sunnudagur, nóvember 22, 2009

Það hefur verið mikið rætt um skattamál að undanförnu og ekki að ófyrirsynju. Skattar á stóran hluta launafólks mun hækka veruleg aá næsta ári, bæði hvað varðar álagningu óbeinna og beinna skatta. Það kemur ofan á þá kaupmáttarrýrnum sem hefur átt sér stað hjá almenningi vegna verðhækkana, samdráttar í atvinnu, minni yfirvinnu, atvinnumissis og beinna launalækkana. Það er vitaskuld rétt að sá mikli kaupmáttur sem var til staðar í landinu vegna sterkrar krónu og mikilla umsvifa var á sandi byggður. Á hinn bóginn er nauðsynlegt að það séu réttar staðreyndir í almennri umræðunni. Stjórnvöld hafa tekið kúrsinn á norrænt skattakerfi að sögn. Það er nú ekki nein aldæla. Stighækkandi skattar voru notaðir af ákefð hér áður fyrr á árunum í Svíþjóð. Þeir voru keyrðir áfram af slíku offorsi að fólk var farið að borga meir í skatta en þeir þénuðu. Þar á meðal var Astrid Lindgren, hinn ástsæli sænski rithöfundur. Hún borgaði um tíma 110% skatt. Gunnar Sträng, þáverandi fjármálaráðherra Svíþjóðar, sagði að hún gæti alveg borgað svona mikla skatta því hún þénaði svo mikið. Þó að Astrid Lindgren væri mjög félagslega sinnuð þá sárnaði henni þeta rugl og skrifaði fræga grein: "Pomperipossa i Finansministeriet" eða í grófri þýðingu: "Ruglið í fjármálaráðuneytinu". Þessi grein hafði mikil áhrif þar sem Astrid Lindgren var enginn nóboddy í augum sænskra.

Manni hefur skilist af umræðunni að fram til þessa hafi verið flatur skattur hérlendis, hvað sem það nú þýðir. Skatthlutfall af heildarlaunum hefur vitaskuld verið stighækkandi þar sem frítekjumark er það sama á alla einstaklinga, hvort sem um lægri eða hærri laun er um að ræða. Skattleysismörk eru í ár 113.454. Það þýðir að sá sem hefur 134.454 krónur í mánaðarlaun borgar engan skatt. Sá sem hefur 200.000 krónur í mánaðarlaun borgar 37,2% staðgreiðslu til ríkis og sveitarfélaga af 200.000-113.454 eða af 86.456 kr. Það gerir 32.195 krónur í skatt á mánuði eða 16,1% af heildartekjum.
Sá sem hefur 400.000 krónur í mánaðarlaun borgar skatt af 400.000 - 113.454 eða af 286.546 kr. Það gerir 106.595 krónur í skatt á mánuði eða 26,65% skatt af mánaðarlaunum.
Sá sem hefur 600.000 krónur í mánaðarlaun borgar skatt af 600.000 - 113.454 eða af 486.546 kr. Það gerir 180.995 kr eða 30,17% af mánuðarlaunum.
Sá sem hefur 1.000.000 kr í mánaðarlaun greiðir skatt af 1.000.000 - 113.454 eða af 886.546 kr. Það gerir 329.795 kr eða 32,98%. Þannig mætti áfram halda. Þegar félagslegar aðgerðir eru svo tekjutengdar þá magnast áhrifin enn frekar upp.

Nú tók ég ekki í þessum útreikningum tillit til greiðslna í lífeyrissjóð eða annarra frádráttarliða heldur er þetta sett fram á þennan hátt til einföldunar til að sýna fram á að hlutfall skatta af launum er ekki flatt heldur er skatthlutfall af launum hærra hjá þeim sem hafa hærri laun. Það er í sjálfu sér eðlilegur hlutur en þá á að segja hlutina eins og þeir eru. Nú á hins vegar að hækka skatthlutfallið enn frekar upp hjá þeim sem hafa hærri laun, þ.e.a.s. skatthlutfallið verður enn hærra en það hefur verið til þessa. Það eru þó í sjálfu sér ekki mörg ár síðan ég greiddi sértakan hátekjuskatt. Í þessu samhengi er til einhver jafnvægispunktur sem ég ætla ekki að segja til um hvar er. Eftir því sem hann færist neðar eftir launastiganum þá verður það minna efirsóknarvert launalega séð að leggja á sig langt nám og ráðstafa þannig mörgum árum í nám við nauma afkomu. Hvatann til að fá launalega umbun þess erfiðis má ekki taka frá fólki því ef ævitekjur verða jafnvel lægri við langskólanám en án þess þá er tilgangurinn orðinn hæpinn.

Maður heyrir oft í umræðunni að það sé eins og hérlendis hafi frjálshyggjudraugurinn riðið húsum á undanförnum árum og barið fótastokkinn og samfélagið mótast af þvi. Nú má til sanns vegar færa að eitt og annað hafi mátt fara betur en það hafi gert svo ekki sé minnst á sjálft hrunið. Þó er nú ekki eins og samneyslan hafi verið út úr kortinu þegar það er borið við okkar nálægustu lönd. Nýlega var birt skýrsla þess efnis að heilbrigðiskerfið á Íslandi sé meðal þeirra bestu í víðri veröld. Það er í sjálfu sér alls ekki sjálfsagt að örþjóð á eyju norður í Atlandshafi hafi þá stöðu. Í þessu sambandi stóðum við framar hinum miklu velferðarþjóðfélögum annarsstaðar á Norðurlöndum. Við leggjum mest fjármagn til grunnskólamála á hvern íbúa innan OECD. Vitaskuld er skólakerfið hérlendis dýrt á hvern íbúa vegna smæðar þjóðarinnar en þetta ber þess svo sem ekki vitni að þar hafi verið skorið við nögl. Það er rétt að halda því til haga sem vel hefur verið gert. Nóg er nú samt.

