mánudagur, júní 20, 2005

Jæja, nú er komið að því. Ég legg af stað uppúr hádegi á morgun (mánudag). Mér finnst ósköp stutt síðan að við Halldór, Pétur og Svanur fórum að hlaupa langar æfingar á laugardögum upp úr áramótum. Ýmislegt hefur gerst síðan og margt áunnist. Halldór búinn að klára 100 km hlaup og tvö maraþon, Svanur er að jafna sig eftir liðþófaaðgerð, Pétur búinn að hlaupa fjögur maraþon og nú er komið að mér. Ég hef þá trú að það séu allar forsendur til staðar að sett markmið eigi að ganga upp með skynsemi og yfirvegun. Æfingaprógrammið gekk upp í vetur, skrokkurinn er í lagi það ég best veit og mér til ánægju sá ég í dag að veðurspáin er að verða æ hagstæðari fyrir næstu helgi. Nú spáir hann að heitast verði um 24 - 25 C bæði á laugardag í Squaw Valley og í Auburn á sunnudag. Það er frekar svalt á þessum tíma árs. Ef þetta gengur eftir þá verður allt í lagi með hitann. Ég var mest hræddur við að hann færi upp í um 40C eins og dæmi eru um, jafnvel með miklum snjóalögum.

Ég er búinn að vera að pakka niður í dag. Reyni að muna eftir öllu en það eru auðvitað líkur á að eitthvað gleymist. Þetta er töluverð útgerð, þrjú pör af skóm, allavega 6 pör af sokkum, hlífarnar frá Bryndísi, 5 bolir(bæði síðerma og stutterma), blússa, síðbuxur fyrir nóttina ef þörf krefur, tvenn höfuðljós, camelbag, mittisskjóða, húfur (þar af ein með slöri vegna hita og sólskins), hálsklútur m.a. til að verjast ryki, töluvert af heftiplástrum, second skin, iljaplástrar, íbúfen og aðrar verkjatöflur, sólarvörn og sólgleraugu. Síðan tek ég með dálítið af geli, döðlum, saltstöngum og orkubitum sem ég þekki og hafa reynst mér vel. Ég fæ mér síðan næringu til viðbótar vestra. Síðan hef ég myndavél, vasahníf og varabatterí eftir þörfum. Svo tek ég með púlsmæli og Timex tæki.

Ég flýg vestur seinnipartinn á morgun. Í SF tekur Ágúst (annar íslendingurinn í crewinu) á móti mér á flugvellinum og skutlar mér heim á hótel. Það er nauðsynlegt að hafa nokkra daga til að jafna sig á tímamuninum og aðlagast hitanum aðeins. Ég tek síðan líklega bílaleigubíl upp til Squaw Valley á fimmtudagsmorgun og verð þar við að gera klárt, skrá mig, fara í læknisskoðun og skipuleggja útsendingu á vistum. Síðan er kynning keppenda og fleiri uppákomur á föstudaginn. Ég geri ráð fyrir að gista í Auburn eftir hlaupið og keyra síðan til SF á mánudag.

Ég gaf mig fram í læknistest sem er skipulagt á keppendum. Tekin er blóðprufa á föstudaginn og síðan aftur í markinu. Annar hópurinn fær 1200 mg af íbúfeni á föstudaginn og síðan ekkert á meðan á hlaupinu stendur en hinn hópurinn ekki neitt. Ef í harðbakkan slær gerir maður ógilt frekar en að vera að drepast og geta ekki gert neitt í því.

Það hafa margir haft samband við mig á síðustu dögum með árnaðaróskum. Ég þakka allar góðar óskir sem eru mér mikils virði og vona að ég standi undir þeim væntingum sem bæði ég og aðrir gera. Ég veit ekki hvort ég kemst í tölvu þar vestra en það kemur bara í ljós.

Over and out.

Engin ummæli: