Tók Esjuhlaup fyrir kvöldmat. Fínt, gott veður og kjöraðstæður.
Heyrði í Báru Ketils í útvarpinu í morgun þar sem hún var að fara yfir niðurstöður ritgerðar sinnar. Til hamingju Bára með að vera búin að ljúka náminu. Ég þarf að skerpa mig í haust og vetur en ég sé fram á að hafa ekki möguleika á að klára í haust eins og ég hafði áætlað.
Fékk bréf frá Rollin í dag. Hann var að skýra ýmislegt út fyrir mér sem ég spurði hann um fyrir nokkru og er afar gagnlegt að vita. Hann kemur til með að hlaupa með mér frá Forest Hill School sem er á 62 mílu. Hann leggur áherslu á að borða vel af venjulegum mat, kjöti, fisk og eggjum (nóg af eggjahvítu) síðustu dagana fyrir svona hlaup því það gerir vöðvana betri og úthaldsbetri. Hleðsla með kolvetni er eins og að borða froðu fyrir svona átök.
Síðan fékk ég annað bréf frá blaðamanni Los Angeles Times sem er að skrifa grein um hlaupið. Það vakti athygli hennar að íslendingur skyldi leggja leið sína til Californíu að hlaupa þar um fjöll og firnindi. Kannski býst hún við einhverjum Frosty The Snowman sem bráðni og hverfi yfir hádaginn (ég segi nú svona). Hana langar að heyra um aðstæður til æfinga á Íslandi á veturna og hvað það sé sem dragi mig til Californíu í þessum tilgangi. Sé til hvað úr því verður.
Síðasti hluti af sögu WS 100:
Árið 1997 hófu 369 hlaupið og 257 luku því. Hæsta lokahlutfall í sögu hlaupsins. Veður, hiti og snjóalög voru með hagstæðasta móti. Fyrsti einstaklingur utan Kaliforníu vann hlaupið og setti met (15.50.41). Ann Trason vann í níunda skiptið og endurtók doblið frá fyrra ári þar sem hún vann Comerades 12 dögum fyrr. Tólf konur foru undir 24 klst sem er mesti fjöldi frá upphafi.
Árið 1998 hófu 381 hlaupið og 258 luku því. Mikil snjóalög og hálka í brautinni. Aðstoðarfólk komst fyrst að brautinni á 55 mílu. Tveim klst var bætt við hámarkstíma vegna aðstæðna. Ray Piva varð sá elsti að ljúka hlaupinu, 71 árs gamall og tveir sjötugir fylgdu stutt á eftir.
Árið 1999 hófu 335 hlaupið og 216 luku því. Scott Jurek kom til sögunnar og vann sitt fyrsta hlaup örugglega. Sextugur keppandi frá Sviss kom þrettándi í mark á 20.44 klst. Veður var mjög hagstætt. Skipt var um framkvæmdastjóra fyrir hlaupið og Greg Soderlund, sem ég hef haft samband við, kom til skjalanna.
Árið 2000 hófu 385 hlaupið og 222 luku því. Scott Jurek vann sinn annan sigur yfir mörgum af bestu ultra hlaupurum heims og Ann Trason vann sinn 11 sigur og varð í 11 sæti.
Árið 2001 hófu 396 hlaupið og 267 luku því. Sama par vann hlaupið. Tim Twietmeyer hljóp sitt tuttugasta hlaup undir 24 klst og endaði í öðru sæti. Tvær konur voru meðal tíu fyrstu. Myndin, "A Race For The Soul" var gerð sem ég horfi ætíð á af jafn mikilli ánægju og spennu. Gríðarlegur skógareldur geisaði síðar um sumarið á slóðum hlaupsins og eyðilagði yfir 16 þúsund ekrur.
Árið 2002 hófu 372 hlaupið og 255 luku því. Sama par vann hlaupið og síðustu þrjú ár. 55 ára gömul kona varð elsta kona til að ná undir 24 klst. Leiðinni var breytt vegna skógareldsins árið áður.
Árið 2003 hófu 405 hlaupið og 272 luku því. Sama par vann hlaupið og undanfarin ár. Ný met voru sett í aldursflokknum yfir 60 ár hjá bæði konum og körlum. Þrátt fyrir mikinn hita (99 F) þá náðu 96 hlauparar undir 24 klst. "Running Madness" var frumsýnd. Mér finnst hún ekki alveg eins góð og "A Race For The Soul".
Árið 2004 hófu 366 hlaupið og 278 luku því. Í fyrsta sinn voru það yfir 70% sem luku hlaupinu. Skott Jurek vann í sjötta sinn í röð. Hann hefur bætt tíma sinn á hverju ári og hljóp nú á 15.36.27. Margir náðu sínum besta tíma vegna góðra aðstæðna.
Árið 2005 hófu ........ hlaupið og .......... luku því.
Þetta kemur allt í ljós eftir rúman hálfan mánuð.
föstudagur, júní 10, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli