Það má segja að stórt framfaraskref í andlegri endurreisn þjóðarinnar hafi verið stigið í dag þegar sú norsk franska Eva var ráðin sem sérstakur sérfræðingur og ráðgjafi við efnahagsbrotarannsóknir hérlendis. Það er nú svo að sannleikurinn þarf að birtast utanað frá til að mark sé tekið á honum. Það vissi hver maður sem vildi vita að það var eins og hvert annað kák að ráða örfá menn í embætti saksóknara og segja þeim að rannsaka bankahrunið. ef einhver sakamál eru flókin, tímafrek og þarfnast ítrustu sérfræðikunnáttu þá eru það hvítflibbabrot. Það er náttúrulega dálítið sérstakt að það skuli vera liðið á sjötta mánuð síðan að peningakerfi þjóðarinnar hrundi í rúst og það skuli enginn hafa svo mikið sem hafa verið tekinn í formlega yfirheyrslu af saksóknara. Bankarnir voru tæmdir eins og vegasjoppa af þjóðvegaræningjum og svo eru menn bara eins og fínir menn í viðtölum. Það verður aldrei friður í samfélaginu nema að þessi mál verði brotin til mergjar og hverjum steini velt við. Það er sérstakt að ránnsóknanefndinni skuli hafa þurft að berast sérstök ábending svo þeir fóru að renna í gegn kennitölum stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna til að kanna hvort finna mætti einhver tengsl milli þessara stétta og helstu rummunganna. Almenningur fer að finna fyrir alvöru málsins þegar niðurskurður á opinberum útgjöldum byrjar fyrir alvöru. Það þýðir ekkert að kenna Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um þá hluti. Þeir eru einfaldlega óhjákvæmilegir til að hægt verði að endurreisa fjárhag lands og þjóðar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ósköp einfaldlega í hlutverki leiðinlega bankastjórans sem vill ekki lána óreiðumanninum meiri pening nema hann taki til í sínum eigin fjármálum og sýni að hann sé traustsins verður.
Ég heyrði frá Neil í gær. Hann vinnur hjá fyrirtæki sem heitir Thether að því mig minnir og er dótturfyrirtæki Straums. Straumur var yfirtekinn af ríkinu eins og kunnugt er. Starfsemi fyrirtækisins er því öll komin í uppnám. Neil var brattur og sagði að þeir myndu ekki gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Hann gerði síður ráð fyrir að koma til Íslands og taka þátt í 100 km hlaupinu því hann ætlar að taka þátt í 260 mílna (rúmlega 400 km) hlaupi í Bretlandi í júní. Það er hlaupið meðfram ánni Thames og tekur 4-5 daga.
Það var gaman að fylgjast með spurningaþáttunum Útsvar og Gettu betur á helginni. Þeir voru spennandi og réðust úrslit í þeim báðum á síðustu stundu. Kappsfullir og margfróðir keppendur verða hins vegar að kunna að tapa, enda þótt stundum sé tapið ósanngjarnt að því þeim finnst. Maður hélt á tímabili að sá yngsti í Árborgarliðinu myndi fljúga á sýslumanninn í beinni eftir að þeir misstu sigurinn út úr höndunum á sér á lokaspurningunni. Eins var það þungbært fyrir MK að flaska á frönsku forsetunum. Þar gátu þeir engum um kennt nema sjálfum sér. Þeir sem ekki þekkja mun á Pompidou og Giscard d'Estaing á mynd þurfa að fara aðeins betur yfir fræðin.
þriðjudagur, mars 10, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli