Það var uppi töluvert fjaðrafok í netmiðlum í dag. Þau stórmerki gerðust að adjunkt við HÍ sendi kvörtun til Jafnréttisráðs yfir því að fimm karlar sitja í bankaráði Seðlabankans en einungis tvær konur. Þetta varð náttúrulega mál málanna. Einhver einstaklingur fer að kvarta og þá fer allt af stað. Þetta voru ekki fjöldamótmæli, ekki almennir flokkadrættir, útifundir né kröfugöngur. Nei, ein manneskja fór að kvarta og það fór allt á röndina. Ég geri fastlega ráð fyrir því að aðjunktinn hafi í forbifarten minnst á að í bankaráði Kaupþings sitja fjórar konur og einn karl. Þessi staða er jafnvel verri en í Seðlabankanum. Það sem verst er að karlinn er formaður bankaráðs. Hver skyldi nú hafa kosið hann í það embætti? Spyr sá sem ekki veit. Þegar kynjaskiptin í bankaráðum ríkisbankanna þriggja og Seðlabankans til viðbótar eru skoðuð þá kemur í ljós að í þeim sitja ellefu karlar og níu konur. Í varabankaráðum sitja aftur á móti ellefu konur og níu karlar. Ég geri einnig ráð fyrir að aðjunktinn hafi tekið þetta skilmerkilega fram í bréfi sínu til Jafnréttisráðs.
Þegar þjóðfélagið er að fara á hausinn þá skemmta menn sé við að fimbulfamba um svona lagað í fjölmiðlum. Er furða að það sæki stundum að manni ákveðinn efi.
Þegar borgaraflokkarnir komust til valda í Svíþjóð árið 1981 þá höfðu sósialdemókratarnir setið þar við völd áratugum saman. Þeir höfðu byggt upp kerfið og kunnu því einir flokka á það. Borgaraflokkarnir voru því ekki alveg vissir á stjórntækjunum. Þeir gátu ekki lækkað atvinnuleysið og þeir höfðu engin tök á því að draga úr verðbólgunni. En frekar eitthvað að gera en ekki neitt þá bönnuðu þeir að selja öl af klassa 2 í almennum búðum á laugardögum.
Hérlendis er allt heldur andbrekkis sem hugsast getur. Bankakerfið hrunið, atvinnulífið gengur á einum stimpli, vextirnir allt að sliga, bankarnir tómir eftir stórkostlegasta bankarán sem um getur, landið nýtur engrar viðskiptavildar á erlendum vettvangi, myntin ónýt, sölutregða á fiski og áli og ég veit ekki hvað. Þá setja stjórnvöld fram frumvörp þess efnis að banna opinberum starfsmönnum að sækja vændishús á embættisferðum erlendis og loka nektarbúllum. Vonandi að það komi að gagni.
Ármenningar heiðruðu Ásdísi Hjálmsdóttur í dag fyrir frækilegt afrek á vetrarkastmótinu á Tenerife á dögunum. Ásdís er að koma til baka eftir erfið meiðsli og þetta var fyrsta spjótkastkeppni hennar frá ólympíuleikunum í haust. Árangurinn veit á gott í sumar.
Það var flott að sjá hvernig B lið í handboltanum tók Makedóníu í bakaríið í kvöld. Gríðarlega góð vörn skóp sigurinn. Það var einnig gaman að sjá Aron Pálmarsson blómstra í leiknum. Maður gleymir því stundum að hann er á fyrsta ári í 2. flokk þegar hann spilar eins og þroskuð stórstjarna. Það verður áhugavert að fylgjast með honum á næstu árum.
Tók Powerade með Grensássslaufu í kvöld. Hlýtt og gott veður.
miðvikudagur, mars 18, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ja, það er allavega mikið eistaklingur í Seðlabankanum....
Skrifa ummæli