fimmtudagur, júní 02, 2005

Ekkert hlaupið í gær. Fann að hvíldin var vel þegin, ég var orðinn dálítið þreyttur eftir álag síðasta hálfa mánuðar. Geri ekki ráð fyrir að hlaupa neitt fyrr en eftir helgi sökum anna. Fer vestur á firði á föstudaginn og kem ekki fyrr en á sunnudagskvöld. Eftir það verður Esjan tekin nokkrum sinnum í léttum gír.

Félagsfundur í UMFR36 í gærkvöldi í Borgartúninu. Halldór fór yfir 100 km hlaupið í Odense. Sérhvert hlaup er hlaupið og sérhverju hlaupi fylgir ákveðin reynsla. Það er alltaf fróðlegt að fá innsýn í upplifunina og reynsluna af svona löngum hlaupum því reynsla hvers og eins er einstök út af yfir sig. Halldór rúllaði létt í gegnum hlaupið og eftirköstin eru sáralítil.

Við horfðum síðan á myndina A Race For The Soul sem er frá WS100 2001. Það er gaman að fá innsýn í þá upplifun sem hlaupið gefur þátttakendum, sumir vinna sigra en aðrir verða fyrir vonbrigðum. Það er alltaf jafn átakanlegt að horfa á konuna sem kemur í mark 52 sekúndum yfir 30 klst og missir þar með af því að fá beltissylgjuna. Hvar skyldi hún hafa slórað of lengi á leiðinni?

Engin ummæli: