miðvikudagur, júní 15, 2005

Fór til Arnar á Hrísateignum í dag í smá yfirhalningu. Við vorum búnir að tala um það síðast þegar ég kom til hans og hann myndi fara yfir stöðuna áður en ég héldi af stað. Ég hef góða trú á Erni sökum þeirrar reynslu sem ég hef af því að fara til hans með eymsli sem ég gat ekki náð úr mér. Fyrir tveimur árum var ég með verk aftan í öðru lærinu sem ég losnaði ekki við. Eftir þrjá tíma hjá Erni losnaði ég við verkinnog hef ekki orðið hans var síðan. Í vetur var ég með verk við aðra mjaðmakúluna. Örn tók mig í nálastungu og kenndi mér teygjur og verkurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu.

Örn var ánægður með stöðuna á skrokknum, stakk nálum í mig hér og hvar til að auka orkuflæðið og ná balans í fótunum. Hann ráðlagði mér að hafa hægt um mig í dag, enda finn ég að þeir eru svolítið þungir. Þetta var eiginlega síðasti hnykkurinn.

Byrjaði á að taka saman tossalista yfir það sem þarf að fylgja mér vestur. Það er þónokkuð og síðan þarf að skipuleggja útsendingu á því á drykkjarstöðvarnar.

Mér fannst uppákoman á Hotel Nordica alvarleg í gær. Við höfum verið blessunarlega laus við svona lið hingað til á Íslandi. Mér finst grundvallarmunur á því að berjast fyrir hagsmunum sínum og verja rétt sinn s.s. ef ríkið ætlar að leggja veg yfir land sem maður vill ekki missa eða að berjast með valdi vegna þess að maður hefur orðið undir í pólitískri umræðu. Hverjir eru þessir "við" sem talsmaður náttúruverndarsamtakanna sem ég man ekki hvað heita talaði um í Dægurmálaútvarpinu í gær? Eru það álíka margir og héldu til á Austurvelli um hríð? Svona 5 - 10 manns. Í hvers nafni tala þeir.

Enda þótt talsmaðurinn tæki afstöðu á móti skyrslettufólki á Hótel Nordica þá sagði hann engu að síður að hann vildi öll álver á landinu burt. So. Líka Straumsvík og Norðurál í Hvalfirði. Hvað hafa þau gert af sér? Ég man þá tíð að raunveruleikafirrtir vinstrimenn mótmæltu Straumsvíkurverksmiðjunni í ræðu og riti en ég hélt að allir sæmilega skynsamir menn væru farnir að hafa hljótt um slíkar hugrenningar. Það er fróðlegt að velta fyrir sér hvað myndi gerast ef Straumsvík og Hvalfjarðarverksmiðjunum væri lokað? Hve margir myndu missa vinnuna strax? Hve margir myndu missa vinnuna vegna óbeinna áhrifa? Hvað myndi hliðarþjónusta skaðast? Hvað myndi þetta hafa áhrif á margar fjölskyldur? Hvað myndu menn græða á þessum lokunum? Ég er fyllilega á því að það eigi að hafa vaðið fyrir neðan sig varðandi nátúruspjöll og tek þá t.d. Langasjó sem dæmi. Á hinn bóginn verða menn að átta sig á því að ef menn vilja búa hérlendis þá lifa menn ekki á loftinu eða draumórum.

Engin ummæli: