Fór í morgun niður í Laugar og hitti Vini Gulli. Eftir hálfsmánaðarhvíld var skrokkurinn orðinn fínn. Mér finnst öruggara að hvíla hann þokkalega eftir svona tarnir til að ná öllu út sem kan að leynast í fótunum. Merkilegt nokk þá virðast tærnar vera lengst að ná sér. Við fórum inn í Elliðaárdal og svo upp að sundlaug og síðan til baka. Ca 16 km lágu í fínu lagi.
Fór í eftirmiðdaginn í fuglamyndatúr. Hjólaði inn í Elliðaárdal og síðan niður á Geirsnef. Þótt þetta væri ekki löng ferð þá var hún fín. Í Elliðaárdalnum var kolla með unga, steggir að spökulera (mens talk), stari að baða sig og hrossagaukur í felum. Svo fór ég niður í Geirsnef að gamni mínu og bjóst svo sem ekki við miklu. Ég hafði aldrei farið út í nefið á þessum tíma en það er friðland hundaeigenda. Ég sá fyrst lóu að baða sig. Hún virtist feimin og horfði lengi í kringum sig áður en hún óð út í Elliðaárnar, jós yfir sig og skrúbbaði hátt og lágt. Gæsir með stóran ungahóp voru á siglingu og síðan voru fjórar toppendur á ánni. Þær voru dauðaspakar og ég hef aldrei komist svona nálægt þeim. Vanalega fljúga þær upp í ofboði ef maður svo mikið sem rennir á þær auga. Þarna voru þær að dingla sér í rólegheitum og maður gat skriðið fram á bakkann og myndað í þokkalegu næði. Þarf að heimsækja þær aftur.
mánudagur, júní 08, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli