Útskrift í Réttarholtsskóla í kvöld. Jói var að klára grunnskólann ásamt jafnöldrum sínum mörgum. Það var fullt af fólki mætt á staðinn og góð stemming hjá krökkunum. Alltaf gott að klára svona áfanga, ekki síst ef menn eru ánægðir með uppskeruna. Nú tekur hins vegar meiri alvara við.
Hugsaði dálítið í dag um það sem Halldór sagði okkur frá í gær. Í fyrra þegar hann var að æfa fyrir Del Passatore þá þurfti hann að hætta sökum álagsmeiðsla þegar brotnaði / sprakk bein í leggnum á honum. Hann kenndi það meðal annars röngu mataræði, ónógum teygjum og of hörðum skóm til viðbótar við mikið álag. Ég hef blessunarlega sloppið við slík álagsmeiðsli enda hef ég t.d. reynt að borða skynsamlega í vetur sem og fyrri ár. Ég held að mataræðið sé ákveðinn lykill að árangri með öðru, ekki síst ef álagið er mikið. Ég fæ mér alltaf lýsi á fastandi maga þegar ég fer á fætur áður en blaðaútburðurinn hefst. Honum lýkur reyndar á morgun en það er annað mál. Síðan hef ég borðað í nokkur ár mikið af skyri, lítið hrærðu og algerlega ósætu í morgunmat. Þetta þykir vafalaust sumum vera algert steypuverk en mér fellur þessi morgunmatur vel. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að byrja daginn með kaffi og lifa síðan á því fram á hádegi. Ég hef ekki drukkið gos nema nokkra sopa á ári í nær 25 ár, drekk ekki kaffi og borða því sem næst aldrei hvítan sykur nema í kökum. Þetta er vafalaust bara sérviska en ég hef þá trú að ef eitthvað er þá sé þetta betra en ekki.
Haraldur Júl hitti svíann Larsson um daginn sem meðal annars hefur hlaupið yfir Bandaríkin þver og róið yfir Atlandshafið!!! auk margs annars. Haraldur spurði hann um góð ráð fyrir félaga sína sem væru að legga langt land undir fót. Ahnn sagðist hafa þrjú ráð fyrir þá. Það væru stafirnir E A T. Málið væri að borða nógu mikið og oft og ekkert gel eða léttmeti heldur almennilegan mat. Þetta kemur heim og saman við þá reynslu sem ég hef og hef ímyndað mér. Þetta verður erfiðisvinna í heilan sólarhring eða meir og til að standa uppréttur út þann tíma þarf maðurt að borða hraustlega allann tímann til að bensíntankurinn tæmist aldrei.
Fór inn á veðurspávef fyrir Squaw Valley og Auburn í dag. Þar er spáð 25 - 29 stiga hita og heiðskýru út vikuna. Ef það verður ekki verra en þetta þá ætti maður að lifa það af en það er óvissu háð eins og svo margt annað.
föstudagur, júní 03, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli