þriðjudagur, júní 30, 2009

The Beatles I am a loser

Teygt fyrir utan skálann í Hvítanesi að afloknu Kjalvegshlaupi

Atvinnuleysi hefur vaxið gríðarlega á landinu samkvæmt opinberum skýrslum. Það er um 9% (+/- eitthvað smávegis) og hefur ekki verið svo hátt í áratugi eða líklega ekki síðan í síldarhruninu á árunum 1968-1969. Greiddar atvinnuleysisbætur nema um 2.0 milljörðum á mánuði. Atvinnuleysistryggingarsjóður er að verða tómur og því er nýlega búið að samþykkja á Alþingi ákvæði þess efnis að Tryggingargjald verði hækkað um 1.66 prósentustigsem er veruleg hækkun. Tryggingargjald leggst ofan á laun og launatengd gjöld og er greitt af launagreiðendum. Það gerir náttúrulega ekkert annað en að fara út í verðlagið. Hækkun Tryggingargjaldsins er áætluð að gefa ríkissjóði um 12 ma. kr í auknar tekjur á ári. Hér er því um verulegar fjárhæðir að ræða í aukinni skattlagningu. Nú eru að berast fréttir af því að atvinnuleysisbótakerfið sé dálítið götótt svo ekki sé meira sagt. Í fyrsta lagi hefur svört vinna farið vaxandi. Of mörg dæmi hafa komið upp um að þeir næli sér í atvinnuleysisbætur í leiðinni. Það er náttúrulega gjörsamlega óþolandi að skattsvikarar komist ekki einungis upp með að sleppa við að greiða skatta og skyldur til samfélagsins heldur eru þeir einnig að mergsjúga það með því að svíkja fé út úr Atvinnuleysistryggingarsjóði. Þetta gerir ekkert annað en að hækka álögurnar á þann hluta samfélagsins sem greiðir sína skatta og skyldur. Í öðru lagi er það komið upp að fólk sem var á háum launum og hefur minnkað við sig starfshlutfall getur fengið atvinnuleysisbætur enda þótt það hafi einnig um 500 þúsund krónur í laun á mánuði. Þetta er náttúrulega gjörsamlega klikkað ef satt er. Hvernig á að vera hægt að skattleggja almenning til andskotans en hafa kerfið sem ráðstafar peningunum svo hriplegt eins og dæmin sýna. Í þriðja lagi gengur eitthvað ekki upp þegar fólk vill heldur vera á atvinnuleysisbótum eldur en að vinna. Ég þekki persónulega dæmi þess efnis að einstaklingar ganga frekar um atvinnulausir og fá atvinnuleysisbætur en að leita sér að vinnu sem enginn vandi er að fá. Þetta sýnir að opinbera kerfið kann ekki að vinna undir þessum kringumstæðum. Það er alveg á hreinu að þegar lífskjörin versna svo mikið sem raun ber vitni og er þó ekki allt komið fram að þá fara menn að vera meðvitaðri um hvernig hinum gríðarlegu háu sköttum er ráðstafað. Alþingi verður náttúrulega að forgangsraða málum til að sníða vankantana af kerfinu og gera það eins straumlínulaga og skilvirkt eins og hægt er.

Mér finnst þessi Icesafe umræða vera mjög undarleg. Stjórnvöld kynna niðurstöðu samninganna sem heina einu mögulegu. Síðan kemur maður eins og Jón Daníelsson, sem starfar sem ráðgjafi hjá LSE, fram í fjölmilum og segir að það sé gjörsamlega glórulaust að samþykkja hann eins og hann er. Ég kannast við Jón, hann kenndi mér í HÍ fyrir nokkrum árum. Hann hefur unnið víða um heim og hefur mikla reynslu af alþjóðlegum störfum. Hvað á maður að halda?

sunnudagur, júní 28, 2009

Lítil hugmynd sem ég fékk í fyrra varð að veruleika í dag. Ég fór í bíltúr á síðastliðnu sumri inn á Kjalveg. Þar kannaði ég slóðir sem ég hafði aldrei komið á áður. Hvítárnes, Beinhóll, Þverbrekknamúli og Þjófadalir. Við gengum smá hring frá skálanum við Þverbrekknamúla upp að Hlaupinu og svo niður með Fúlukvíslinni að austanverðu í skálann. Einhversstaðar á leiðinni datt mér það í hug að það væri hæfilegur leggur að hlaupa frá Hveradölum, inn í Þjófadali, niður með Fúlukvíslinni, yfir Þverbrekknamúlann og svo niður með Fúlukvíslinni niður í Hvítárnes. Að stofni til er þetta gamli Kjalvegurinn nema hann lá ekki í gegnum Þjófadalina. Ég minntist á þetta við strákana í vetur og hugmyndin var komin af stað. Í vikunni tók Gauti af skarið með að nú skyldum við drífa okkur um helgina. Veðurútlit væri gott og ýmsir klárir. Við lögðum svo af stað í morgun átta saman. Gauti og Hafrún, Jói og Kristín, Sigurður og þóra, ég og Stebbi. Við keyrðum fyrst inn í Hvítárnes og skildum þar tvo bíla eftir en tróðum okkur öll í Krúser Gauta og Hafrúnar og ókum sem leið lá til Hveravalla. Það stóðst á endum að þegar við tókum beygjuna í hlaðið þá lá bíllinn á felgunni. Grjótið á Kjalvegi sýnir gúmmíinu enga miskunn enda þótt það sé undir nýjum og fínum bílum. Strákarnir á Hveravöllum voru allir af vilja gerðir með að hjálpa okkur, settu tappa í dekkið og gerðu allt klárt svo bíllinn væri nothæfur. Við lögðum af stað tuttugu mínúrur yfir tíu sem leið lá inn í Þjófadali. Það var hlýtt, logn en smá úði sem hætti fyrr en varir. Leiðin inn í Þjófadali er 12 km löng og liggur yfir tvo hálsa. Mestan partinn hlupum við eftir vegslóðanum. Við gerðum stuttan stans við sæluhúsið og fórum síðan sem leið lá inn úr dalnum og beygðum til vinstri niður með Fúlukvíslinni. Á þessum legg var að mestu leyti vatnslaust þar til við Þverbrekknamúlaskálann svo það þurfti að fylla á brúsana. Leiðin niður með Fúlukvíslinni er svolítið grýtt en annars hlaupin eftir troðningum sem kindur og hestar hafa mótað gegnum árin. "Hlaupin" er sá staður kallaður sem áin rennur í mjög þröngum stokk undir Þverbrekknamúlanum. Það er hægt að stökkva yfir ána ef mönnum liggur á. Nú er komin örstutt brú á ána sem göngufólk notar gjarna. Þaðan liggur leiðin upp á múlann og síðan er skokkað eftir honum í áttina að skálanum. Við gerðum smá stans við flottan blátæran hyl á leiðinni í gömlum árfarvegi. Í honum sáum við smáfiska okkur til undrunar. Brátt vorum við komin í hlaðið á skálanum. Þá voru komnir 26 km og við búin að vera 3 1/2 tíma á leiðinni. Við fengum okkur birgðir af vatni við skálann, skrifuðum í gestabók og héldum síðan áfram yfir brúna og niður með ánni að austanverðu. Ég vissi ekki alveg hvað þessi leggur var langur en hafði giskað á um 10 km. Hann reyndist drýgri eða um 16 km. Þarna var yfirleitt fínt að hlaupa, þéttar moldargötur og grjótið mjög sjaldan til leiðinda. Á þessum legg var þreytan aðeins farin að segja til sín enda nestið ætlað fyrir heldur styttri leið en hún reyndist þegar upp var staðið. Á einum stað munaði litlu að við færum fram hjá réttu leiðinni því það lá bara fjöl á jörðinni og á henni stóð Hvítárnes. Hvað ef spýtan hefði legið á hvolfi? Það létti sporið þegar við sáum skálann stutt undan og náðum þangað eftir tvo tíma frá´skálanum við Þverbrekknamúla eða eftir fimm klst og þrjátíu mín í allt frá Hveravöllum. Það stóðst á endum að þegar við komum að Hvítárnesi fór að rigna töluvert. Okkur var því ekki til setunnar boðið heldur drifum okkur af stað. Gauti fór að sækja bílinn í áttina að Hveravöllum en við hin sigum áleiðis heim. Finn dagur var á enda runninn og skemmtilegt að lítil hugmynd sem kviknaði af tilviljun skyldi verða að veruleika. Þetta er fín fjallahlaupaleið, bæði fjölbreytt og þægileg.

María fór með skömmum fyrirvara fyrir helgina á Gautaborgarleikana í frjálsum íþróttum. Markmiðið var að reyna að ná lágmarkinu á Ólympíuleikana fyrir 15 og 16 ára krakka. Þeir eru haldnir í Tampere i Finnlandi um miðjan júlí. Þetta er síðasti möguleiki hennar til að komast á leikana. Nokkrir aðrir krakkar frá Íslandi á leikunum í sama tilgangi. Þau voru svo óheppin að í Gautaborg er þessa dagana ca 28°C og heiðskýrt. Það er því erfitt fyrir hlaupara í lengri hlaupum að ná sínu besta við slíkar aðstæður heldur óvanur hitanum. Það er hægt að æfa hitaæfingar en það hafði enginn gert. Þó setti Íris Anna úr Fjölni íslandsmet í 2000 m hindrunarhlaupi. Hjá Maríu voru bundnar mestar vonir við 400 m grind sem hún hefur verið að standa sig vel í að undanförnu. Það gekk hins vegar ekki að ná lágmarknu þar og ekki heldur í 400 m hlaupi. Í morgun keppti hún svo í 100 m grind sem var svona aukagrein en tekin til að fá reynslu af að keppa á stóru móti. Þá bætti hún sinn persónulega árangur verulega, komst í úrslitahlaupið og náði lágmarkinu á OL fyrir unglinga í Finnlandi. Það var gaman að þetta skyldi allt ganga upp.

laugardagur, júní 27, 2009

The Beatles If I Fell

Flórgoði að snyrta sig

Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum að ókunnugt fólk (aðallega karlar) hefur stoppað mig á förnum vegi, óskað mér til hamingju með hlaupið í Danmörku en látið svo fylgja með: "En þetta er náttúrulega klikkun" Þegar ég malda í móinn og segi að þetta sé kannski ekki svo galið þá er sagt með þunga: "Þetta er víst klikkun"

Í sambandi við þetta þá hef ég velt fyrir mér hvað veldur því að fólk gengur að ókunnugu fólki og fullyrðir við það að það sé klikkað. Nú má vera að þetta sé blanda af öfund og vanmáttarkennd en það kemur meira til. Það er viðtekið sjónarmið að fólk eigi að falla í ákveðið norm. Ungt fólk á að vera á ferð og flugi og takast á við eitt og annað. Það er normalt. Fólk á sextugsaldri á að vera farið að taka það rólega, vera í golfi og taka kannski eina og eina gönguferð með Útivist eða FÍ. Annars á það að dútla í garðinum og anda rólega. Þetta er normið, annað er ónormalt. Ef einhver brýtur sig út úr norminu þá reynir almenningsálitið að þrýsta honum inn í normið aftur. Það er ekki sátt nema allt sé undir kontrol. Í annan kant má einnig ímynda sér aðra ástæðu. Nágrannar mínir eru afar duglegir að dútla við eitt og annað heima við. Til hreinnar fyrirmyndar. Það hefur hins vegar ýmis áhrif út frá sér. Oft er sagt hér heima; "Geturðu nú ekki farið að gera hitt eða þetta, sérðu ekki hvað þeir eru duglegir." Það er misjafnt hvað maður hrekkur fljótt til við slíkar brýningar. Því getur maður ímyndað sér að einhversstaðar sé sagt þegar konunni er farið að ofbjóða kílóasöfnunin hjá kallinum. "Geturðu nú ekki farið að hreyfa þig aðeins, góði minn, þú hefðir bara gott af því?" Þegar það hefur ekki áhrif þá er farið að benda á hina og þessa. "Sérðu hvað hinn eða þessi er að gera, farðu nú að hreyfa þig aðeins. Þú getur það alveg eins og þeir" Þá er lokavörnin að fullyrða að þetta séu bara kolklikkaðir endorfínsjúklingar sem verði að hlaupa lengra og lengra til að fá skammtinn sinn. Þetta séu bara dópistar. Svo þegar menn sjá ódámana ljóslifandi þá geta menn ekki staðist freistinguna að upplýsa viðkomandi um hvað þeir séu klikkaðir. Þetta er svolítið fyndið.

Nú er allt afstætt. Hvað er klikkun og hvað er ekki klikkun? Að mínu mati er það dæmi um töluverða klikkun að taka meðvitaða ákvörðun um að eyðileggja líkamann hraðar en lífsklukkan telur með óhollu mataræði, kyrrsetu og að ég tali nú ekki um með reykingum. Kílóunum fjölgar og blóðþrýstingurinn hækkar. Svo lætur eitthvað undan langt um aldur fram. Í upplýstu samfélagi nútímans vita þetta allir. Aðrir geta verið ósammála þessu mati og allt í lagi með það. En ef það er talin klikkun að borða hollan mat, styrkja sig andlega og líkamlega og setja sér ný og krefjandi markmið sem nást þá er ég harla ánægður með að vera álitinn klikkaður. Toppurinn á klikkuninni er síðan að slaka á í heita pottinum eftir langa og krefjandi æfingu, nýbúinn að fá sér góðan próteindrykk.

Ég er að hlusta á Útvarp Sögu. Stöðin er oft með fína umræðu um ástandið í samfélaginu. Gagnrýnin umræða er aldrei nauðsynlegri en í ástandi eins og samfélagið er í um þessar mundir. Þau eru að fara yfir að stöðin hafi ekki brugðist í gagnrýnni umræðu á undanförnum árum eins og aðrir fjölmiðlar eru sakaðir um. Ég er ekki sammála þessu sjálfsmati stöðvarinnar. Ég gat ekki fengið mig til að hlusta á Útvarp í nokkur misseri vegna þess hvernig stöðin fjallaði um persónu Jónínu Benediktsdóttur í kjölfar þerrar gagnrýni sem hún setti fram á þá þróun sem var að eiga sér stað í samfélaginu. Jónína var t.d. mjög gagnrýnin á fjármálakerfið, krosseignatengsl og vinnubrögð auðjöfranna. Hún fékk aldeilis að snýta rauðu fyrir vikið. Það átti hreinlega að ganga frá henni og skilja hana eftir ærulausa. Útvarp Saga gekk vasklega fram í því sambandi. Nú hefur reynslan sýnt að Jónína hafði rétt fyrir sér í öllum þeim atriðum sem hún fjallaði um. Mér finnst að Útvarp Saga ætti hreinlega að viðurkenna þetta og biðja Jónínu afsökunar. Þau stæðu sterkar eftir í gagnrýni á stöðuna eins og hún er í dag.

Tók 34 km í morgun. Frábært veður.

Víkingar fengu Hauka í heimsókn í Víkina í gær. Heimaliðið lá 1-3. Það er nokkuð í land með að byggja upp gott fótboltalið í Víkinni.

föstudagur, júní 26, 2009

The Beatles - I Saw Her Standing There

Grafandarkolla

Það var gaman að fylgjast með Einari Daða og Helgu Margréti í Tékklandi í gær og fyrradag. Bæði stóðu sig frábærlega. Helga Margrét sýndi að íslandsmetið í Kópavogi um hina helgina var engin tilviljun og gerði gott betur. Bætti nýsett met um á annað hundruð stig og varð þriðja með ólympíumeistarann í broddi fylkingar. Það munaði einungis 22 stigum að hún næði inn á HM fullorðinna, aðeins sautján ára gömul. Hún er í efsta sæti í heiminum í sínum aldursflokki þannig að hér er um frábæran árangur að ræða. Hún er svakalegt efni í frábæra íþróttakonu og verður gaman að sjá hvernig hún vinnur úr þessum hæfileikum sínum. Einar Daði bætti fyrir vonbrigðin í Kópavogi og sýndi svo sannarlega hvað í honum bjó. Hann setti íslandsmet í sínum aldursflokki og varð í öðru sæti í unglingaflokki á mótinu. Flottur íþróttamaður.

Ég fékk tímarit Landsbjargar í gær. Þar kennir margra grasa og meðal annars er þar grein um slys í ferðamennsku. Á árunum 1996 - 2006 urðu 34 dauðaslys í landinu í ferðamennsku eða um 3 dauðaslys á ári. Og það segir enginn neitt. Það er gert mikið úr því að sjórinn hefur ekki tekið mannslíf nú um skeið og allt gott um það. en þá er ferðamennskan farin að færa sig upp á skaftið. Síðan veit maður ekkert um hve mörgum sinnum fólk hefur slasast eða legið við stórslysum. Mig grunar að þau tilvik séu allnokkru fleiri. Í greininni er meðal annars minnst á þegar frakki dó á leiðinni frá Landmannalaugum í Emstrur. Hann hefur greinilega villst niður í átt til Fljótshlíðar, séð ljósin í Húsadal og ætlað að þvera Markarfljót og drukknað. Laugavegshlauparar hafa kvartað yfir því árlega að merkingin sé léleg þar sem maður fer út af veginum yfir á sandana í átt að Emstrum. Aldrei er neitt gert í málinu. Líklega eru menn að togast á um hver á að gera hlutinn eins og þegar enginn vildi setja upp skilti við Dyrhólaey þótt þar lægi við dauðaslysum. Þetta er dálítið dæmigert.

Það er orðinn mikill fjöldi sem fer á Hvannadalshnjúk árlega. Það má þakka fyrir meðan ekki verður að óhöppum þar eða alvarlegri óhöppum en þegar hafa orðið. Það er þess meiri ástæða til að hafa áhyggjur þegar Stafafellsleiðin er svo til eingöngu farin en mun meiri hætta er á sprungum á því svæði en þegar Virkisjökulsleiðin er farin. Kunnugir þekkja vel til en hvað með þá sem eru minna kunnugir. Það ætti t.d. að koma á tilkynningaskyldukerfi vegna þeirra sem fara á jökulinn, gera ákveðnar kröfur um þekkingu hjá þeim sem leiða hópinn og gera lágmarkskröfur um búnað og fatnað hjá göngufólki. Auka þarf fræðslu um fjallaferðir og rannsaka þarf formlega hvað olli ef óhöpp eða slys verða. Óvarkárni á að geta valdið leyfismissi. Síðan er alltaf spurningin hvað á að gera ef sauðþráir íslendingar hlýða engu og engum. Slíkir einstaklinga eru alltaf til. Það á að vera hart tekið á því ef menn hlýða ekki fararstjóra. Jsfnvel á að vera hægt að setja menn í ferðabann þannig að menn fái ekki leyfi til að fara með í skipulagðar ferðir á vegur Ferðafélagsins, Útivistar eða Fjallaleiðsögumanna ef þeir verða uppvísir að því endurtekið að fara ekki eftir fyrirmælum. Það getur farið gamanið af því að vera inni á hálendinu í erfiðleikum eins og það er magnað við góðar aðstæður og þegar allt gengur vel.

Fór Eiðistorgshringinn í kvöld í góðu veðri.

miðvikudagur, júní 24, 2009

The Beatles - Please Mr Postman

Það var fjölmenni í Laugardalnum í gærkvöldi

Miðnæturhlaupið var í gærkvöldi. Maður var dálítið áhyggjufullur fyrirfram því það spáði ekki vel. Rigning og kalsi var yfirvofandi. Það fór hins vegar allt vel. Svo sme ekki hlýtt en þurrt og létt gola. Þátttakan fór fram úr öllum væntingum en um 1300 manns tóku þátt í hlaupinu. Það er sett þátttökumet í hverju einasta hlaupi sem haldið er. Það er sannkölluð hreyfingar- og skokkbylgja að ganga yfir. Maður sá fólk hlaupa í gær sem maður getur ekki annað en tekið ofan fyrir að hella sér í þennan slag. Þetta er erfitt og ekki alltaf skemmtilegt þegar verið er að byrja en uppskeran er eftir þeirri vinnu sem lögð er í verkið. Félagi minn sem ég hitti í gær í hlaupinu hringdi í mig í kvöld. Hann hefur heldur betur tekið sér tak og m.a. lést um eins 17 kíló frá áramótum. Hann bætti sig um einar 15 mínútur í 10 km hlaupi frá RM í fyrra. Svona er hægt þegar vilji og agi eru fyrir hendi. Þetta er almennilegt. Mogginn var á staðnum og hringdi svo og spurði frétta. Ljósvakamiðlarnir létu sig engu varða þótt um 1300 manns væri samankominn við sundlaugarnar til að hlaupa. Líklega hefur þeim fundist það kosta of mikið að ræsa liðið út. Ef ég hefði tekið mér stöðu við annan mannn niður í miðbæ og æpt "Vanhæf ríkisstjórn" út í bláinn þá hefði ég fengið viðtöl á öllum stöðvum og ég veit ekki hvað. Ég tala nú ekki um ef ég hefði hent súrmjólk á þinghúsið. Svona eru áherslurnar í fréttaflutningi.

Evrópuhlaupinu lauk á sunnudaginn. Þá luku hlaupararnir 64 daga hlaupi frá Bari á suður Ítalíu til Nordkapp, nyrsta odda Noregs. Aldrei hvíldardagur. Meðalvegalangd var 71 km á dag. Síðustu þrjá dagana var hlaupin um 260 km vegalengd. Það var skítakuldi, rigning eða hagl og vindur. Svíunum var svo kalt að á einni drykkjarstöðinni þegar þeir fengu meiri föt þá gat annar þeirra hvorki borðað eða klætt sig í nýju fötin. Þjóðverjinn sem vann hélt meðalhraða sem svaraði um 5 mín á km. Trond hinn norski varð sjötti og hélt um 6 mín tempo alla leiðina. Það er ekki hægt að segja að leiðin sé slétt. M.a. er hlaupið yfir Alpana. Um 2/3 þeirra sem lögðu af stað héldu út allann tímann. Það er hreint þrekvirki.

Um árabil hefur söngurinn staðið að það verði að leggja samræmdu prófin í grunnskólunum niður. Þeir sem þann söng kyrjuðu héldu því fram að prófin hefðu alltof mikil áhrif á seinni hluta 10 bekkjar. Hálft ár af 10 árum. Það er nú ekki svo svakalegt ef hin 9,5 árin eru vel nýtt. Veiklunda stjórnmálamenn láta undan svona umræðu og taka ákvarðanir sem frekar taka mið af vinsældakeppni en markvissri stefnumótun. Partur af þessum söng voru árlegar fréttir af hinu gríðarlegu álagi á nemendur sem fylgdi samræmdu prófunum. Niðurstaða þeirra gæti ráðið úrslitum í hvaða skóla nemendur fengju inngöngu. Þegar maður var krakki þá tók maður ætíð samræmd próf í barnaskólanum. Lestrarpróf, reikningspróf og íslenskuprófið komu að sunnan. Sama máli gilti um landsprófið. Það var samræmt próf og ekkert annað. Stóð fyrir sínu, fínt próf en dálítið erfitt. Talsmenn samræmdu prófanna héldu því hins vegar fram að það væri ekki hægt að meta niðurstöðu grunnskólans á annan hátt með öllum þeirra kostum og göllum. Þeir urðu undir í þessari umræðu. Nú hefur komið í ljós að þeir höfðu rétt fyrir sér. Verðbólga þykir hafa hlaupið í skólaeinkunnir. Hætt er við því að skólar freistist til að hækka skólaeinkunnir svo krakkar hvers skóla hafi meiri líkur á því að komast í þá skóla sem þá langar til að fara í. Slík þróun endar með því að allir fá 10.0 í einkunn ef maður er dálítið öfgafullur. Hvað gerist þá? Annað tveggja gerist. Framhaldsskólarnir fara að leggja inntökupróf fyrir umsækjendur eða að samræmd próf verður tekið upp aftur. Þá eru menn komnir í hring. Hver var þá tilgangurinn með allri þessari vegferð? Þetta er eins og með Lísu í Undralandi. Ef maður veit ekki hvert maður ætlar þá skiptir ekki hvaða leið maður velur. Maður kemst alltaf á áfangastað.

Það skortir ekki að útrásarvíkingarnir hafi greiðan aðgang að fjölmiðlum þegar mál þeirra eru í einhverju ferli. Yfirlýsingar þeirra eru lesnar aftur á bak og áfram. Málflutningur þeirra kemst allur til skila. Hvaða fréttamennska er þetta? Er það einhver frétt að HS sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann segist vera saklaus eins og páskahérinn? Af hverju eru ekki lesnar yfirlýsingar frá venjulegum snærisþjófum þegar þeir eru staðnir að verki. Það er einungis frétt þegar niðurstaða í svona mál liggur fyrir. Hvenær ætla fjölmiðlar að skapa sér einhvert sjálfstæði og hafna svona rugli.

laugardagur, júní 20, 2009

Burt með ykkur

Það var eins gott að það var ekki búið að gera Álftanesmanninn að þjóðardýrlingi, hengja á hann fálkaorðu eða eitthvað annað álíka eins og margir virtust vilja eftir fyrstu viðbrögðum að dæma. Það kom nefnilega í ljós að þetta var bölvaður skúrkur. Búinn að hafa stórfé út úr saklausu fólki sem hafði treyst honum fyrir fjármunum sínum í góðri trú. Það að einhver hafi böstað þig réttlætir ekki að þú gerir það sama við aðra. Síðan ætti fólk að athuga hvað það hefði í för með sér ef það færi að vera plagsiður að eyðileggja þær eignir sem menn missa út úr höndunum á sér. Lánastofnanir sitja uppi með engar eignir á móti útlánum sem ekki innheimtast. Lánastofnanirnar verða engu að síður að standa skil á peningunum til sinna lánveitenda. Viðkomandi eignir hefðu vonandi selst í fyllingu tímans. Það að skuldir innheimtast ekki og engar eignir eru til fyrir þeim þýðir ekki annað en vaxtastig ílandinu muni hækka því einhver verður að borga brúsann.

Ég veit ekkert hvar ég stend í Icesafe málinu. Maður trúir engum lengur. Þegar aðalsamningamaður landsins segir í einni setningu að þetta sé fínn samningur og í næstu setningu segir hann að öll tiltæk evrópulönd hafi þvíngað Ísland til að skrifa undir samninginn ella myndum við hafa verra af. Hverju á maður að trúa? Kópavogssamningurinn var ekkert sérstakur samningur hér í denn tíð enda gerður undir þvingaðri stöðu. Eru samningar sem gerðir eru þegar einskis annars úrkosta er völ ekki yfirleitt vondir. Þegar Corleone gerði mönnum tilboð sem þeir gátu ekki hafnað var yfirleitt skrifað undir.

Ég er ekkert sérstakur enskumaður en svona slarkfær. Ég er mun betri sænskumaður. Ég hef þó lesið sænska texta á einhverri kontórista sænsku sem ég skil nánast ekkert í. Mér finnst þessi Icesafe texti vera eitthvað í þá áttina. Samansúrraður texti á illskiljanlegri stofnanaensku. Þegar Gísli Ásgeirsson, löggildur og margreyndur skjalaþýðandi úr ensku, á í erfiðleikum með textann og segir að það þurfi að leggja hann fram með ítarlegum skýringum um hvað einstakar setningar og orð þýða þá hangir eitthvað á spýtunni. Það væri gaman að vita hvort aðalsamningamaður landsins gæti snarað honum yfir með einföldum yfirlestri. Vitaskuld þarf að þýða svona samninga af færustu sérfræðingum þar um því einstakar meiningar og einstök orð geta haft úrslitaþýðingu um áhrif hans og stöðu hvors aðila. Það má vera að það þýði ekkert en að ljúka málinu með samningum en það er munur á hvort fram fari samningar milli tveggja aðila sem vilja ljúka ákveðnu máli eða hvort annar aðili málsins er með hlaðna skammbyssu við gagnaugað þegar sest er að samningaborðinu.

I want to hold your hand. She Loves You. The Beatles

Straumandarpar á Laxá

Kvennahlaupið er í dag. Mér finnst það fínn viðburður. Þarna koma konur saman og skokka eða ganga saman. Aðalatriði er að fara út og hreyfa sig. Þarna er ekki nein formleg keppni heldur er hreyfingin og útiveran aðalatriðið. Það er líka þessi stemming sem gerir fjöldann. Fæstar þessara kvenna myndu mæta til leiks ef þarna væri tímamæling eða keppni. Á hin bóginn hefur kvennahlaupið örugglega kveikt í mörgum um að fara að hreyfa sig reglulega og þá veit maður aldrei hvað gerist. Kvennahlaup er bara fyrir konur. Það skiptir mig ekki máli. Það er þeirra mál. Ég hef enga löngun til að brjóta þann múr niður. En þá finnst mér hinsvegar að karlar megi hafa sína klúbba í friði án þess að verða fyrir aðkasti fyrir karlremdu og einangrunarhyggju. Það virðist nefnilega ekki vera sama Jón og Jóna. Mismunandi illa dulinn kvennafasismi á sér ýmsar birtingarmyndir. Það er nokkuð langt seilst í hreintrúarstefnunni ef litlir strákar verða fyrir aðkasti þeirra meðvituðu ef þeir skokka í kvennahlaupinu með mömmu sinni eins og Bibba er að rifja upp. Kannski hafði mamman engan til að gæta stráksins á meðan hún var að hlaupa. Kannski langar litla stráka að skokka með mömmu sinni. Svona kerlingartruntur sem hreyta skætingi í börn undir gunnfána kvennabaráttu eru náttúrulega alltaf til og oftast öllum til leiðinda.

Það er eitt sem er svolítið sérstakt í sambandi við kvennahlaupið. Það er bannað að halda kvennahlaup í Reykjavík. Hvers vegna skyldi það nú vera?

Í gær var 19. júní, kvenréttindadagurinn. Þá upphefst hinn árlegi söngur um að það séu svo og svo mörg ár síðan konur fengu kosningarétt. Undirtónninn er að fram að þeim tíma hafi konur verið utangarðsmenn í elsta lýðræðisríki heims vegna yfirgangs karlkynsins. Það er með þetta eins og svo margt annað að hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lýgi. Skoðum þetta aðeins nánar.

Hvert var hlutverk Alþingis gegnum aldirnar? Þingmenn hýrðust á Þingvöllum í nokkrar vikur á ári hverju við illan kost í húsaræflum og tjöldum. Helsta hlutverk Alþingis á seinni öldum var fyrst og fremst að funkera sem dómstóll. Þar var fátækt fólk dæmt til refsingar á ýmsan hátt og oft í framhaldi af dómnum murkað úr því lífið á ÞIngvöllum. Miklu fleiri karlmenn en konur voru drepnir á Þingvöllum gegnum árin þrátt fyrir að á okkar meðvituðu tímum er eingöngu talað um konurnar sem fórnarlömb tíðaranda þessa tíma. Þegar maður les sögu síðustu alda er aldrei (mjög sjaldan) talað um þingmennsku sem einhversskonar áhrifastöðu. Valdastéttin voru sýslumenn og klerkar. Einstaka embættismenn komust einnig í þann hóp. Vafalaust allir karlar. Efnaðar konur voru oft mjög áhrifamiklar eigi síður en karlmenn í krafti auðsins. Allur almenningur var hins vegar bláfátækur, þar með algerlega áhrifalaus og komst ekki að áhrifastöðum. Það átti jafnt við um konur og karla. Sveitarfélög hafa verið til frá landnámsöld. Hlutverk sveitarfélaga gegnum aldirnar var aðallega þrennskonar. Hið fyrsta var eftirlit með heyforða. Heyin voru grundvöllur þess að hægt væri að koma skepnunum fram á græn grös. Um það snerist tilveran. Ef það brást fór fjölskyldan á hreppinn ef allt um þraut. Því vildu menn reyna að forða í lengstu lög og um það ríkti ákveðin samtrygging. Síðan var framfærsla fátækra. Niðurboð niðursetninga. Það var á borði sveitarstjórnar. Í þriðja lagi voru ýmis minni háttar sameiginleg verk sem sveitarstjórn bar ábyrgð á eins og skipan fjallskila. Þeir sem höfðu kosningarétt til sveitarstjórna voru sjálfstæðir bændur. Ef bóndi flosnaði upp þá missti hann kosningaréttinn. Þau verkefni sem voru á borði sveitarfélagsins voru verkefni sem fyrst og fremst tengust starfandi bændum enda samfélagið bændasamfélag. Svona var þetta gegnum aldirnar.

Þetta fór að breytast þegar leið á 19 öldina. Bæði fór þéttbýlismyndun að aukast með aukinni útgerð. Í annan stað fékk þjóðin stjórnarskrá árið 1874. Það þýddi að aukin ábyrgð á ýmsum verkefnum fluttist inn í landið. Hlutverk stjórnmálamanna fór því vaxandi. Þýðing kosninga fór því einnig vaxandi. Heimastjórnin komst á laggirnar árið 1904. Þýðing kosninga jókst með þeim áfanga. Það var því í rökréttu samhengi við þessa þróun að almenningur fengi möguleika á að taka þátt í kosningum. Það átti við um bæði kynin. Kosningaréttur kvenna til Alþingis var því viðtekinn árið 1915, þremur árum áður en Ísland varð fullvalda.

Á Wibeku kemur þetta fram ef maður gogglar um kosningarétt kvenna:

Fyrsti kosningarétturinn 1882
Árið 1882 fengu konur í fyrsta skipti kosningarétt á Íslandi. Þessi kosningaréttur var þó afar takmarkaður og hljóðaði upp á að ekkjur og aðrar ógiftar konur sem sátu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar fengu kosningarétt í sýslunefnd, hreppsnefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum. Þessi réttur gilti fyrir konur sem voru eldri en 25 ára og honum fylgdi ekki kjörgengi. Það skal tekið fram að vinnukonur áttu sig ekki sjálfar og voru því mjög fáar konur sem gátu nýtt sér þennan kosningarétt


Konur í Reykjavík og Hafnarfirði - fyrsta framboðið
Árið 1907 fengu konur í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna í Reykjavík og Hafnarfirði. Kosningarétturinn var bundinn sömu skilyrðum og kosningaréttur karla.

Snemma árs 1908 ákváðu fjórar forvígiskonur í kvenréttindafélögum í Reykjavík að stofna kvennaframboð og bjóða sig fram til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Framboðið var ákveðið með tveggja vikna fyrirvara og kosningaherferð þeirra var mjög skipulögð. Framboðið náði frábærum árangri, það fékk flest atkvæði allra framboðanna og allar konurnar á listanum komust í bæjarstjórn Reykjavíkur. Konurnar sem voru í framboði voru: Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, Guðrún Björnsdóttir, mjólkursölukona og Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ritstýra kvennablaðsins og formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Sveitarstjórnir
Árið 1909 voru samþykkt lög um kosningarétt og kjörgengi í málefnum hreppsfélaga og kaupstaða. Í þessum lögum kom m.a. fram að konur fengju kosningarétt ef þær hefðu lögheimili á staðnum, óflekkað mannorð, væru fjár síns ráðandi, stæðu ekki í skuld fyrir sveitarstyrk og greiddu gjald í bæjarsjóð eða hreppsjóð. Giftar konur höfðu einnig kosningarétt og kjörgengi hafði hver sá sem hafði kosningarétt og var ekki vistráðið hjú. Í þessum lögum kom einnig fram að konur mættu skorast undan kosningu en á þessum tíma var hægt að kjósa hvern sem var og karlar máttu ekki skorast undan kosningunni.

Alþingi
Árið 1915 fengu konur og vinnuhjú, 40 ára og eldri, kosningarétt til Alþingis. Aldursmarkið átti að lækka um eitt ár árlega næstu 15 árin. Lögunum var þó breytt eftir 5 ár því árið 1920 fengu konur og vinnuhjú full pólitísk réttindi við 25 ára aldur.

Hér kemur því fram að sú söguskoðun að konur hafi fyrst fengið kosningarétt árið 1915 er beinlínis röng. Þá fengu þær kosningarétt til Alþingis enda var þá verið að endurreisa Alþingi úr rústum á grundvelli stjórnarskrárinnar og nýrra vinda. Kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum fengu þær fyrr.

Hvað með karlana? Á 19. öld var hart deilt um kosningarétt karla í Evrópu þar sem sú hugmynd var ríkjandi að þeir einir ættu að hafa kosningarétt sem greiddu skatta. Þegar fyrst var kosið til þings á Íslandi árið 1844 var t.d. enginn kosningabær maður í Vestmanneyjum, þar sem enginn var svo vel efnum búinn að hann greiddi skatt.
Þótt þingræði ríkti á Englandi á 19 öld fór því fjarri að þar væri lýðræði þar sem einungis um 2% þjóðarinnar hafði kosningarétt. Í Frakklandi fengu karlar kosningarétt í orði kveðnu árið 1848 en hann skipti litlu máli í raun þar sem keisarastéttin réði öllu.

Það er ekki einfalt að goggla fram upplýsingar um hvenær karlar fengu almennt kosningarétt á Íslandi. Þó komst ég að því sem ég vissi ekki að vinnumenn fengu ekki kosningarétt til Alþingis fyrr en árið 1915 eins og konur. Hvað er þá málið? Það er að gerast hið sama hér og í öðrum löndum álfunnar að yfirstéttin er að missa völdin og lýðræðið er að þróast. Hluti af þessari þróun er að almenningur fær aðkomu að stjórnun landsins. Það er merkilegt að í greinum sem maður les og eru skrifaðar eftir talmenn kvennabarátturnnar þá er yfirleitt síterað í andófs- og úrtölumennina þegar farið er yfir umræður um útvíkkun kosningaréttarins. Vitaskuld hafa verið aðrir sem voru drifkraftur breytinganna. Víðsýnir og framsýnir menn, karlmenn. Afhverju er nöfnum þeirra ekki haldið á lofti?

Í ljósi þessarar stuttu söguskoðunar er það því niðurstaðan að það er beinlínis rangt að halda upp á það sem tímamótaviðburð sem snertir konur eingöngu að þær hafi hafi fengið kosningarétt árið 1915. Með því er látið í það skína með þögninni að allir karlar hafi fyrir löngu verið komnnir með þau mannréttindi. Þeir karlar sem voru venjulegir launamenn fengu kosningarétt til Alþingis á sama tíma og konur, árið 1915. Því ætti þetta að vera tímamótadagur alls almennings en ekki bara kvenna. Það er með þetta eins og margt fleira að hreintrúarstefnan lítur á karla eins og Eva leit á óhreinu börnin. Þau fengu ekki að vera með.

Þetta er orðinn nokkuð langur pistill enda hugsaði ég margt í morgun þegar ég náði 34 km. Mikið súrefni er gott fyrir hugsunina. Hvort það gerir hana skarpari er annað mál.

fimmtudagur, júní 18, 2009

Maður er alltaf að heyra eitthvað nýtt. Í morgun hlustaði ég á samræður í útvarpinu um stóra lífeyrissjóðslánið hjá Sigurjóni digra. Þar var fullyrt og vísað til tölvupósta sem viðkomandi hafði undir höndum og sönnuðu mál hans. Þar kom fram að starfmaður Landsbankans hefði átt að vara við því að Landsbankinn veitti Sigurjóni lánið upp á 70 mills. Það var ekkert fyrr gert við þennan starfsmann en að reka hann. Lögfræðingurinn sem blessaði yfir gjörninginn með sérstakri álitsgerð var aftur á móti hækkaður í tign. Þarna var líka fullyrt að bankaleynd væri ekki aflétt vegna þess að það þætti ekkert afskaplega mikið tilhlökkunarefni að aflétta bankaleynd. Það væri sem sagt ekki verið að auðvelda rannsókn bankahrunsins með því að aflétta bankaleynd á ýmsum sviðum. Það er alveg á hreinu að það skapast aldrei sæmileg sátt í samfélaginu til framtíðar ef allur almenningur hefur það á tilfinningunni að hann sé böstaður af þeim sem sitji í innsta hring við katlana.

Fjölmiðlarnir eru alltaf samir við sig. Þegar mál eins og Sigurjónsmálið kemur upp þá er það varla komið lengd sína í umræðunni þar til varðhundarnir eru komir á fullt í fjölmiðlum að verja gjörninginn og afvegaleiða umræðuna. Ekki fá venjulegir menn sem sakaðir eru um einhvert misferli tækifæri til að verja sig svona í fjölmiðlum. Síðan er spurnig hvort fleiri gæðingar hafi fengið álíka vildarkjör í lífeyrismálum. Sem dæmi má nefna að það hefur myndast skattaskuld við svona slaufugerð. Af 70 milljónum er hún ca 22 m.kr. Molar eru líka brauð í harðærinu.

Málefni mannsins sem braut niður húsið á Álftanesinu hefur verið nokkuð til umræðu. Nú þekki ég ekkert til málsins en hitt veit ég að það ferillinn frá því að vanskil byrja þar til hús er boðið upp tekur töluvert marga mánuði. Ætli það séu ekki allavega níu mánuðir. Fasteign sem á að bjóða upp í október er því komin í uppnám vegna vanskila á lánum cirka um áramótin þar á undan. Það er bara svoleiðis.

The Beatles - Nowhere Man

Húsandarhjón á ferðinni

Það var magnað að fylgjast með leiknum í höllinni í gær. Þrátt fyrir að töluverð forföll væru í íslenska landsliðinu þá kom þar maður í manns stað. Íslenska landsliðið tók strax forystu í leiknum og leit aldrei til baka. Sókn og vörn virkaði eins og vel smurð vél og Björgvin markmaður átti stórleik. Markvarlan ræður oft úrslitum í leikjum eins og þessum og gaman að sjá íslenskan markvörð sem heldur virkilegum status leik eftir leik.

Í haust þegar bankarnir hrundu og krónan féll gerðist tvennt af hálfu Seðlabankans sem vakti spurningar. Hið fyrsta var að gefin var út tilkynning um að genginu yrði haldið föstu. Það vissu allir sem vildu vita að það væri ekki hægt að halda genginu föstu. Þegar gjaldeyrisvarasjóðurinn væri uppurinn myndi krónan fara á frjálst fall og lenda enn dýpra en ef henni hefði eki verið haldið uppi með handafli um tíma. Nú er maður farinn að heyra frásagnir af því að tilgangurinn með því að gengið var sett fast þarna um tíma hafi verið sá að þá var þeim sem áttu peninga gefinn kostur á því að forða þeim úr landi á gengi sem var haldið uppi með afli af Seðlabankanum á kostnað gjaldeyrisvarasjóðsins og þar með allra landsmanna. Gengi evrunnar hjá Seðlabankanum á þessum tíma var tæpar 140 kr en í Evrópu var gengi krónunnar nær 300 krónum. Þarna voru því gríðarlegir hagsmunir á ferðinni.
Hið seinna sem vakti furðu var umræðan um lánið frá rússunum. Á því hefur ekki heyrst almennileg skýring.

Mig undrar ekki þótt einhverjum finnist það ekki vera góð tilfinning að hafa andardráttinn í Evu Joly í hnakkagrófinni. Hlaupadrengur Baugs, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar t.d. nýlega leiðara þar sem hann reynir að gera hana eins ótrúverðuga eins og frekast er unnt. Það má segja að manni finnst mikilvægi nærveru hennar hérlendis fara vaxandi eftir því sem fleiri smápeð koma fram í dagsljósið og reyna að níða af henni skóinn. Vitaskuld vilja viðkomandi hagsmunaaðilar að mál verði útkljáð innan litla íslenska klíkusamfélaginu þar sem hlutir eru höndlaðir og til lykta leiddir með þeim formerkjum að ef þú sparkar ekki í mig þá sparka ég ekki í þig.

Mér finnst það ekki vera mikill húmor að draga sovéska fánann að húni á þjóðhátíðardegi Íslands. Ætli það hafi ekki verið drepnar um 20 milljónir í Sovétríkjunum þegar var verið að þröngva samyrkjubúskapnum upp á þjóðina. Aðrar 20 milljónir eru taldar hafa látist í hungursneyðinni sem Stalín skipulagði. Síðan er talið að álíka fjöldi hafi látist í seinni heimsstyrjöldinni. Að mínu mati eru þeir sem enn líta til Sovétskipulagsins með glýju í augum annað hvort illa læsir eða skilja ekki það sem þeir lesa og heyra.

miðvikudagur, júní 17, 2009

The Beatles - Love me do

Spói að bardúsa

Skelfing leiðast mér beinar beinar útsendingar í sjónvarpinu frá svona egócentrískum uppákomum eins og Grímusamkoman er. Þarna er fólk að veita hvert öðru verðlaun fyrir eitt og annað sem það hefur verið að gera og það er svo sem allt í lagi. Það má gera það fyrir mér. En að vera að troða þessu upp á mann á besta útsendingartíma sjónvarpsins það er dálítið annað mál. Ég sé bara ekkert við þetta sem á erindi við mann. Þegar ofan í kaupið þeir sem fá verðlaun fara að þakka öllu og öllum sem hægt er að hugsa sér fyrir hvað það sé allt stórkostlegt og frábært þá læðist að manni sú hugsun að það sé gert í þeim tilgangi einum að geta staðið sem lengst uppi á sviðinu og baðað sig í sviðsljósinu. Þá er mál að áhorfi linni. Það var mikil frelsun að geta horft á Biggest Loser á Skjá einum í staðinn. Það er í sjálfu sér býsna merkilegur þáttur. Þarna er spikfeitt fólk, sem margt hvert er komið í djúpa depression út af holdafarinu, sett í stifar þjálfunarbúðir. Sá sem léttist mest fær verðlaun, 250.000 USD. Það er náttúrulega stórkostlegt að sjá fólk sem er komið hátt í 200 kg að verða að almennilega löguðum manneskjum aftur. Þegar fólkið uppgötvar hvað hægt er að gera með aga og vinnu þá fer það að opna sig. Sumir ljóstra því upp að því hafi fundist að það hafi alltaf verið grönn manneskja inni í þessum feita líkama sem það var alltaf óánægt með. Maður sér svo ótrúlegan mun á fólkinu eftir að það hefur náð tökum á lífi sínu. Spengilegt, stælt og stórmyndarlegt fólk birtist eftir að það vann slaginn við sjálft sig. Það er hins vegar oft á tíðum erfiðasti andstæðingurinn að fást við, maður sjálfur.

Nú eru bara fimm dagar eftir hjá evrópuhlaupurunum. Þeir eru komnir norður í Finnland og síðan er eftir nokkura daga hlaup yfir í Noregi til Nord Kalotten, nyrsta odda Noregs. Það eru 45 hlauparar eftir af þeim 64 sem lögðu af stað frá Bari á suður Ítalíu. Einn gafst upp í gær. Það er biturt. Veðrið hefur verið leiðinlegt á þá í gegnum alla norður Svíþjóð. Kalt, vindur og rigning af og til. Dag eftir dag eru hlaupnir +/- 70 km í þessu veðri. Eiolf er slæmur í öðru hnénu og er farinn að hægja á sér. Vonandi heldur hann út alla leiðina. Hlaupararnir verða að standast ákveðin tímamörk á hverjum degi svo þeir mega ekki hægja of mikið á sér. Trond er sprækur og er í 7. sæti af öllum. Hann er ótrúlegur.

Helvíti er það gott að taka 70 m.kr að láni hjá sjálfum sér og fá peningana útborgaða. Spurning er hver rukkar hvern þegar upp er staðið.

Ég man eftir því þegar Anders Fogh Rasmussen var kosinn forsætisráðherra Danmerkur árið 2001. Strax á fyrstu dögum sínum í embætti skar hann grimmt niður í utanríkisþjónustinni. Lagði niður allnokkur sendiráð. Þau gerðu minna gagn en þau kostuðu. Hvar er umræðan um þessa hluti hérlendis? Hvað hafa sendráðin verið að gera síðasta hálfa árið? Vafalaust eitt og annað. Það vakna hins vegar spurningar um hvort þau hafi verið að sinna mikilvægasta málinu sem brennur á Íslandi nú. Að kynna stöðu lands og þjóðar og vinna málstað okkar skilnings. Íslendingar eru skki síður fórnarlömb en margir útlendingar. Það loðir alltaf við Íslendinga smá súrheit út í Dani frá því við vorum dönsk nýlenda. Menn hafa sagt að Danir hafi kúgað okkur og arðrænt. Ekki skal ég um það segja en hafi það verið gert þá má ekki gleyma því að hin danska yfirstétt þess tíma kúgaði og arðrændi danska alþýðu ekki síður en íslenska alþýðu. Því er það helvíti hart ef allir íslendignar eru brennimerktir með þjófsmerki á ennið ef það er einungis tiltölulega fámennur ræningjahópur sem stal öllu steini léttara og því sem hönd á festi og þá ekki síður frá íslendingum en útlendingum.

Það hefur verið fjallað um það með jákvæðum formerkjum að íslendingar komi til með að ferðast meira innanlands í ár en fyrri ár. Það er vafalaust rétt og ekki ætla ég að gera lítið úr ágæti þess að ferðast um landið. En glasið er annað hvort hálftómt eða hálf fullt. Það má alveg eins segja að allur almenningur sé hálfgerður fangi í eigin landi því hann hafi ekki efni á að ferðast til útlanda. Ef það sé gert þá er það alveg sérstakur lúxus. Ef maður færi erlendis í frí þá er fyrst og fremst hægt að ferðast til Svíþjóðar, Eystrasaltslandanna og Austur Evrópu. Þar er verðlag viðráðanlegt. Evrulöndin er eiginlega er varla hægt annað en að sniðganga því þar er allt svo óskaplega dýrt.

Tók góða leggi í gær og í kvöld. Allt í fínu.

mánudagur, júní 15, 2009

The Beatles-Please Mr. Postman

Helga Margrét með þjálfara sínum, Stefáni Jóhannssyni

Norðurlandamóti unglinga í fjölþraut lauk í Kópavogi í dag. Stelpurnar íslensku stóðu sig vel með Helgu Margréti í broddi fylkingar. Hún bætt íslandsmet sitt frá því í fyrra um nær 200 stig. Yfirburðir hennar voru svo miklir að hún hefði getað sleppt síðustu greininni en unnið engu að síður. Árangur hennar er líklega 5 besti árangur þessa aldursflokks í heiminum í ár. Það eru ekki margir íþróttamenn hérlendir sem hafa náð betri árangri á seinni tímum. Þrátt fyrir að hún verði ekki átján ára fyrr en í haust vantaði hana einungis ca 150 stig til að ná lágmarkinu fyrir HM fullorðna. Hún á eitt ár enn eftir í þessum aldursflokk. Sveinbjörg stóð sig með sóma og endaði í þriðja sæti í flokki undir 18 ára. Í fyrra komst hún ekki inn á mótið en springur út í ár og bætir sig í flestum greinum. Hún náði lágmarkinu fyrir HM unglinga glæsilega. Maríu gekk ekki alveg eins vel. Hana vantaði einungis 18 stig til að komast á HM unglinga. Hún var nokkuð langt frá sínu besta í fimm greinum af sjö þannig að hún á töluvert mikið inni. Það var allt lagt undir í síðustu greininni, 800 metrum. Þrátt fyrir verulega bætingu þá vantaði hana rúma sekúndu til að smeygja sér yfir 4500 stig. Þetta kemur að ári.
Bjarki Gíslason frá Akureyri stóð sig einnig vel og varð í 4 sæti af 10 í flokki 18-19 ára stráka. Þetta var fínt mót og gaman að sjá okkar fólk standa sig með svo miklum ágætum. Árangurinn var dekkaður ágætlega í kvöldfréttum sjónvarpsstöðvanna og skyldi enginn þakka þeim það. Þeim ber skylda til að hafa yfirsýn yfir það sem er að gerast í íþróttum hérlendis enda þótt það sé ekki hnöttótt.

sunnudagur, júní 14, 2009

The Beatles - I Feel Fine

Helga Margrét straujar 200 metrana

Norðurlandamót ungmenna í fjölþraut hófst í Kópavoginum í dag og lýkur á morgun. María er þarna að taka þátt í sínu fyrsta alvöru stórmóti ef má kalla það svo. Hún er í flokki undir 18 ára svo hún á eitt ár eftir í honum. Henni hefur gengið svona þokkalega en ekkert umfram það. Stalla hennar í flokknum, Sveinbjörg Zophanísdóttir frá Hornafirði, hefur aftur á móti sett í kraftgír og er í öðru sæti, örfáum stigum á eftir sænskri stelpu. Það verður spennandi að sjá lokasprettinn hjá þeim á morgun. Það sýnir að eplið fellur sjaldan langt frá eikinni að mömmur þeirra stelpnanna, Sigrún og Guðrún Ingólfsdóttir voru saman í sigursælu kvennaliði Ármanns fyrir allnokkrum árum. Pabbi og pabbi Guðrúnar voru síðan saman í skóla á Hvanneyri fyrir margt löngu. Helga Margrét, sem verður 18 ára í haust, keppir í flokknum undir 20 ára. (Við Steini, pabbi hennar, erum aftur á móti gamlir skólabræður sem og föðurbróðir Sveinbjargar!!!Svona liggur þetta saman þvers og kruss.). Helga Margrét hefur heldur betur staðið undir væntingum eftir að vera nýkonin úr meiðslum mest allan veturinn eftir áramót. Hún var í öðru sæti í fyrstu tveimur greinunum en straujaði svo þær næstu tvær og er með afgerandi forystu eftir fyrri daginn. Þar á ofan er hún verulega fyrir ofan íslandsmet sitt sem hún setti í fyrra eftir fjórar greinar. Hún setti auk þess unglingamet og stúlknamet í kúluvarpi. Hún hefur þann sjaldgæfa eiginleika að vera bæði eldsnögg, nautsterk og þolin þannig að hún er jafnvíg á allar greinar sjöþrautar. Það verður gaman að sjá hvernig hún hefur unnið úr þessum hæfileikum sínum þegar hún nær fullorðinsaldri. Í svona móti þar sem ekkert má bregða út af geta skiptst á skin og skúrir. Einar Daði, annar tveggja af efnilegustu tugþrautarmönnum okkar, gerði öll stökk ógild í langstökki þannig að hann er ekki lengur með. Þetta var biturt því hann stefndi á að ná lágmarkinu á EM unglinga. Hann stefndi einnig á að ná toppsætum sem hann hefur tekið síðustu tvö árin. Svona getur þetta gengið til. Það er ekki öll nótt úti með EM sætið en það kostar meiri fyrirhöfn fyrst svona tókst til.

Maður á ekki að vera alltaf að pirra sig yfir námuhestasýn sumra íslenskra fjölmiðla á íþróttir en sama er. Þarna eru íslensk ungmenni í dag að etja kappi við norræna jafnaldra sína í Kópavogi. Sum þeirra standa sig frábærlega vel og eru að berjast um toppsætin við jafnaldra sína á Norðurlöndum. Stöð tvö minntist ekki á þetta heldur sagði frekar frá því að Ronaldo hefði verið að deita París Hilton. Síðan var umfjöllun um allan skrattann annan sem var að gerast út í heimi. Vafalaust er það einfaldara að sitja uppi á stöð og kópíera klippur frá erlendum stöðvum en fara niður á Kópavogsvöll og mynda. Þannig er sem sagt forgangsröðin á þeim bænum. Ríkissjónvarpið sýndi frá mótinu og vakti sérstaka athygli á afrekum Helgu Margrétar og allt gott um það. Ég held hins vegar að fyrsta mótið af þremur í strandblaki hafi fengið eins mikinn tíma í þættinum og norðurlandamótið í fjölþraut í Kópavogi. Strandblak af öllum íþróttum!!! Mér skildist að íslendingar hefðu unnið fyrstu hrinuna í strandblaki í íslandssögunni á Smáþjóðaleikunum um daginn og voru fyrir vikið á svipinn eins og þeir hefðu orðið heimsmeistarar. Mogginn sendi ljósmyndara á mótið þannig að maður á von á góðri dekkun af þeirra hálfu eftir helgina. Þó nú væri því hver einstakur fótboltaleikur í efstu deild fær hátt í heilsíðu í hvert sinn sem umferð fer fram.

Svíarnir sendu sérstakan ljósmyndara með á mótið þannig að þá veit maður hvernig er fylgst með efnilegasta fjölþrautarfólki þeirra. Umfjöllun fjölmiðla skiptir máli og þeir hafa skyldur í þessum efnum, ekki bara gagnvart fótbolta og golfi.

laugardagur, júní 13, 2009

The Beatles - Ticket to Ride

Húsandarkolla í góðum gír.

Ætli siðblinda sé algengara viðhorf í samfélaginu en maður hefur gert sér grein fyrir. Listamenn eru settir í nefnd til að úthluta fjármunum. Einn í úthlutunarnefndinni er einnig umsóknaraðili um fjármuni til nefndarinnar. Þegar farið er að minnast á þetta við hann þá finnst viðkomandi einstakling nákvæmlega ekkert að þessu. Það er ekki fyrr en eftir langa mæðu að hann sér ljósið og segir af sér.
Einn af formönnum skilanefndar bankanna er einnig í áhrifastöðu fyrir eitt af stórfyrirtækjum landsins og tekur fyrir það verulega fjármuni. Hvernig á það að geta gengið upp að gæta hagsmuni ákveðins fyrirtækis með annarri hendinni og að taka ákvarðanir um örlög annarra fyrirtækja með hinni hendinni. Þarna eru hagsmunir avo samofnir þvers og kruss að þetta fyrirkomulag myndi alls ekki vera liðið í alvöru samfélögum.
Sonur ríkissaksóknara er framkvæmdastjóri eins af þeim stórfyrirtækjum sem eru hvað nátengdust bankahruninu. Hvernig á þetta að geta gengið upp? Mér finnst fínt hjá Evu Joly að vaða í málið og tala íslensku tæpitungulaust. Ríkissaksóknari getur ekki verið í þerri stöðu að hann þurfi að velja þau mál sem hann er hæfur til að sinna og hver ekki. Ef ríkisstjórnin hefur ekki vald til að taka á málinu þá breyta þau lögum hið snarasta og klára málið. Til þess eru þau kosin.

Ég heyrði í útvarpinu í gær að námsmenn eru óánægðir með að námslán muni ekki hækka með hækkandi verðlagi. Allt gott um það, námsmenn hafa oft ástæðu til að mótmæla. Forsvarsmenn þeirra boðuðu til motmæla á Austurvelli í gær. Það mættu eitthvað á milli 10 og 20 námsmenn til að mótmæla. Það sló mig að í kvöldfréttum útvarpsins var þess vandlega gætt að minnast ekki á hve mæting var vandræðalega lítil. Svona mótmæli eru náttúrulega algert flopp. Forsvarsmenn námsmenna eru algerlega út á túni í þessu máli. Ef námsmenn mæta ekki vegna þess að þeir eru sammála stefnu yfirvalda þá er námsmannaforystan ekki í tengslum við sína umbjóðendur. Ef námsmenn mæta ekki á svona mótmæli vegna þess að þeir nenna því ekki þá er forystan á hálum ís. ef í þriðja lagi námsmenn mæta ekki á svona fund vegna þess að þeir eru að vinna þá er forystan í slæmum málum að boða fund á tíma þegar nær því enginn getur mætt. Alla vegna er þarna eitthvað eins og það á ekki að vera. Það sem maður heyrði í kvöld í sjónvarpinu að forystumenn námsmanna gerðu ráð fyrir að þeir myndu hætta í námi og fara á atvinnuleysisbætur vegna þess að þær væru hærri er út í hött. Námsmenn hafa fæstir rétt á atvinnyleysisbótum. Þeir færu þá á sósíalinn.

Ég heyrði nýlega að Henrik prins af Danmörku hefur komið með athyglisvert innlegg í baráttu fyrir jafnstöðu karla og kvenna. Hann kvartar yfir því hvernig er farið með karla í rojalisku samhengi. Hann er ekki konungborinn heldur giftist hann inn í dönsku konungsfjölskylduna. Hann fær bara nafngiftina prins og er skör lægra settur heldur en Margrét. Hann verður t.d. að ganga eilítið á eftir henni við opinberar athafnir. Hann er einnig lægra settur en synir hans. Afur á móti fá Maríurnar, sem eru giftar Friðrik og Jóakim, nafngiftina drottning ef maður annarar hvorrar verður kóngur. Þar er ekkert prinsessukjaftæði. Drottningin er jafnstæð kónginum og gegnur við hlið hans við opinberar athafnir þrátt fyrir að hún hafi ekki blátt blóð. Mér finnst að jafnréttisstofa, jafnréttisráð og jafnréttisnefndir allra landa ættu að styðja við bakið á Henrik prins í þessu sambandi. Þetta er náttúrulega ekki líðandi. Það ég best veit er einnig illt í Filipusi prins af Bretlandi út af því sama.

Tók Eiðistorgshringinn í kvöld. Fínt hlaup í fínu veðri.

fimmtudagur, júní 11, 2009

Here comes the sun George Harrisson

Kella var ekkert sérstaklega hrifin af mér.

Ég fór norður í Mývatnssveit á þriðjudaginn. Ég var þar á ráðstefnu á miðvikudag og í dag. Einnig notaði ég tímann til að skoða fugla og mynda þá. Ég var svo heppinn að á miðvikudaginn var sólskin og blíða svo veðrið kom ekki í veg fyrir myndatökur. Ég vaknaði snemma á miðvikudagsmorgun og var kominn inn að Höfða um kl. 5.00 um morguninn. Ég vissi í sjálfu sér ekkert um hvert ég átti að fara en sá kvöldið áður að þar var mikið af fuglum. Ég labbaði niður að vatninu og tók myndir af öndum sem voru þar við bakkann.Þá vissi ég ekki fyrr en flórgoðahjón syntu rétt við hliðina á mér. Ég hafði aldrei séð flórgoða áður en þarna voru þau að dunda sér við morgunsnyrtinguna í a.m.k. hálftíma. Ég held að þau hafi lagað hverja einustu fjöður á sér. Ef maður situr kyrr um stund þá hætta fuglarnir að taka eftir manni. Nokkru síðar flutti ég mig um set og fór aðeins innar. Eftir skamma stund komu húsandarhjón og hlömmuðu sér niður rétt fyrir framan mig. þar voru þau svona í fimm mínútur að pósa og svo var flogið burt. Það var gaman að fylgjast með öndunum. Það er mikið að gerast, sífelldar erjur og rifrildi. Ég náði svo smá morgunhlaupi áður en ráðstefnan byrjaði og hljóp þá upp að Jarðböðunum.
Í eftirmiðdaginn þegar fundahöldum var lokið fór ég inn í Dimmuborgir. Ég vissi að þar er fálkahreiður og taldi mig vita nokkurn veginn hvar það væri. Það stóð heima, eftir skamma stund sá ég höfðingjann sitja á háum kletti. Ég kom mér fyrir með runna í bakið!! og sat þarna góða stund. Kellingin sat á hæsta kletti fyrir ofan ungana en mér syndist þeir vera þrír í hreiðrinu. Eftir dálitla stund flaug hún burt og ég heyrði vælið í henni dálítið í burtu. Skömmu síðar heyrði ég mikinn hvin fyrir aftan mig. Þar var kella komin og ætlaði greinilega að láta mig vita að ég væri ekki velkominn. Hún steypti sér nokkrum sinnum niður að mér þar sem ég lét lítið fara fyrir mér undir runnanum en settist svo á klett. Ég fór bráðlega burt því úrillur fálki er ekki beint mínar kjötbollur. Ég fór síðan út að Laxá að taka myndir af straumöndum og spóatetur var þar einnig að vakka. Þegar ég kom útundir Skútustaði datt mér fyrst í hug hvort það væri moldrok við bæinn. Þegar ég kom nær sá ég að þetta var mývargur. Ég hef aldrei séð annað eins. Það var grátt lag af vargi yfir jörðinni. Flugan ætlaði að drepa mig út við Laxána þegar ég var að sinna straumöndunum og fyllti líka bílinn. Þetta var ljóta helvítið. Það hefði ekki verið gaman að hlaupa maraþon við þessar aðstæður. Undir kvöld fór ég svo niður að vatnsbakkanum fyrir neðan Reykjahlíðina og sat þar góða stund í blíðunni og myndaði. Þar voru nokkur flórgoðapör, fullt af öndum og síðan hettumáfsskollinn eins og þjófur í paradís.
Það passaði svo við daginn að kvöldmaturin var borðaður í Fuglasafni Sigurgeirs út í Neslöndum. Safnið er sett upp til minningar um Sigurgeir Stefánsson sem fórst á Mývatni ásamt tveimur vinnufélögum sínum þann 26.10. 1999. Sigurgeir var mikill fuglaáhugamaður og átti mikið safn uppstoppaðra fugla. Safnið var opnað síðsumars í fyrra. Það hefur alfarið verið byggt upp fyrir söfnunarfé ásamt sjálfboðaliðsstarfi. Það er forsenda fyrir því að þetta gangi upp því rekstur safna er ekki sérstaklega arðvænleg búgrein. Það var afar gaman að skoða safnið og er óhætt að mæla með því að fólk sem á leið um Mývatnssveitina renni niður að Neslöndum til að skoða Fuglasafn Sigurgeirs.

Ég sá að fótboltamenn kvörtuðu undan hita í Makedoníu og kenndu hitanum meðal annars um verðskuldað tap. Leikurinn stendur þó ekki yfir nema í einn og hálfan tíma. Ultrahlauparar hafa fyrir löngu fundið leiðir til að draga úr áhrifum hitans við mikla áreynslu. Meira um það síðar.

mánudagur, júní 08, 2009

The Beatles Blackbird

Stari að baða sig

Fór í morgun niður í Laugar og hitti Vini Gulli. Eftir hálfsmánaðarhvíld var skrokkurinn orðinn fínn. Mér finnst öruggara að hvíla hann þokkalega eftir svona tarnir til að ná öllu út sem kan að leynast í fótunum. Merkilegt nokk þá virðast tærnar vera lengst að ná sér. Við fórum inn í Elliðaárdal og svo upp að sundlaug og síðan til baka. Ca 16 km lágu í fínu lagi.

Fór í eftirmiðdaginn í fuglamyndatúr. Hjólaði inn í Elliðaárdal og síðan niður á Geirsnef. Þótt þetta væri ekki löng ferð þá var hún fín. Í Elliðaárdalnum var kolla með unga, steggir að spökulera (mens talk), stari að baða sig og hrossagaukur í felum. Svo fór ég niður í Geirsnef að gamni mínu og bjóst svo sem ekki við miklu. Ég hafði aldrei farið út í nefið á þessum tíma en það er friðland hundaeigenda. Ég sá fyrst lóu að baða sig. Hún virtist feimin og horfði lengi í kringum sig áður en hún óð út í Elliðaárnar, jós yfir sig og skrúbbaði hátt og lágt. Gæsir með stóran ungahóp voru á siglingu og síðan voru fjórar toppendur á ánni. Þær voru dauðaspakar og ég hef aldrei komist svona nálægt þeim. Vanalega fljúga þær upp í ofboði ef maður svo mikið sem rennir á þær auga. Þarna voru þær að dingla sér í rólegheitum og maður gat skriðið fram á bakkann og myndað í þokkalegu næði. Þarf að heimsækja þær aftur.

laugardagur, júní 06, 2009

The Beatles A Hard Days Night

Sigurjón Sigurbjörnsson, nýbakaður íslandsmethafi í 100 km hlaupi

Félag 100 km hlaupara hélt 100 km hlaup í dag. Hlaupin er 10 km leið sem hefur meginstöð í Elliðaárdalnum en liggur annars vegar út Fossvoginn en hins vegar inn í bryggjuhverfið við Gullinbrú. Þessi leið er hlaupin 10 sinnum. Hlaupið varð svo fámennt að það var á nippunni að það yrði haldið. Þegar upp var staðið voru það einungis tveir sem hlupu 100 km. Nokkrir heltust úr lestinni ýmissa hluta vegna s.s. v. meiðsla, veikinda og annarra orsaka. Þrír hlauparar notuðu möguleikann og hlupu maraþon. Meðal annars Bryndís Svavarsdóttir sem lauk þarna sínu 108 maraþoni. Þetta varð hinn prýðilegasti dagur, sól, hiti og logn. Margir komu við yfir daginn og studdu við bakið á hlaupurunum svo það varð hin fínasta útihátíðarstemming í Elliðaárdalnum í vöffluilminum frá Jóa sem bakaði allt hvað af tók yfir daginn.
Sigurjón hljóp afar skipulagt og vel upp sett hlaup og lauk því á nýju íslandsmeti eða 8.23.45 sem er rúmum 19 mínútum betri tími en fyrra met Ágústar Kvaran sem var sett fyrir 11 árum. Sigurjón hefur æft mjög vel í vetur og uppskar þarna árangur erfisins. Karl Martinsson lauk hlaupinu á 13 klst og 11 mínútum en hann er tæplega 18 ára gamall.
Það gekk vel að manna allar drykkjarstöðvar þá rúma þrettán tíma sem hlaupið tók og eru öllu því ágæta fólki sem fórnaði tíma sínum í þetta verkefni færðar bestu þakkir fyrir.

Það eru alltaf ýmis atriði sem þarf að fara yfir eftir hlaup sem þetta. Eitt er t.d. hvort þörf sé fyrir að halda slíkt hlaup árlega eða hvort það sé nægilegt að halda það á tveggja ára fresti. Einnig eru alltaf ýmis atriði sem reynslan kennir manni og ástæða er til að læra af.
Takk fyrir daginn.

föstudagur, júní 05, 2009

The Beatles If I Fell

Kría að kvarta

Fyrstu hint um niðurstöðu í Icesafe uppgjörinu er að líta dagsins ljós. Sex hundruð milljarðar tekin að láni í erlenddri mynt. Vextir leggjast við höfuðstólinn í sjö ár. Sama eigna mun vonandi grynnka eitthvað á skuldunum fram að þeim tíma. Að sjö árum liðnum verður farið að greiða niður höfuðstólinn. Það verður að segja að það eru mög spurningarmerki í þessu dæmi. ef niðurstaðan verður okkur óhagstæð verður það hrikalegt dæmi. Það er álíka eins og stríðsskaðabætur Finnlands eftir seinni heimsstyrjöldina. Spurning er hvort þeir sem komu þjóðinni í þessi ósköp muni bara ganga léttir í spori frá þessu öllu.

Ég sá í dag yfirlit um öll 48 tíma hlaup norðurlandabúa sem hafa náð yfir 300 km. Fryrsti norðurlandabúinn braut 300 km markið árið 1985. Frá þeim tíma hafa norðurlandabúar 19 sinnum hlaupið lengra en 300 km í 48 tíma hlaupi. Ég er í fimmta sæti norðurlandabúa frá upphafi. Það ég best veit er ég nokkuð langelstur á því ári sem hlaupið er. Þeir sem eru á undan mér á listanum eru allir miklir hlauparar. Svíinn Rune Larsson er í fyrsta sæti. Hann er gríðarlegur hlaupari sem meðal annars vann Spartathlon þrisvar. Hann hefur hlaupið yfir þver Bandaríkin. Lars Skytte frá Danmörku er í öðru sæti. Hann tók brons í Spartathlon í fyrra. Finninn Seppo Leionen er þekktasti ultrahlaupari Finnlands. Hann hefur tekið verðlaun í Spartathlon og er´sá hlaupari sem hefur lokið hlaupinu oftast eða 17 sinnum. Félagi minn Eiolf Eivindssen frá Noregi er í fjórða sæti. Hann hefur lokið Spartathlon hlaupinu alls sex sinnum og er þessar vikurnar að hlaupa frá Bari á Ítalíu í áttina að norður odda Noregs.

Listinn er hér. Þetta er ekki dónalegur félagsskapur.

Menn
373,798 km Rune Larsson, SVE Columbia, SC 31.12.86 b
366,271 km Lars Skytte Christoffersen, DAN Bornholm 25.05.08 v
344,586 km Seppo Leinonen, FIN Surgères 09.05.93 b
343,650 km Eiolf Eivindsen, NOR Bornholm 25.05.08 v
333,844 km Gunnlaugur Juliusson, ISL Bornholm 24.05.09 v
332,653 km Jesper Olsen, DAN Surgères 14.05.06 b
332,170 km Seppo Leinonen, FIN Surgères 09.05.91 b
332,050 km Per K. Pedersen, DAN Bornholm 25.05.08 v
322,578 km Stefan Lindvall, SVE Bornholm 24.05.09 v
321,193 km Seppo Leinonen, FIN Surgères 08.05.94 b
314,767 km Per Gunnar Alfheim, NOR Bornholm 25.05.08 v
314,368 km Juha Jumisko, FIN Bornholm 24.05.09 v
310,000 km Christian Ritella, SVE Brno 22.03.09 i
308,850 km Michael Mørk, DAN Bornholm 25.05.08 v
306,000 km Jesper Olsen, DAN Kairo 09.01.09 b
305,209 km Reima Hartikainen, SVE Surgères 24.05.09 b
302,492 km Matthias Bramstång, SVE Bornholm 25.05.08 v
302,430 km Andreas Falk, SVE Bornholm 25.05.08 v
301,796 km Janne Kankaansyrjä, FIN Surgères 30.05.04 b
300,600 km Bertil Järlåker, SVE Storbritannia 18.10.85 b

HK/Víkingur vann góðan sigur á Sindra í Kópavoginum í kvöld 4-0 og Víkingur sótti Leikni heim í breiðholtið og vann með yfirburðum, 1-5.

miðvikudagur, júní 03, 2009

The Beatles Michelle

Den store badedag

Ég fór upp á Skaga í gær með Berserkjunum. Þeir spiluðu við Skagann í bikarnum. Skaginn fór með öruggan sigur en sama var, þetta var ágæt kvöldstund og góð stemming í hópnum. Berserkirnir urðu til upp úr vangaveltum hvernig mætti halda strákunum hjé félaginu sem ekki náðu inn í meistaraflokkinn hjá Víking ýmissa hluta vegna. Þessi tilraun sem gerð var undir nafninu Berserkir hefur gengið fullkomlega upp. Rúmlega 20strákar æfa fótbolta hjá félaginu og spila í þriðju deildinni. Í fyrra komust þeir í úrslit um að komast upp í 2. deild. Þeim hefur gengið vel í vor en Skaginn var of stór biti að sinni.
Þegar ég kom út úr rútunni við íþróttamiðstöðina á Skaganum var maður að koma út úr dyrunum. Hann kom aðeins kunnuglega fyrir sjónir en ég kom honum þó ekki fyrir mig. Hann var gleggri og heilsaði mér. Þarna var kominn sessunautur minn úr landsprófi forðum daga í Stykkishólmi. Við höfum sést einu sinni á því 41 ári sem er liðið síðan við skildum forðum daga í Hólminum. Gaman að svona tilviljunum.

Það verður heldur fámennt í 100 km hlaupinu sem haldið verður á laugardaginn. Einungis tveir hlauparar eru eftir. Skráðir þátttakendur hafa helst úr leik einn af öðrum af ýmsum ástæðum. Við hefðum fellt hlaupið niður undir flestum öðrum kringumstæðum en þar sem við höfðum engan fyrirvara um lágmarksfjölda þá verður það keyrt í gegn. Það spáir vel svo það verður fínt hlaupaveður á laugardaginn. Það eru ákveðin vonbrigði að þátttakan er ekki meiri því flestir þeirra sem eiga gott með að hlaupa maraþon geta hlaupið 100 km með góðu skipulagi og skynsemi. Það er fyrst og fremst spurning um tíma.

mánudagur, júní 01, 2009

The Beatles- Hey jude

Spói að stíga upp úr baðkarinu

Mér finnst að Dali Lama sé í hópi með Móður Teresu, Mandela, Ghandi og biskup Tutu. Þetta fólk hefur það sameiginlegt að vegna orða sinna og athafna er það hafið yfir það sem venjulegt telst. Það er snautlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa svarað erindum Dali Lama um möguleika á fundi með henni. Verst af öllu er að svara ekki erindum sem berast. Það er hreinlegra að segja nei. Sama máli gildir með forsetann. Það eru svona hlutir sem gleymast ekki.

Við Jói fórum í fína fuglaskoðunarferð í dag. Fyrst fórum við út á Álftanes og síðan yfir í Hafnarfjörð og að Hvaleyrarvatni. Við enduðum á að skoða Ástjörnina úr fjarlægð en þar hefur flórgoðinn aðsetur. Förum að henni síðar. Í dag var greinilega böðunardagurinn mikli. Allstaðar voru fuglar að baða sig. Þá eru þeir mjög uppteknir og þægilegt að komast að þeim. Við Hvaleyrarvatn sá ég í frysta smáönd sem ég veit ekki hvað heitir. Hún er miklu minni en aðrar endur sem ég hef séð. Þarf að komast að því hvað hún heitir.