Ég er enn í rólegheitum. Það hefur bæði verið nóg að gera og svo er hvíldin góð. Ég hef engar áhyggjur af því að taka það rólega í nokkra daga. Ég hef gert það áður eftir þungt æfingarprógram og það hefur gert mér gott.
Ágúst Kvaran stóð fyrir minningarhlaupi um Guðmund Gíslason í dag á dánardægri hans. Gott framtak hjá Ágústi. Góður hópur hljóp frá Gljúfrasteini upp á Skálafellsvegamót þar sem menn settu stein í minningarvörðu um Guðmund. Nokkrir hlupu niðureftir aftur á móti strekkingsvind en aðrir fengu bílfar í bílana. Ég skrapp uppeftir en hafði ekki tíma til að hlaupa hvorki frá eða til.
Sá fyrir helgina að félag Viðskipta- og hagfræðinga birti niðurstöður úr kjarakönnun sme gerð var meðal félagsmanna í vetur. Þar kom fram að launamunur kynjanna í þessari stétt er einhver 6- 7% sem er enginn munur sem teljandi er og er innan skekkjumarka. Þetta er allt önnur niðurstaða en rektorinn á Bifröst fjallaði um fyrir skömmu og fór mikinn í því sambandi. Því hringir enginn blaðamaður í hann og spyr hann um þann mun sem er á þeirri könnun sem gerð var uppi á Bifröst og könnun FVH. Er þetta svona að menn geta dælt einhverju bulli í fjölmiðla og svo þarf enginn að standa fyrir neinu, þannski vegna þess að tilgangurinn helgar meðalið.
Ég heyrði aðra frétt fyrir helgina sem vakti athygli mína. Þá skýrði Stöð 2 frá mikilli óánægju blaðbera hjá Íslandspósti, þunginn væri mikill og launin lág. Það var síðan rætt við einn blaðbera sem skýrði frá því að pósturinn sem þau eiga að bera út væri stundum allt að 110 kíló á dag. Hann þarf að flokka og bera út á 9 tíma vinnudegi. Ég hringdi upp á Stöð 2 og talaði við fréttamanninn og sagði að enda þótt það væri töluvert verk að flokka og bera 110 kíló út á einum degi þá fyndist mér það ekkert vera neitt mikið fyrir fullorðna manneskju þegar 13 ára börnum væri ætlað að bera allt að 60 kíló út af Fréttablaðinu með tilbehör á einum klukkutíma á morgnana hvernig sem veður væri. Það kom svolítið á hann en svo sagðist hann ekki hafa tíma til að fjalla um þetta núna en sagði að annar fréttamaður myndi hringja í mig. Það hefur ekki gerst enn og ég á ekki von á að það gerist. Þess ber að geta að það eru sömu eigendur að Stöð 2, Fréttablaðinu og Pósthúsinu ehf sem er að fara í samkeppni við Íslandspóst. Það er mjög praktiskt að nota fjölmiðlana sína til að sverta samkeppnisaðilann eða þannig.
miðvikudagur, júní 08, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli