sunnudagur, mars 29, 2009

Þetta var lítil hlaupahelgi. Við Sigrún fórum til Akureyrar seinni partinn á föstudaginn. Það var verið að taka út árshátiðarvinning frá því í fyrra. Flugfélagið og KEA. Við fórum á leiksýningu í LA á föstudagskvöldið. Kerlurnar þrjár voru með ágæta sýningu um hvernig er að vera orðin miðaldra kona og á hvern hátt lífssýnin breytist við það. Ég trúi að margar þekki sjálfa sig þarna á sviðinu á einn eða annan hátt.

Það var skítkalt morguninn eftir fyrir norðan eða -10 til -12 stiga gaddur. Það er hörkuvetur á Akureyri og snjór niður í fjöru. Síðasta Akureyrarhlaupið var fyrir hádegið. Ég vissi ekki af því en ella hefði ég tekið gallann með. Við flugum suður í rigninguna í Rvk um eftirmiðdagnn og þá var ekki til seturnnar boðið heldur farið upp í Hvalfjörð á árshátíð hjá Sigrúnu. Það var borðað og gist á Glym í Hvalfirði Fínt hótel en dálítið úrleiðis. Ég þekki svolítið til forsögu þess og er alltaf jafn hissa á að hótelinu skuli hafa verið valinn staður þarna í hliðinni. Það fór fljótlega á hausinn eftir að það var opnað. Nú er það rekið með nýjum eigendum og líklega töluvert mikið afskrifuðum byggingarkostnaði.

Síðdegis heyrði maður í fréttum um erfiðleikana á Skessuhorni. Gönguhópur í vitlausu veðri ofar lega í Skessuhorni með slasaða manneskju. Það gerist varla verra eins nálægt byggðum eins og þetta. Ég hef á tilfinningunni að þarna hafi ýmislegt farið úrskeiðis. Hóflegt mark tekið á veðurspá ef þá hefur verið hlustað á veðrið. Skessuhorn á þessum tíma er aldeilis ekki fyrir venjulega gönguhópa. Ég hef bæði gegnið á Skessuhorn í apríl og eins um hásumarið. Leiðin er snarbrött þar sem farið er skáhallt út á tindinn. Að mínu mati er það algert glapræði að fara í gönguferð á það á þessum tíma. Það er bæði vegna snjóflóðahættu sem alltaf getur verið fyrir hendi þegar snjóar á annað borð. Síðan er brattinn svo mikil að voðinn er vís ef ekki er verið í línu eins og viðist hafa verið í gær. Þegar maður fer af stað á þessum slóðum má þakka fyrir að ekki verði manntjón. Líklega er pressan mikil að fara af stað hvernig sem allt veltist þegar búið er að selja í svona ferðir. Mér finnst að það þurfi að rannsaka svona uppákomur af opinberri nefnd (svona eins og flugslysanefnd). Það er ekkert smámál að kalla út á annað hundrað björgunarmanna og þyrlu í ofanálag. Ef í ljós kemur að handvömm, óvarkárni eða slökum búnaði er um að kenna þá á að veita fyrirtækjum áminningu. Ef þau verða ítrekað vís að glannaskap eða ófagmennsku þá á það að geta orðið til þess að þau missi leyfi til að selja í svona ferðir. Þetta er fúlasta alvara að bera ábyrgð á hópi manna uppi á fjöllum eða inni í óbyggðum. Menn muna kannski eftir fyrirtækinu sem seldi siglingu á Skaftá. Þegar bátnum hvolfdi og var verið að tína fólkið upp úr ánni þá var fyrirtækið ekki einu sinni visst um hvað margir voru um borð. Ég hef einu sinni farið með fjallaleiðsögumönnum áleiðis á Hvannadalshnjúk. Það var farið upp í vitlaust veður og snúið þar við enda þótt sýnt væri frá jafnsléttu að það væri ekki nokkur leið að komast alla leið vegna veðrahams.

Það var ekki hlaupið mikið á helginni. Fór þó út í morgun og tók góðan túr frá Glym og langleiðina inn að olíustöð. Frost og logn. Ágætt að taka eina helgi frekar rólega.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Leyfi mér að vera algjörlega ósammála þér svona til tilbreytingar!

Þetta voru víst hópurinn Toppfarar í umsjón Báru Ketils og Arnars ásamt þaulvönum fjallamanni sem tók ákvörðun um að snúa við áður en toppnum var náð sökum aðstæðna.

Þaulvant fólk með margar ferðir að baki og því ekkert út á þetta ferðalag að setja, veðrið var gott, það var bara fall eins úr hópnum sem setti allt úr skorðum.

Það hefði alveg eins getað gerst logni að sumri til en sama vesen hlotist af.

Fjallgöngur eru hið besta mál, bæði á veturnar og á sumrin. Best er þó að fara í sóló ferðir.

Tökum sem dæmi:
Fólk er að fara í fótbolta vel vitandi að það eru 100% líkur á að það muni koma með slitin krossbönd, liðbönd og hásinar út úr því. Þá þarf að kalla til sjúkrabíla og kosta milljónir í endurhæfingar og það er alveg klárt að fólk lítur á það "eðlilegan" kostnað bara af því að áhugamálið er boltaíþrótt. Ég neita t.d. alfarið að taka þátt í þeim kostnaði þar sem ég er ekki að stunda það áhugamál. Í ljósi þess mikla kostnaður sem þessar íþróttir valda hvers vegna er ekki meira gert til að banna þær??

Fólki óar vissulega við öllu þessu björgunarliði en þar er ástæðan einföld, það er bara allt sent af stað án þess að menn pæli mikið í því hversu mikinn mannskap þarf. Út á landi hefðu 20 manns græjað þetta á einum Land Rover!

Börkur

Nafnlaus sagði...

Ég er ekki alveg sammála Börkur enda þótt vitaskuld sé auðveldara um að tala en í að komast. Ég hef gengið á Skessuhorn bæði að vetri til og að sumri. Hlíðin út á hornið er snarbrött og ef maður fer af stað þá stoppar maður sig ekki ef snjórinn er harður. Það sem er meginmálið að veðurspáin á laugardaginn var þannig að ég hefði ekki farið í fjallaferðir undir þetta veðurútlit. Ég heyrði á laugardeginum af öðrum hóp sem gekk á Botnssúlur. Það gekk vel upp og niður en þegar í bílana var komið á Uxahryggjaleið var veðrið og blindan slík að það þurfti að ganga á undan bílunum svo hópurinn kæmist niður. Eftir myndum frá Horni í gær í sjónvarpinu hefur verið skítaveður uppi á Skessuhorni. Vetrarferðir á þessum tíma upp á fjöll eru alvörumál og sem betur fer heppnast þær yfirleitt vel, þó ekki alltaf. Ég las í fyrra um að það varð í Noregi dauðaslys áþekkt því sem varð á Fimmvörðuhálsi um 1970. Í kjölfar þess fór af stað mikil umræða um búnað, öryggismál og fleira því tengt í Noregi sem breytti ýmsum viðmiðunum og kröfum í þeim tilgangi að auka öryggi í fjallaferðum að vetrarlagi. Það er ekkert óskaplega langt síðan menn voru að fara af stað á Hvannadalshnjúk í gallabuxum einum buxna en það er þó vonandi liðin tíð. Umræða um öryggismál er sífelld og klárast aldrei en verður vonandi til að fækka slysum.