Ég fór 30 km á bretti í World Class í morgun. Það var bara fínt og tíminn leið fljótt. Ég ætla að fara að herða þessa hlið aðeins upp. Það að fara langt á bretti er bara æfing eins og allt annað. Johann Lindwall, svíinn sem ég atti kappi við í 48 tíma hlaupinu sl. vor, fór tæpa 300 km á bretti síðastliðinn vetur á tveimur sólarhringum. Það er sem sagt allt hægt ef viljinn er til staðar.

3 ummæli:

Máni Atlason sagði...

Þakka þér fyrir ábendinguna um að samneysla hér hafi verið þó nokkur undanfarin ár.

Varðandi þennan meinta frjálshyggjudraug sem álitsgalarar halda mikið á lofti í svokallaðri "pólitískri umræðu", þá er það furðulegt að frjálshyggjumenn séu skyndilega komnir í einhverja vörn vegna bankahrunsins.

Frjálshyggjumenn hafa alla tíð talað gegn því að ríki reki Seðlabanka eða að ríkið skipti sér yfir höfuð af "peningamálastefnu", enda vilja frjálshyggjumenn láta vexti og gengi gjaldmiðla ráðast á markaði en ekki annars staðar. Þá er sá frjálshyggjumaður sem leggur blessun sína yfir að ríkið taki 50% af tekjum fólks í skatta eða önnur gjöld eða telur rétt að ríkið yfirtaki rekstur einkafyrirtækja þegar þeim gengur illa vandfundinn.

Seðlabankar um allan heim kyntu í góðmennskukasti undir að ódýrt lánsfé flæddi út á markaðinn. Við það mynduðust miklar eignabólur og það fór að borga sig fyrir fyrirtæki, eins og íslensku bankana, að taka mjög mikil lán til að fjármagna reksturinn þar sem vextirnir á lánsfénu voru svo lágir. Þegar í ljós kom að þetta gæti ekki gengið endalaust tóku ríki heims sig til og dældu enn meira fé inn í bankana í formi styrkja, hlutafjár eða nánast vaxtalausra lána. Á Íslandi tók ríkið yfir bankana með miklum tilkostnaði, ríkisstjórnin samþykkti að ábyrgjast skuldir Landsbankans erlendis, ríkisstjórn ákvað að dæla milljörðum inn í "peningamarkaðssjóði" bankanna o.s.frv.

Allt hefur þetta leitt til afar slæmrar stöðu ríkissjóðs. Fyrir hrun fór yfir 50% af tekjum hvers einstaklings til ríkisins í formi einhvers konar skatta eða gjalda. Nú á að koma því hlutfalli enn hærra.

Og þetta reyna galarar að skrifa á "frjálshyggjuna". Og það sorglega er að þeir gala það oft og það mikið að þeim virðist ætla að takast að kenna "frjálshyggjunni" um að ríkisafskipti af markaðnum og gríðarleg reglusetning og umfangsmikill eftirlitsiðanður keyrðu allt um koll hér eins og annars staðar.

Ef aðeins fengi að viðgangast einhver heilbrigð frjálshyggja hér á landi þar sem ríkið sýnir einhverja hófsemd í útjöldum sínum, fyrirtæki sem eru illa rekin fá að fara á hausinn og almenningur fær að halda megninu af þeim tekjum sem hann vinnur sér inn til ráðstöfunar fyrir sjálfan sig þá væri ástandið líklega töluvert betra!

Afsakaðu hve löng þessi athugasemd er, þetta er mér mikið hjartans mál.

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur, ég verð að viðurkenna fáfræði mína en hvað eru frítekjur? Eg hélt að þetta væri hugsað til að einfalda skattkerfið og væri eins og hjá fyrirtækjum til að dekka rekstrarkostnað einstaklings, svona eins og hjá fyrirtækjum, í staðinfyrir að hver og einn legði fram sinn kostnað á móti tekjum þá væri þetta svona tala sem væri sanngjörn, allvega fyrir nauðþurftum, síðan væri talið eðlilegt að allir borguðu 37,2% í skatt af hverri krónu umfram það. Eg fæ ekki skilið hvað tekjur umfram ´´frítekjur´´ hafa með þær ´´frítekjurnar´´að gera.
kv Jón Kr

Nafnlaus sagði...

Sæll Jón.
Þær tekjur sem eru jafnar persónuafslættinum eða lægri eru skattfrjálsar. Að þeim er ekki tekin staðgreiðsla (tekjuskattur og útsvar). Það er kallað frítekjumark þegar persónuafsláttur og laun eru jafnhá. Síðan er hver króna sem bætist þar við skattlögð. Skatthlutfallið hefur um nokkurra ára skeið verið jafnt á hverja krónu umfram frítekjumark. Frá og með næsta ári fer skatthlutfallið stigvaxandi í þrepum með hækkandi tekjum ef framlagðar tillögur verða samþykktar af Alþingi.
Mbk
Gunnlaugur