Einhver í Kaupþingi er farinn að syngja. Einhverjum sem ofbýður það sem hefur gengið á innan bankans. Sá hinn sami hefur því sent afrit af veltubókinni til Moggans. Þar kemur fram að Kaupþing hefur lánað eigendum og vildarvinum þeirra um 500 milljarða gegn engum eða allavega veðum. Fimm hundruð milljarða. Mig minnir að Kárahnjúkavirkjunin hafi kostað um 100 milljarða. Eigendur bankans hafa tæmt hann í vasa sína og vildarvina sinna. Það var greinilega ekki að ástæðulausu að það var mjög eftirsóknarvert af hálfu útrásarmanna að eignast banka. Hann var nauðsynlegur til að halda svikamyllunni gangandi. Það er alveg á hreinu að þessir peningar skila sér aldrei aftur. Þeir hafa verið lánaður til einhvers dótturfélags sem hefur síðan keypt eitthvað annað (skuldabréf) af öðru fyrirtæki í eigu sömu aðila eða verið lánaðir til fyrirtækis í eigu sömu aðila. Það fyrirtæki er svo sett á hausinn og þrotabúið er eignalaust. Dæmið gengur þannig upp og peningarnir komnir á rétta staði. Þessar aðgerðir eru ekkert annað en bankarán. Nú hefur það viðgengist öldum saman að ræna banka. Yfirleitt eru það einhverjir smákrimmar sem fá mismunandi langa fangelsisdóma ef til þeirra næst. Þegar bankar eru rændir markvisst og svo stórkostlega að skaðinn gerir það að verkum að heilt þjóðríki fer á hausinn er sá gjörningur ekkert annað en landráð. Hvenær skyldi maður sjá einhvern settan bak við lás og slá vegna svona gjörnigna. Í alvöru löndum væri Hraunið orðið nokkuð þéttsetið.
Það var ágæt grein hjá Stefáni Jóni í Fréttablaðinu í morgun. Hann setti Afríka inn í staðinn fyrir Ísland á ýmsum stöðum þegar atburðarásinni hérlendis undanfarin misseri var lýst. Ég er hræddur um að okkur hefði ekki fundist afskaplega mikið til um það land og stjórnarfar þess sem Stefan Jón lýsir í greininni ef hún hefði skeð í einhverju Afríkuríki. Það er oft gagnlegt að virða eigin gjörðir fyrir sér af nýjum sjónarhól. Skyldu menn læra eitthvað af þessu? Held varla.
Ég var að hlusta á Útvarp Sögu í morgun. Þá kom þar hlustandi og var að spjalla um Enron myndina. Hann hélt því fram að það væri hægt að setja samasem merki á milli Enron og Decode. Í sjálfu sér er það ekki svo galin fullyrðing. Decode hefur gleymst í umræðu á undanfarinna missera. Gengið í Decode var markvisst kjaftað upp af fjölmiðlum, verðbréfasnötum, pólitíkusum og forsvarsmönnum fyrirtækisins. Þessi maður fullyrti að forsvarsmenn DeCode hafi verið tíðreikað inn í gamla Búnaðarbankann þar sem framtíðarhorfum fyrirtækisins hefði verið lýst með fögrum orðum. Verðbréfasalarnir fluttu boðskapinn áfram og allir dönsuðu í kringum gullkálfinn. Ríkið veitti fyrirtækinu sérstaka ríkisábyrgð. Fjölmiðlar fullyrtu að gengið yrði komið í 100 USD um haustið. Ég man vel eftir því að það þótti ekkert voðalega sniðugt af okkur sem sátum í stjórn Framsóknarfélags í Reykjavík Suður á þessum tíma þegar við mótmæltum því að ríkið veitti fyrirtækinu ríkisábyrgð. Vorum við á móti framförum eða hvað? Ég hef það fyrir satt frá manni sem ég veit að hefur vit á því sem hann er að segja að hinn svokallaði gagnagrunnur, sem mest var látið með, hafi aldrei verið til nema sem eitthvað uppkast í fartölvu á ákveðnum stað. Engu að síður keypti fólk hér væntingar í þessu projekti fyrir gríðarlega peninga. Gengið fór hæst í 65 USD. Nú er það ca 0,22 USD eða 1/280 af því sem það var kjaftað hæst. Fjöldi fólks varð gjaldþrota vegna fjárfestinga í Decode. Í öllum venjulegum löndum sæti einhver í steininum vegna þessa alls.
Unnbjörg nágranni okkar hér á móti í Rauðagerði 36 sló heldur betur í gegn í fyrradag. Hún keppti í Skólahreysti fyrir Réttó en hún er þar í 9. bekk. Hún gerði sér lítið fyrir og setti íslandsmet í armbeygjum með því að taka 80 stykki í beit. Fyrra metið var 77 beygjur. Þegar það var sett fyrir skömmu var haft á orði að það yrði seint slegið. Unnbjörg gerði sér síðan lítið fyrir og tók 100 armbeygjur í skólanum daginn eftir þegar hún var beðin um að gefa samnemendum sínum smá sýnishorn af gærdeginum. Þetta er ekki dónalegt af 15 ára krakka.
laugardagur, mars 07, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli