Við Halldór Guðmundsson flugum saman til Kaupmannahafnar föstudaginn 26. maí með það fyrir augum að taka þátt í 100 km hlaupinu í Stige í Odense. Halldór hljóp þetta hlaup í fyrra en það fer fram í útjarðri bæjarins og eru hlaupnir tíu hringir. Við tókum lestina til Odense en þurftum að bíða eftir lestinni í rúman klukkutíma þar sem ferðin sem við áttum pantað með var felld niður. Timex úrið mitt hafði orðið rafmagnslaust rétt þegar af stað var farið þannig að við þurftum að finna úrsmið í Odense til að fá nýtt batterí áðúr en lokað væri. Halldór þekkti leiðina inn í miðbæinn og Ragnar úrmakari kippti hlutunum í liðinn fljótt og vel. Við forum síðan sem leið lá út í Stige, sem er skóli í útjaðri bæjarins. Þar höfðum við ásamt öðrum keppendum fengið gistingu í skólastofum. Þegar við forum að koma okkur fyrir og ég fór að blása í nýju vindsængina sem ég hafði keypt hjá RL Group (Rúmfatalagernum) þá kom í ljós að hún hélt ekki lofti. Við forum út á bensínstöð og keyptum gúmmíbætur en allt kom fyrir ekki, hún lak sem aldrei fyrr. Ég sá mína dýnu útbreidda og loftlausa og fór því og talaði við arrangör hlaupsins og sagði mínar farir ekki sléttar. Ég hafði séð leikfimidýnur í salnum þar sem við borðuðum og spurði hvort ég mætti fá einhverjar lánaðar þar sem dýnan væri ónýt. Hann sagði að sér hefði verið harðbannað að lána nokkrum manni dýnur en þar sem svo vildi til að hann sneri baki í dýnustaflann akkurat þessa stundina þá gæti hann náttúrulega ekki fylgst með því hvort ég tæki tvær eða þrjár í vandræðum mínum. Þannig var því bjargað.
Við fórum frekar snemma að sofa því það yrði ræst kl. 4.00 um nóttina. Hlaupið hofst kl. 6.00 um morguninn og því var nauðsynlegt að vakna með góðum fyrirvara. Ég var satt að segja ekkert of bjartsýnn um morgundaginn. Veturinn hafði ekki gengið sem skyldi hvað æfingar varðaði. Slæm kvefpest hafði tekið af mér einn mánuð í mars og apríl og síðan hafði ég bólgnað í hásin eftir Þingvallavatnshlaupið í maíbyrjun og lítið hlaupið í maí. Svona er þetta. Í fyrra gekk allt upp en ekki í ár. Vitaskuld hefði ég getað notað tímann betur á margan hátt en ég hafði ekki gert það. Þá var það bara þannig, við þessu var ekkert að gera úr þessu og maður yrði að taka því sem koma skyldi. Upp úr kl. fjögur um nóttina borðuðum við góðan morgunmat og fórum svo að undirbúa okkur. Veðrið var þokkalegt, það hafði að undanförnu verið kalt, hvasst og rigning að undanförnu á þessum slóðum þannig að það hefði getað verið verra. Reyndar áttaði maður sig á því að það hefði verið ágætt að hafa síðu buxurnar með en maður heldur að það sé alltaf svo gott veður í útlöndum að þær voru skyldar eftir heima. Það er ekki ætíð svo. Maður smurði vaselíni í stórum skömmtum á fætur og hendur til að verjast kuldanum. Við vorum í síðerma bolum til að byrja með en það væri þá alltaf hægt að fækka fötum ef manni yrði of heitt þegar liði á daginn. Ég setti íbúfen, energikakor löparlarssons og vaselín í beltið og notaði handbrúsann. Ég áttaði mig á að ég hafði gleymt gelinu heima en úr þessu var ekkert að gera við því. Við slógum saman hnefum og óskuðum hvor öðrum góðs gengis. Við ákváðum að vera ekkert að hlaupa saman frekar en okkur langaði, það færi hver sitt hlaup á sínum hraða. Skotið reið af og hópurinn fór af stað. Það voru 31 keppandi sem lagði upp. Ég þekkti eina konu í hópnum frá Borgundarhólmi 2004 en aðra hlaupara kannaðist ég ekki við. Við Halldór héldum sjó saman fyrsta hringinn. Fyrstu tveir kílómetrarnir voru með fram götunni frá skólanum, þá var beygt til vinstri og hlaupnir tæpir tveir kílómetrar eftir hjólastíg. Þaðan var enn beygt til vinstri upp á annan hjólastíg en við fjögurra km markið var komið inn á malarstíg. Eftir honum var hlaupið í tæpa tvo km og þar var drykkjarstöðin. Þar var hægt að fá orkudrykk, rúsínur og þrúgusykur. Ég ruddi í mig þrúgusykri á þessari stöð því gelið vantaði. Eftir sex km markið var hlaupið í fjóra km eftir götum þar til komið var inn á grasflötina við markið en þar var hlaupið um fimm hundruð metra á henni í beygjum til að rétta vegalengdina af. Við Halldór vorum nokkuð samferða fyrsta hringinn og lukum honum á rétt tæpum klukkutíma. Ég hafði sett mér tvö markmið. Hið fyrsta var að ljúka hlaupinu. Annað markmið var að hlaupa undir 10.30 til að halda aðgöngumiðanum á Spartatlthon opnum þar sem ég hafði séð fram á að það gengi ekki upp að fara þangað í haust. Mér fannst full hægt að hlaupa hringinn á rétt um 1 klst og herti því aðeins á mér. Ég setti upp áætlun um að ná nokkuð undir 5 klst með fyrstu 50 km og hanga síðan á rúmum 6 mín tempo á hvern km á seinni hluta hlaupsins. Á þennan hátt hefði ég upp á eitthvað að hlaupa ef eitthvað gerðist sem alltaf getur gerst. Þetta gekk upp. Ég hljóp hvern hring fyrri hlutann á ca 55 mínútum totalt. Hraðinn var svona 5.25 – 5.35 pr km. Maður stoppaði eins stutt og hægt var á hverri drykkjarstöð en síðan gekk maður spöl meðan maður borðaði og drakk. Ég tók frá upphafi tvo bananabita í markinu og borðaði þá gangandi og drakk vel á meðan. Síðan tók ég góðan bita af löparlarssons energikakor á ákveðnum stað þar sem maður fór undir brú og þurfti að fara upp smá brekku. Þann tíma notaði maður til að ganga upp brekkuna, borða og drekka. Svona rúllaði maður áfram, 10 km, 20 km, 30 km og 40 km. “Nu er det næsten et marathon færdigt” sagði tímavörðurinn vinalega við þau tímamót. Á næsta hring fór ég að hugsa um að ég hefði átt að taka með mér C vitamin og Selen töflur í skjóðuna. Við 50 km var ég á 4.46 sem var alveg eftir planinu. Þá hljóp ég inn í skóla, villtist svolítið en fann að lokum salinn þar sem við gistum og ruddi í mig C vítamíni og selentöflum og hélt svo áfram. Þetta var kannski dálítið bratt. Þegar ég kom í markið á næsta hring fór maginn að kvarta. Við að borða bananana eftir að hafa farið í gegnum markið þá ætlaði ég varla að koma þeim niður og mátti þakka fyrir að halda því niðri sem þar var statt. Ég gekk þá dálítinn spöl, drakk vel og róaði mig niður. Þá fór allt í balance aftur og ég gar hlaupið áfram án vandræða. Við 70 km markið fannst manni dálítið langt eftir, heilir þrír hringir eftir eða 30 km. Sú vegalengd ein út af fyrir sig hafði manni fundist vera alveg nógu löng. Fæturnir voru aðeins farnir að stífna og það hafði heldur aldrei hlýnað yfir daginn. Golan var heldur köld og þess varð enn meir vart þegar maður var farinn að ganga nærri sér. Það var alltaf á nippunni að manni væri kalt. Maður var löngu hættur að hugsa um að láta langermabolinn fjúka.
Þegar sjöunda hring var að ljúka og ég kom inn á grasblettinn sá ég tvær konur sem veifuðu. Ég veifaði á móti og hélt að þarna væru kannski komnar konur úr Odense sem væru áhugasamar um ultramaraþon og fylgdu einhverjum keppendanum. Svo fór mér að finnast ég þekkti hverjar þarna voru á ferðinni og það stóð heima. Í markinu biðu Eva og mamma hennar og voru hinar kátustu. Þær höfðu skroppið til Odense til að fylgjast með löndum sínum pjakka áfram í nepjunni. Eva er náttúrulega ekki venjuleg. Það var ekki bara að hún mætti til að hvetja, heldur skyldi hún eftir poka af súkkulaðihúðuðum kasaníuhnetum fyrir keppendann að gæða sér á þegar hringjunum tíu væri lokið. Svona hugsunarsemi dytti mér aldrei í hug. Takk fyrir mig.
Sá sem lauk hlaupinu fyrstur hringaði mig tvisvar. Það var aðdáunarvert að horfa á hann, léttann í spori og sterkan. Við 80 km sá maður fram á að það myndi hafast að ljúka hlaupnu. Planið hafði alveg haldið. Eftir 60 km fór maður að ganga af og til (max 50 skref í einu) en samt sem áður fór meðalhraðinn ekki mikið yfir 6 mín á km. Vid 80 km fannst mér eins og fæturnir yrdu allir lettari. Kannski var C vitaminið að virka. Næstsíðasti hringurinn leið hjá með tilhlökkun um að sá næsti yrði sá síðasti. Planið hélt. Það var gaman að geta farið að telja niður, 9 km eftir, 8 km eftir o.s.frv. Ég var reyndar ekkert þreyttur en lærin voru farin að stífna framan á, ekki síður út af kuldanum en álagi að því ég held. Þegar um fimm km voru eftir náði ég hlaupara sem ég sá að var í 100 km eins og ég. Reyndar voru 60 km hlaupararnir að klára á þessu róli einnig en sama var. Við skiptust um að vera á undan um stund en svo sá ég að hann var þreyttari en ég. Því elti ég hann þar til um tveir km voru eftir og þá tók ég hann á endasprettinum. Það var gaman að koma inn á grasblettinn og skynja að nú væri þetta búið og hefði gengið vel. Ég vissi að marmkiði 2 yrði náð, tíminn yrði um 10 klst og 10 mín + / - eitthvað. Það var fínt. Í markinu biðu Hrefna kona Haraldar Júl. en hún er að læra í Odense, Berglind frænka og vinkona hennar og Halldór!!! Þegar maður kemur í mark eftir tíu tíma streð þá bullar maður bara eitthvað fyrst en svo fer hugsunin að skýrast. Halldór sagði sínar farir ekki sléttar. Eftir 60 km hafði hann fengið mjög slæman verk í hægri fótinn sem ekki lagaðist við íbúfen. Þegar hann fór að ganga til að láta sjá hvort verkurinn lagaðist ekki þá stífnaði hann allur upp í kuldanum þannig að það var sjálfhætt. Svona er þetta, það er ekkert gefið í þessum slag. Halldór var ekki sá eini sem þurfti að hætta. Af þeim 31 sem lögðu af stað voru 8 sem þurftu að hætta, þar á meðal miklir meistarar eins og Kjetil Havstein (www.havstein.dk) sem hafði ætlað að hlaupa undir 8 klst. Ég varð 9. í mark af þeim 23 sem kláruðu. Það var mjög ásættanlegt að mínu mati og í raun og veru framar björtustu vonum miðað við að undirbúningurinn hafði verið svona upp og niður. Ekki síður var ég ánægður með minn hlut fyrir að ég sá engan í hlaupinu sem eg gat ímyndað mér að væri eldri en ég þótt mér finnist aldurinn vera eitthvað sem ekki skipti máli. Það er getan sem telur.
Við Halldór drifum okkur síðan niður á hotel. Þar voru fæturnir látnir í ískalda sturtu áður en hefðbundinn þvottur hófst. Ég held að það sé gott að kæla fæturna niður því þeir hafa þurft að standast ekkert smáræðis álag. Ég teygi aldrei nú orðið eftir svona hlaup, maður veit aldrei hvað gerist í vöðvum og sinum þegar álagið hefur verið í botni í nær þvi hálfan sólarhring. Ég varð aldrei var við orkuskort eða þreytu, orkubalansinn var í fínu lagi en maður fann að það hefði verið betra að vera betur undirbúinn þegar áleið. Það er bara til að láta í reynslubankann.
Mér finnst svona hringahlaup vera fínt. Maður lærir á vegalengdirnar og fer að miða þær út, Niðurtalningin á hverjum hring verður auðveldari. Mér finnst gott að hlaupa svona löng hlaup með útvarp. Mér finnst mjög gott að dreifa athyglinni frá skrokknum og einbeita henni aðeinhverju öðru. Einnig finnst mér gott að hlaupa svona löng hlaup með sólgleraugu enda þott það sé ekki sól úti. Gleraugun verða smám saman óhrein af svita og salti. Það gerir það að verkum að maður lokast inni í sínum heimi og einbeitningin vex að mínu mati.
Góðu hlaupi og ánægjulegri upplifun var lokið.
miðvikudagur, maí 31, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Til hamingju með hlaupið! Nú er maður búin að kanna aðstæður og svona ;)
Til hamingju Gunnlaugur! Mikið rosalega var þetta flott hjá þér.
Kær kveðja
Áslaug og Kári
Skrifa ummæli