Fyrir eitthvað tíu til fimmtán árum síðan sat ég fund í Alþýðubandalaginu fyrir norðan. Þar barst kynjakvóti í tal. Ég lýsti þeirri skoðun minni sem var þá jafnt og nú að ég væri á móti kynjakvótum. Mér væri sama hvort karlar eða konur væru fulltrúar hreyfingarinnar, bara að það væri besta fólkið. Ég fékk heldur en betur yfirhalninguna fyrir þetta. Einhverjir sögðust ekki hafa heyrt aðra eins karlrembu nokkurn tíma. Þarna kom vel í ljós rótgróin minnimáttarkennd kvenna sem gat ekki ímyndað sér að þær gætu skipað sér sem hópur í forystusveit án þess að vera lyft þangað upp af einhverjum fléttuaðferðum eða kvótasetningu.
Nú hefur þetta gerst svo um munar. Hjá Framsóknarflokknum í SV kjördæmi yrðu konur í fimm efstu sætunum. Vegna kvótasetningar verða hins vegar tvær þeirra að sætta sig við að vera færðar niður listann og karlar settir í þeirra stað. Þeir fengu hins vegar miklu minna fylgi. Þetta meikar engan sens að fyrst sé verið að halda prófkjör á annað borð að þá eigi úrslit þess ekki að standa. Eitthvað svipað hefur verið að gerast hjá Samfylkinginni hér og þar. Hjá VG virkar kvótasetningin hins vegar bara á annan veginn. Ég veit ekki hvort er verra. Það er hins vegar ljóst að áhugafólk um kvótasetningu í stjórnmálum mun berjast á móti því með kjafti og klóm að koma í veg fyrir að almenningur fái að velja þá fulltrúa sem sitja á þingi. Hann hefur greinilega ekki vit á því.
Ég stúderaði drauma einu sinni af þó nokkrum áhuga. Einna merkilegastir í því sambandi fannst mér Nýallinn eftir dr. Helga Pjeturs vera. Helgi var stórmerkilegur maður. Hann lagði í fyrsta lagi grunninn að nútíma jarðfræði og í öðru lagi skrifaði hann mörg rit um rannsóknir sínar á svefni og draumum. Hann færði fyrir því rök að sú endurhleðsla sem maður fær þegar maður sefur gerist vegna þess að í svefni kemst maður í tengsl við líf á öðrum hnöttum. Ég ætla svo sem ekki að fullyrða um það en hitt veit hver einsasti maður að svefninn er lífsnauðsynlegur. Maður deyr innan tiltölulega skamms tíma ef maður nær ekki að festa svefn. Sama gildir þótt maður liggi í algerri hvíld, maður verður að ná að festa svefn til að lifa. Það er vel þekkt pyntingaraðferð að meina fólki svefns.
Oftast gleymir maður þvi sem mann dreymir jafnskjótt og maður vaknar. Á því eru þó undantekningar. Mig dreymdi í nótt afar sterkan draum í sambandi við manneskju sem ég þekkti hér áður en hef hvorki heyrt eða séð í rúm 32 ár. Stundum kemur það fyrir að ef maður er upptekinn af einhverju þá upplifir maður það þegar mann dreymir. Svo var ekki í þessu tilviki. Ég þarf einhvern tíma að að komast að því hvort eitthvað hafi gerst þessa dagana í sambandi við þann sem mig dreymdi.
Ég fór upp í Egilshöll í dag að horfa á stelpurnar í 3ja flokki spila við jafnöldrur sínar í KR. Það er svo sem ekki í frásögur færandi. Ég var með myndavél með og tók nokkrar myndir af stelpunum en oft vill maður gleyma myndavélinni vegna þess hvað maður lifir sig inn í leikinn. Dómarinn sá að ég var með myndavél og kom til mín í hléinu. Hann bað mig að taka myndir af bílunum sem keyrt er inn fyrir bílastæðið og lagt er á göngustígnum upp að Egilshöllinni. Þar er fljúgandi hált þessa dagana. Hann sagði að þarna sköpuðust hættulegar aðstæður þegar fólk er að troðast þarna inn á bílum og er svo að bakka og snúa í myrkri og slæmu skyggni á meðan krakkarnir eru að fara frá og til. Hann bað mig að koma myndum af þessu til hlutaðeigandi aðila því menn væru farnir að tala um að neita að halda leiki þarna ef ekki verður ráðin bót á þessu ástandi. Það var auðvitað sjálfsagt mál að verða við þessari bón og myndirnar eru farnar. Hugsunarleysið í fólki er oft hreint ótrúlegt.
Ég fór út um 7:30 í morgun og tók 34 km. Það var eins gott að vera tímalega úti því það fór að hvessa þegar leið nær hádegi. Þessi vika gerði tæpa 150 km. Nú fer þetta að þyngjast.
sunnudagur, mars 08, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli