Guðmundur Magni og Börkur komu á smá fund í kvöld. Málefnið var að hrinda af stað undirbúningi fyrir 100 km hlaup sem haldið verður laugardaginn 6. júní n.k.. Það varður haldið á sama stað og sl. sumar. Hlaupið verður eftir 10 km slaufu í Fossvogsdalnum og inn að Gullinbrúnni. Drykkjarstöð á báðum endum en miðstöð í miðjunni í Elliðaárdalnum. Hlaupið er eins einfalt í útfærslu og hugsast getur. Undir styrkri forystu Ágústar forseta var tekin saman nákvæm lýsing á undirbúningi hlaupsins frá því í fyrra. Einnig var farið yfir framkvæmdina eftir hlaupið og tekið saman það sem betur mátti fara. Þannig er afar auðvelt að renna í gegnum framkvæmdina í ár en Ágúst verður fjarri góðu gamni. Við byrjuðum á að skipta með okkur verkum en ætlunin er að halda stærri fund undir lok mánaðarins til að kalla menn til verka og skipta enn frekar með sér verkum. Það er eitt af mörgu góðu við þennan hóp að það eru alltaf margir boðnir og búnir til að leggja hönd á plóginn.
Þeir sem ætla að taka þátt í hlaupinu þurfa að fara að stefna á það nú þegar. Það eru þrír mánuðir til stefnu. Það er misskilningur að það þurfi einhvern rosalegan undirbúning undir 100 km hlaup ef markmiðið er að klára það undir tilskyldum tímamörkum. Það þarf að hlaupa reglulega svona 70 - 100 km í viku og taka nokkur löng hlaup (30 - 40 km). Síðan þarf að skipuleggja sig vel og huga vel að næringunni í hlaupinu.
Hlaupið í fyrra tókst mjög vel og náðu margir að sjá gamlan draum rætast um að klára 100 km. Nú er bara að sem flestir setji sér skýr markmið og stíli æfingar upp á að klára 100 km hlaup í júní byrjun. Þeir verða svo orðnir góðir til að taka þátt í Laugaveginum.
Ég næ því miður ekki að taka þátt í hlaupinu í þetta sinn. Ég er búinn að ákveða að fara í 48 tíma hlaup á Borgundarhólmi dagana 22. - 24. maí. Það var að brjótast í mér að taka þátt í Evrópumeistaramótinu í 24 tíma hlaupi en það verður að bíða þetta árið. Ég get sem best farið í það á næsta ár ef skrokkurinn verður í lagi. Mig langar meira til að klára 48 tíma hlaup. Það er meiri áskorun. Markmiðið verður að fara vel yfir 300 kílómetra. Það á að verða hægt ef maður skipuleggur sig vel og allt er í lagi. Það getur hins vegar margt gerst á langri leið.
Æfingar ganga fínt og alveg eftir plani. Á fyrstu tveimur mánuðum ársins hljóp ég rétt tæpa 1000 km. Það er sama vegalengd og tveir lengstu mánuðirnir voru þegar ég var að búa mig undir Western States fyrir fjórum árum. Nú er þetta bara viðhald. ég hef alltaf hlaupið úti í vetur og aldrei farið inn. Ég er þó að spökulera í að fá mér kort í einn mánuð til að taka hraðaæfingar inni á brettinu. Það er heldur agaðra að hlaupa á bretti og marður setur öðruvísi og skýrari markmið.
miðvikudagur, mars 04, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli