað veður? Þeir lögðu ekki einungis sjálfan sig í lífshættu, sem var svo sem þeirra mál. Þeir lögu til viðbótar tugi björgunarsveitarmanna í stórfellda lífshættu og það er öllu alvarlegra. Hvaða lærdómur hefur verið dreginn af því þegar um 1000 manns sátu í Þrengslunum næturlangt í febrúar árið 2000 í tengslum við gosið í Heklu? Hvaða lærdómur hefur verið dreginn af því þegar vélasleðahópurinn úr Eyjafirði lenti í gríðarlegum hrakningum á hálendinu uppaf Eyjafirði fyrir um 10 árum síðan? Þeir brutu t.d. meginreglu við ferðamennsku á öræfum að vetrarlagi. Þeir fóru á allt aðrar slóðir en þeir höfðu gefið upp og því var allt leitarstarf miklu erfiðara.

Það væri hægt að hafa svona hugleiðinga lengri en þetta verður að nægja að sinni. Vitaskuld fá Örn og Bára bestu velfarnaðaróskir í sinum Toppferðum sem vonandi standa um langa framtíð. Reynslusjóðurinn er hins vegar verðmætur við þær ólíku aðstæður sem eru til staðar í ferðum þeirra.

Engin ummæli: