Hljóp ekkert í dag, enda hefur það ekkert upp á sig að var að fara í eitthvað stutt núna. Best að hvíla og fara síðan góða túra á Esjuna næstu tvær vikurnar. Ég er að spekúlera í hvernig ég geti notað tímann til að venja mig við hitann síðustu vikurnar og er með hugmyndir.
Fór í Kastljós í kvöld. Hef ekki séð þáttinn en vona að þetta hafi komið sæmilega út. Það er svolítið skrítin tilfinning að finna að það sem mér finnst normalt finnst öðrum ónormalt. Sigmar skokkar nokkuð og hefur því tilfinningu fyurir því sem hann er að tala um. Hann boðaði mig aftur í þáttinn þegar ég kem heim (ef ég lýk hlaupinu n.b.). Nú er ekkert undankomufæri.
Aðalfundur hjá Víking í kvöld. Komst ekki fyrr en hann var að klárast. Hann var tíðindalaus og heldur góður andi á honum.
Fréttablaðið hefur verið með fréttaskýringu um sölu ríkisbankanna undanfarna daga. Það er nú ekki mikið bitastætt í því en lesningin er fróðleg. Stjórnarandstaðan er þegar farin að tala um opinbera rannsókn og allann þann pakka. Maður hugsar um það í þessu samhengi hvílíkur ógnarkraftur var leystur úr læðingi þegar þeir komust í hendurnar á fólki sem hafði kunnáttu til að reka þá. KB banki er orðinn 10 stærsti banki á Norðurlöndum. Hver hafði heyrt talað um LÍ og BÍ fyrir tíu árum síðan fyrir utan landssteinana. Svo eru þeir er sem finna að öllu farnir að tala um að ríkið hafi tapað mörgum milljörðum á sölu bankanna, miðað við verð þeirra í dag. Ekki vantaði svartsýnisspárnar um að svo og svo margir myndu missa vinnuna við að útibúum út um allt land yrði lokað við sölu ríkisbankanna. Það er svona þegar menn sjá ekki upp úr skókassanum, þá eiga menn erfitt með að ímynda hvað utan hans er. Það væri fróðlegt að fá yfirlit um það hve margir fleiri vinna hjá bönkunum í dag heldur en þegar þeir voru ríkisfyrirtæki og hve meðallaunin eru hærri.
Avion Group keypti Eimskip í dag, bara si svona. Þeir eru búnir að setja saman gríðarlega öflugt flutningafyrirtæki til lofts og sjávar. Hún hefur rentað sig vel, bjórverksmiðjan sem flutt var til Rússlands. Fyrir einum og hálfum áratug var Eimskip kjarninn í valdapíramída ráðandi afla á Íslandi. Nú er fyritækið selt eins og hver annar brjóstsykurspoki. Hvort skyldi nú vera verra það sem var eða það sem er? Ég er ekki í vafa.
miðvikudagur, júní 01, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli