mánudagur, mars 16, 2009

Í öllum fræðum við aðgerðir í fjármálum þá eru flatar aðgerðir taldar verstar af öllum. Aðgerðir sem koma jafnt niður á öllum hvernig sem á stendur. Það er eitt af hlutverkum stjórnmálamanna að forgangsraða. Þegar ríki eða sveitarfélög þurfa að arf að skera niður er einfaldast að senda boð á línuna um að allir verði að draga saman um t.d 5%. Ekkert tillit er tekið til þess hvernig staðið hefur verið að málum hjá einstökum stofnunum. Slíkar aðgerðir hafa þann kost að það verða allir jafn óánægðir en þann ókost að gagnsemi þeirra er yfirleitt afar takmörkuð. Góðir stjórnmálamenn fara yfir hvaða verkefni eru nauðsynlegri en önnur. Um þau er staðinn vörður á meðan önnur mega missa sig þegar fjármagn er takmarkað. Fjármagn er í raun alltaf takmarkað. Sömu princip gilda þegar verið er að fara í aðgerðir til að bjarga hluta fjöldans. Verst af öllu er að setja á flatar aðgerðir sem koma öllum til góða, hvort sem þeir hafa þörf fyrir þau eða ekki. Ég skil ekki að hægt sé að segja með rökum að 20% niðurfærsla skulda sé það bjargráð sem sé handhægast og skynsamlegast í þeirri stöðu sem þjóðin er nú í. Ég skulda dálítð en ekki mikið. Ég get alveg borgað af móinum skuldum og þarf enga hjálp. Því ætti ég að fá niðurfellingu skulda um 20%. það er bara "waste of money". Sumir skulda mjög mikið og 20% niðurfelling skulda skiptir engu máli. Þeir fara á hausinn hvort sem er. Aðrir skulda mjög mikið en hafa engu að síður burði til að standa undir skuldunum. Niðurfelling um 20% myn di færa þeim verulega fjármuni í aðra hönd að ástæðulausu. Síðan eru þeir sem hægt er að hjálpa með markvissum og raumhæfum aðgerðum. Það á að einhenda sér í að fara að takast á við vanda þessa hóps. Menn eiga að skilgreina vanda sinn sjálfir eftir ákveðnum formúlum og sækja síðan um aðstoð. Leggja spilin á borðin. Viðurkenna vandann en ekki mála skrattann á vegginn. Það er nóg af fólki sem er atvinnulaust sem kann þessa hluti. Á þennan hátt myndi nýting þess fjármagns sem ríkið þarf að legga í svona aðgerðir nýtast best í stað þess að dreyfa því tilviljanakennt yfir landið og miðin. Síðan hefðu stjónvöld ekki hugmynd um að hvaða gagni þetta myndi koma fyrr en kröfur heyrðust um meiri aðgerðir því þessar hefðu engan veginn dugað. Það þyðir ekki að láta hræða sig út í eitthvað svona fen með tali um svarthol og eitthvað þaðan af verra. Einu sinni var sagt að menn ættu ekki að hlaupa fyrir björg af ótta við tröllin í þokunni. Mér sýnist það eiga fullvel við enn.

Það sem skiptir máli í þessu sambandi er hvort fólk geti ráðið við afborganir af skuldum á eðlilegan hátt. Það skiptir engu máli hvort skuldir eru hærri en hugsanlegt söluverð íbúðar. Fólk kaupir sér íbúð til að eignast heimili en ekki sem fjárfestingu til að selja og græða á. Söluverð er afstætt. Hins vegar getur það heft tilflutning fólks tímabundið ef menn selja ekki húsið fyrir áhvílandi lánum. Fólk á landsbyggðinni hefur víða búið við þennan raunveruleika árum saman að lán eru hærri en markaðsverð íbúðar og enginn deplað auga vegna þess.

Ég keypti mér diska á útsölu um daginn til að hlusta á í bílnum sem ekki er í frásögur færandi. Meðal þeirra var tvöfaldur diskur með lögum frá fimmta áratugnum. "Bimbó" ,"Dísa heitir draumlynd mær", "Blítt og létt" og fleiri álíka góðbitar. Þeim yngri þykir ekkert alltof modern en láta sig þó hafa það á stundum að hlusta. Ég keyrði nokkrar vinkonur Maríu á fótboltaæfingu í kvöld og diskurinn góði var í spilaranum. María reyndi að lækka svo lítið bar á svo stelpurnar myndu ekki þurfa að þjást mikið vegna gamaldags tónlistarsmekks bílstjórans. Þær báðu hins vegar um að hækka aftur því þetta væru svo skemmtileg lög sem þær hefðu aldrei heyrt. Þær voru svo allar farnar að syngja með og klappa. Grípandi melódíur standa alltaf fyrir sínu og ég tala ekki um ef textarnir eru einnig vel gerðir. Þá skiptir ekki máli frá hvaða áratugnum lögin eru.

Tók Powerade hringinn í kvöld með aukaslaufu. Fann ekkert fyrir gærdeginum.

Engin ummæli: