Fór á Esjuna í kvöld. Var 65 mín upp að Steini og niður aftur. Léttur og gekk vel. Við Steininn hafði hlaðist upp varða sem göngumenn á Esjun hentu steinum í. Nú var hún útflött og höfðu greinilega einhverjir skemmtikraftarnir eytt tíma og kröftum í að rífa hana í sundur. Geta fíflin ekki haldið sig á lágsléttunni? Þurfa þau nú líka að ganga á Esjuna?
Fékk í dag hlaupablaðið frá WS 100. Þar kennir margra grasa. Í kaflanum um áhættur er getið um blöðrur á fótum, meiðsli, nýrnavandræði, hitaflog, ofþornun, háloftaveiki, óreglulegan hjartslátt, saltskort, ljón, birni, snáka, býflugur, ökuníðinga, hættu á að týnast og ná ekki í læknisaðstoð. Einstaka menn hafa hlaupið þessa leið yfir 20 sinnum!!!
WS 100 er hlaup með sögu. Hún er rakin í grófum dráttum í blaðinu.
Þetta byrjaði allt 1974. Þá hljóp Gordy Ainsleigh leiðina eftir að hesturinn hans veiktist rétt áður en keppni í hestaþolreið byrjaði á leiðinni. Hann kláraði á 23 klst og 42 mín.
1975 reyndi einn að hlaupa leiðina með hestaþolreiðinni. Hann hætti eftir ca 75 mílur.
1976 hljóp "Cowman" leiðina einsamall á 24 klst 30 mín. Þessir tveir, Gordy og Cowman taka báðir þátt í hlaupinu í ár, tæplega sextugir.
1977 byrjuðu 16 manns hlaupið en 3 luku því. Það er skráð fyrsta formlega WS100. Hlaupararnir þurftu að bera með allt með sér nema vatn. Eftir þetta hlaup var hámarkstíminn settur á 30 klst. WS Endurance Run Board var stofnað þetta ár.
1978 hófu 63 hlaupið en 30 luku því. Nú voru settar upp 21 drykkjarstöð og 6 læknisstöðvar. Fyrsta konan lauk hlaupinu.
1979 hófu 143 hlaupið og 96 luku því. Fyrstu útlendingarnir tóku þátt í því. Fyrsta árið sem settar voru kröfur um árangur til að fá að taka þátt í hlaupinu eða 50 M á skemmri tíma en 10 klst.
1980 hófu 251 hlaupið og 124 luku því. Fyrstu 10 mílurnar voru á kafi í snjó. Bát þurfti til að fara yfir ána á 73. mílu.
1981 hófu 251 hlaupið og 146 luku því. Þátttaka takmörkuð í fyrsta sinn með lotteríi.
1982 hófu 278 hlaupið og 176 luku því. Í fyrsta sinn vann hlaupari WS100 í fyrsta sinn sem hann hljóp leiðina. Mynd um hlaupið var sýnd um öll Bandaríkin.
1983 hófu 282 hlaupið og 196 luku því. Fyrstu 24 mílurnar voru á kafi í snjó. Skaflarnir voru 5 - 6 metra háir. Um 30 fyrstu hlaupararnir villtist og þurfti að fá helekopter til að koma þeim á rétta leið aftur. Sigurvegarinn tók fram úr næsta manni þegar 800 metrar voru eftir og vann hlaupið með 1 mínútu.
1984 hófu 369 hlaupið og 250 luku því. Outside Magasine valdi WS100 sem "erfiðasta fjallahlaup í heimi".
1985 hófu 294 hlaupið og 163 luku því. Leiðin var mæld nákvæmlega og reyndist vera 100,2 mílur.
1986 hófu 415 hlaupið og 210 luku því. Hámarksþáttaka.
1987 hófu 353 hlaupið og 183 luku því. Í El Dorado Canyon mældist 114 gráður á Farenheit (það er eitthvað yfir 40 C).
Frh. síðar
miðvikudagur, júní 08, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli