fimmtudagur, mars 05, 2009

Ég minntist um daginn á Ingemar Johansson, hinn mikla sænska boxara, sem sigraði heiminn með sínum fræga hægri hnefa. Champ verður alltaf champ. Ingemar fluttist síðar til Bandaríkjanna og bjó þar árum saman. Í Bandaríkjunum eru steikurnar stærri en í öðrum löndum og aðrir matarskammtar gjarna íburðarmiklir. Því þyngjast margir hraustlega sem búa í Bandaríkjunum. Svo varð um Ingemar. Hann var alltaf stór að vexti en bætti mikið á sig í Bandaríkjadvölinni. Þó lék hann tennis reglulega og skokkaði alltaf dálítið. Svo var það árið 1981 að hann ákvað að taka þátt í Stokkhólmsmaraþoni. Á þeim tíma var maraþonhlaup ekki orðin að þeirri almenningsíþrótt sem hún er nú. Íslendingar þekktu varla maraþonhlaup nema af afspurn á þessum árum. Ekki veit ég hvernig það bar til að hann lét sig hafa þetta en sama var. Með númer 7731 á bolnum mætti hann til leiks. Þetta vakti gríðarlega athygli í Stokkhólmi. Áhorfendur að Stokkhólmsmaraþoni höfðu aldrei verið jafnmargir eins og þetta sumar. Margir vildu sjá kappann sem var fyrir löngu orðinn dýrlingur í Svíþjóð. Með öðrum bærðist vafalaust einhver Þórðargleði yfir því að maraþonið myndi sigra Ingo og hans mikla skrokk. Þetta ár var hann svona 46 ára gamall og milli 110 og 120 kg að þyngd. Þegar hlaupið hófst fór Ingo frekar hægt yfir en hélt þó jöfnum hraða. Hann gekk upp brekkur en skokkaði á flatlendi. Hægt en örugglega pjakkaði hann áfram. Þrátt fyrir að hitinn væri mikill lét hann sig ekki. Hverja tíu kílómetra fór hann á góðum klukkutíma. Það var meiri hraði en hjá mörgum öðrum. Gamla seiglan gerði vart við sig. Aldrei að gefast upp. Að lokum náði hann í mark á 4 klst og 40 mínútum. Það er fínn tími hjá hálffimmtugum manni sem ekki hefur hlaupið mikið og er nær 120 kíló á þyngd. Seiglan og styrkurinn var enn til staðar. Svíum þótti enn vænna um INGO sinn eftir hlaupið. Hann var hetjan.

Það voru svakalegar tölur sem vísindamenn birtu um hvað hrefnan étur af fiski. Nær 300 þúsund tonn af bolfiski fyrir utan allt hitt. Þorskar sem voru upp í 80 cm fundust í maga þeirra. Það er golþorskur. Hrefnan ein étur þannig nær því tvöfaldan þanna afla sem veiddur er af hérlendum skipum. Ég ætla rétt að vona að þetta séu skotheldar niðurstöður því þær geta verið grundvöllur að baráttu í áróðursstríðinu um hvalveiðar. Það er náttúrulega gjörsamlega óþolandi af láta þessa þróun halda áfram óáreitta. Hrefnunni fjölgar óáreitt þá þýðir það ekki annað en að það verður minna og minna eftir handa skipunum. Hrefnan virðir engan kvóta. Hún hefur enga sóknardaga.

Engin ummæli: