þriðjudagur, júní 14, 2005

Fór hring í hverfinu í eftirmiðdaginn í gær. Kappklæddi mig til að hitna vel og svitna. Fylgist með veðurspánni í Squaw Walley og Auburn. Hitinn sveiflast dálítið og er á milli 25 og 30 gráður þegar heitast er. Ef að hann verður ekki meiri þá ætti maður að lifa þetta af. Snjóskýrsla kom í gærkvöldi. Snjórinn hefur minnkað mikið og er kominn niður undir meðallag. Með sama áframhaldi ætti þetta að vera vandræðalaust eftir tvær vikur.

Dálítið sérkennileg umræða sem er komin upp í sænsku blöðunum. Hún fjallar um svokallað "tantslam". Það fjallar um þegar eldri konur eru að sýna yngri körlum kynferðislega áreitni. Þetta kemur sérstaklega fyrir á veitingahúsum þegar þjónarnir eru að bera fram veitingar með báðar hendur uppteknar. Þá sæta kellingarnar færist og grípa í þá bæði aftan og framan. Strákar sem líta þokkalega vel út hafa orðið fyrir svo mikilli áreitni af hálfu tantanna að þeir hafa orðið að segja upp störfum. Ég man ekki til að hafa heyrt um þetta hérlendis. Reyndar hefur maður oft séð eldri konur hlassa sér óbeðnar í fangið á strákum og kyssa þá allt hvað af tekur, óbeðnar. Skyldi þessi umræða koma upp á yfirborðið hér eftir svona 5 ár?

Skýrsla ríkisendurskoðunar lá fyrir í gær. Ekkert kom fram í henni sem varpaði skugga á aðkomu forsætisráðherra að sölu ríkisbankanna. Vonbrigði stjórnarandstöðunnar leyndu sér ekki. Allt í einu var það orðið stórmál hvernig skýrslan var kynnt. Ögmundur frændi notaði öll hástemmdustu lýsingarorðin sem hann fann til að fordæma gjörninginn. Hvaða orð skyldi hann nota þegar hann þarf virkilega að láta taka eftir því sem hann segir? Helgi Hjörvar notaði síðan öll Morfís trikkin sem hann kann þegar hann var í spjalli við Hjálmar Jónsson en kom fyrir ekki. Menn eru greinilega orðnir svo vanir þessum bellibrögðum hans að þau slá engan út af laginu lengur og Hjálmar rak hvað eftir annað ofan í hann þversagnir og rangfærslur. Helgi fullyrti meðal annars að menn hefðu selt bankana fyrir slikk og ríkið tapað stórfé. Hvaða fullyrðingar eru þetta? Hvort endanlegt verð er hátt eða lágt er mjög afstætt. Hvers vegna vildu ekki fleiri kaupa fyrst verðið var svona hagstætt? Það sem meðal annars var fullyrt af hálfu stjórnarandstöðunnar í aðdraganda að sölu bankanna að eftir einkavæðingu þeirra myndi útibú verða lögð niður í löngum bunum. Það hefur ekki gerst. Ef þeir hefðu á hinn bóginn verið seldir fyrir algert hámarksverð þá hefði hagræðingarkrafan verið miklu harðari. Þá hefði einnig verið miklu meiri hættu á að þeir einstaklingar sem hefðu keypt stóra sem smáa hluti hefðu tapað peningum. Er það sú aðferð sem Hjörvarinn vildi? Að mínu mati er það sem mestu máli skiptir að við einkavæðingu bankanna hefur verið leystur þvílíkur kraftur úr læðingi að velsæld í þjóðfélaginu hefur vaxið mikið við þá formbreytingu. Er stjórnarandstaðan kannski sár þess vegna?

Engin ummæli: