sunnudagur, júní 05, 2005

Kom að vestan í kvöld. Keyrði vestur á föstudagskvöldið með mági, tengdapabba og bróðursyni. Tjölduðum heima í góðu veðri um miðnættið og sváfum vel til morguns. Hófumst þá handa að rífa úr húsinu heima og spændum allt út, bæði veggi og gólf. Verkið gekk vel og vorum við búnir undir kvöld. Við gáfum öllum EES reglugerðum langt nef og brenndum allt draslið niðri í tóft. Það gekk vel og tók fljótt af. Ósköp var húsið eithvað innantómt þegar búið var að tæma innvolsið úr því en það verður að hugga sig við að tími endurreisnarinnar er hafinn. Ekki hefur verið búið í húsinu í 10 ár og var það farið að setja mark sitt á það.

Við grilluðuðum lambalæri í kvöldmat og borðuðum úti í blíðu, sólskini og rjómalogni. Um kvöldið fórum við í bæjarráp og hittum fólk. Renndum yfir á Patreksfjörð á sunnudagsmorguninn og hittum meira fólk og tókum olíu. Fengum svartfuglsegg og hveitikökur að borða hjá frændfólki mínu sem var sporðrennt með nokkrum góðum sögum og frásögnum. Á Patró var þriðji í sjómannadegi en þar er sjómannadagurinn haldinn þríheilagur. Síðan var rennt suður að aflokinni góðri ferð.

Nú verð ég að fara að undirbúa ýmsa praktiska hluti fyrir ferðina vestur af alvöru. Það er í mörg horn að líta til að ekkert vanti eða gleymist þegar á hólminn er komið. Það verður spennandi að sjá hvernig snjórinn bráðnar þar á morgun eða hinn.

Engin ummæli: