föstudagur, mars 06, 2009

Þegar maður er á ferðalögum erlendis út af vinnunni þá fær maður dagpeninga. Með þeim á maður að borga gistingu og mat. Ef maður gistir á hóteli af þokkalegum milliklassa og er ekkert að bruðla í mat þá duga dagpeningarnir alveg þokkalega. Fyrirkomulagið hérna r öðruvísi en hjá nágrönnum okkar á norðurlöndunum. Þeir fá endurgreiddan útlagðan kostnað. Settar eru ákveðnar skorður við hvað gist er á dýrum hótelum en annars er talið eðlilegt að halda viðkomandi þokkalega í fæði. Þess vegna kom fyrir að þegar maður fór á norræna funi að ég gisti á öðru hótteli en kollegarnir því ég var að spara dagpeningana. Mér hefur lengi fundist þetta dagpeningakerfi einkennilegt. Sérstaklega er það þó einkenilegt þar sem viðkomandi er haldið uppi af móttökulandinu. Þá eru dagpeningarnir orðnir hrein launauppbót. Um þessa launauppbót hjá ákveðnum stéttum virðist hafa ríkt eitthvað samsæri þagnarinnar.

Nú sé ég að það á aðeins að hrófla við þessum dagpeningagreiðslum, en bara aðeins. Ráðherrar og forseti hæstaréttar fengu til dæmis fulla dagpeninga en þar til viðbótar greiddan allann útlagðan kostnað s.s. gistingu og fæði auk annarra hluta. Makar ráðherra fengu 50% dagpeninga auk gistikostnaðar. Nú á að draga úr þessum viðbótargreiðslum við útlagðan kostnað að hluta en ekki að öllu. Maður spyr sig hvers vegna þarf að greiða viðkomandi stjórnmálamönnum og embættismönnum launauppbót á ferðalögum erlendis. Það ætti að vera einfalt fyrir fréttamann að fá uppgefið hvaða reglur gilda um þessi mál á öðrum Norðurlandanna. Samanburðurinn væri fróðlegur.

Það er alltaf jafnleiðinlegt að heyra ambögur og vitlaust mál í fjölmiðlum. Þegar þær fá að fljóta átölulaust þá verða þær smám saman að viðteknu máli. ég hlustaði í dag á tvo náunga spjalla saman um árangur íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta. Annar sagði að það væri ánægjulegt að sjá þær eiga fullt í fangi með bestu lið heims. Að eiga fullt í fangi með eitthvað þýðir að eiga í erfiðleikum með. Að hafa í fullu tré við einhvern þýðir aftur á móti að standa jafnfætis eða vera jafnoki einhvers.

Annar sagði að framundan væru "betri tíðar". Maður segir "betri tíð" og hefur hana í eintölu. Það þýðir ekkert að swegja að þetta sé í lagi því málið taki breytingum. Vitaskuld tekur málið breytingum en það verður að viðhalda ákveðnum grunnreglum. Annars verður málið bara ein vitleysa.

Ég heyrði einnig viðtal í dag við einhver náunga sem annaðhvort var mikill stuðningsmaður Hells Angles eða hann var skíthræddur við þá. Hann sagði meðal annars að grunnstefið í starfsemi Hells Angles væri virðing fyrir sínum félögum og öðrum mótorhjólaklúbbum. Það er eins klárt og dagurinn keur á eftir nóttunni að HA á Norðurlöndum eru hrein og klár glæpasamtök. Þau stjórna eiturlyfjasölu og vændi þar sem þau hafa náð fótfestu. Ég þekki mjög vel þá virðingu sem HA í Kaupmannahöfn bar fyrir Bull Shit samtökunum þar í borg. BS ríkti úti á Amager og réð m.a. yfir eiturlyfjasölunni í Kristjaníu. HA var á Nörrebro og réði markaðnum þar. Það voru stöðug átök milli þessara hópa. Fyrsta alvruárásin var þegar HA drap Makrílinn foringja BS. Hann var skotinn með vélbyssu úti á Amager. Líklega var það árið 1983. Sá sem það gerði stakk af til Kanada og var þar í nokkur ár. Hann gaf sig fram í Danmörku eftir nokkurra ára útlegð og sat af sér refsinguna í Vestre fangelsinu. Hann er nú foringi HA í Danmörku. Ég sá BullShittana einu sinni úti á Vesterbro. Þeir fóru þar um í stórri fylkingu með ekkju Makrílsins í broddi fylkingar. Virðing HA fyrir þeim var nú ekki meiri en svo að þeir hættu ekki fyrr en þeir höfðu drepið þá flesta og eyðilagt BS klúbbinn algerlega. Þá hófust átök við Bandidos sem var annar klúbbur sem hafði stækkað mjög í Svóþjóð og Noregi. Eftir átök um nokkurra ára skeið þá sömdu þeir frið og skiptu eiturlyfjamarkaðnum á milli sín. Nú eiga HA í stríði við glæpasamtök af innflytjendauppruna og ríkir í sjálfu sér nokkurskonar borgarastyrjöld í Kaupmannahöfn vegna þessa. Nær þrjátíu skotbardagar hafa átt sér stað að undanförnu. HA leitar allra leiða til að ná fótfestu hérlendis og hafa alið upp stuðningsklúbb í þessu sambandi. Sem betur fer hafa lögregluyfirvöld gert allt hvað þau geta til að halda þessari óværu frá landinu. Spurning hve lengi það tekst. Svo er maður að hlusta á einhverja einfeldninga reyna að telja landsmönnum trú um að hér séu bara saklausir skátadrengir á ferðinni.

Það er alltaf gaman að sjá þegar fótboltamenn bera það sterkar taugar til klúbbsins sem hefur gefið þeim mikið að þeir ganga aftur til liðs við hann þrátt fyrir að hann sé staddur brekku í stað þess að hafa það eina markmið að kreista eins marga dropa úr sítrónunni eins og mögulegt er. Maður hefur séð alltof mörg dæmi um slíka hluti. Það voru því góðar fréttir að sjá í dag að Jökull Elísabetarson Jökulsdóttir hefði gengið á nýjan leik til liðs við Víking. Jökull hefur verið við nám í Bandaríkjunum og einnig spilað þar fótbolta. Hann var m.a. valinn í úrval til að keppa um sæti í bandarísku atvinnumannadeildinni. Jökull spilaði í nokkur ár með Víking undir stjórn Sigga Jóns og gerði þar góða hluti. Hann fékk ekki tækifæri hjá KR frekar en ýmsir aðrir uppaldir KRingar þegar hann var yngri. Hann gekk þá í Víking og varð þar að alvöru fótboltamanni. Tryggð Jökuls við Víking er öllu meiri en ýmissa annarra sem Siggi Jóns gerði að góðum fótboltamönnum á sama tíma og Jökul. Það ber að þakka og virða.

Engin ummæli: