laugardagur, júní 20, 2009

Kvennahlaupið er í dag. Mér finnst það fínn viðburður. Þarna koma konur saman og skokka eða ganga saman. Aðalatriði er að fara út og hreyfa sig. Þarna er ekki nein formleg keppni heldur er hreyfingin og útiveran aðalatriðið. Það er líka þessi stemming sem gerir fjöldann. Fæstar þessara kvenna myndu mæta til leiks ef þarna væri tímamæling eða keppni. Á hin bóginn hefur kvennahlaupið örugglega kveikt í mörgum um að fara að hreyfa sig reglulega og þá veit maður aldrei hvað gerist. Kvennahlaup er bara fyrir konur. Það skiptir mig ekki máli. Það er þeirra mál. Ég hef enga löngun til að brjóta þann múr niður. En þá finnst mér hinsvegar að karlar megi hafa sína klúbba í friði án þess að verða fyrir aðkasti fyrir karlremdu og einangrunarhyggju. Það virðist nefnilega ekki vera sama Jón og Jóna. Mismunandi illa dulinn kvennafasismi á sér ýmsar birtingarmyndir. Það er nokkuð langt seilst í hreintrúarstefnunni ef litlir strákar verða fyrir aðkasti þeirra meðvituðu ef þeir skokka í kvennahlaupinu með mömmu sinni eins og Bibba er að rifja upp. Kannski hafði mamman engan til að gæta stráksins á meðan hún var að hlaupa. Kannski langar litla stráka að skokka með mömmu sinni. Svona kerlingartruntur sem hreyta skætingi í börn undir gunnfána kvennabaráttu eru náttúrulega alltaf til og oftast öllum til leiðinda.

Það er eitt sem er svolítið sérstakt í sambandi við kvennahlaupið. Það er bannað að halda kvennahlaup í Reykjavík. Hvers vegna skyldi það nú vera?

Í gær var 19. júní, kvenréttindadagurinn. Þá upphefst hinn árlegi söngur um að það séu svo og svo mörg ár síðan konur fengu kosningarétt. Undirtónninn er að fram að þeim tíma hafi konur verið utangarðsmenn í elsta lýðræðisríki heims vegna yfirgangs karlkynsins. Það er með þetta eins og svo margt annað að hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lýgi. Skoðum þetta aðeins nánar.

Hvert var hlutverk Alþingis gegnum aldirnar? Þingmenn hýrðust á Þingvöllum í nokkrar vikur á ári hverju við illan kost í húsaræflum og tjöldum. Helsta hlutverk Alþingis á seinni öldum var fyrst og fremst að funkera sem dómstóll. Þar var fátækt fólk dæmt til refsingar á ýmsan hátt og oft í framhaldi af dómnum murkað úr því lífið á ÞIngvöllum. Miklu fleiri karlmenn en konur voru drepnir á Þingvöllum gegnum árin þrátt fyrir að á okkar meðvituðu tímum er eingöngu talað um konurnar sem fórnarlömb tíðaranda þessa tíma. Þegar maður les sögu síðustu alda er aldrei (mjög sjaldan) talað um þingmennsku sem einhversskonar áhrifastöðu. Valdastéttin voru sýslumenn og klerkar. Einstaka embættismenn komust einnig í þann hóp. Vafalaust allir karlar. Efnaðar konur voru oft mjög áhrifamiklar eigi síður en karlmenn í krafti auðsins. Allur almenningur var hins vegar bláfátækur, þar með algerlega áhrifalaus og komst ekki að áhrifastöðum. Það átti jafnt við um konur og karla. Sveitarfélög hafa verið til frá landnámsöld. Hlutverk sveitarfélaga gegnum aldirnar var aðallega þrennskonar. Hið fyrsta var eftirlit með heyforða. Heyin voru grundvöllur þess að hægt væri að koma skepnunum fram á græn grös. Um það snerist tilveran. Ef það brást fór fjölskyldan á hreppinn ef allt um þraut. Því vildu menn reyna að forða í lengstu lög og um það ríkti ákveðin samtrygging. Síðan var framfærsla fátækra. Niðurboð niðursetninga. Það var á borði sveitarstjórnar. Í þriðja lagi voru ýmis minni háttar sameiginleg verk sem sveitarstjórn bar ábyrgð á eins og skipan fjallskila. Þeir sem höfðu kosningarétt til sveitarstjórna voru sjálfstæðir bændur. Ef bóndi flosnaði upp þá missti hann kosningaréttinn. Þau verkefni sem voru á borði sveitarfélagsins voru verkefni sem fyrst og fremst tengust starfandi bændum enda samfélagið bændasamfélag. Svona var þetta gegnum aldirnar.

Þetta fór að breytast þegar leið á 19 öldina. Bæði fór þéttbýlismyndun að aukast með aukinni útgerð. Í annan stað fékk þjóðin stjórnarskrá árið 1874. Það þýddi að aukin ábyrgð á ýmsum verkefnum fluttist inn í landið. Hlutverk stjórnmálamanna fór því vaxandi. Þýðing kosninga fór því einnig vaxandi. Heimastjórnin komst á laggirnar árið 1904. Þýðing kosninga jókst með þeim áfanga. Það var því í rökréttu samhengi við þessa þróun að almenningur fengi möguleika á að taka þátt í kosningum. Það átti við um bæði kynin. Kosningaréttur kvenna til Alþingis var því viðtekinn árið 1915, þremur árum áður en Ísland varð fullvalda.

Á Wibeku kemur þetta fram ef maður gogglar um kosningarétt kvenna:

Fyrsti kosningarétturinn 1882
Árið 1882 fengu konur í fyrsta skipti kosningarétt á Íslandi. Þessi kosningaréttur var þó afar takmarkaður og hljóðaði upp á að ekkjur og aðrar ógiftar konur sem sátu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar fengu kosningarétt í sýslunefnd, hreppsnefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum. Þessi réttur gilti fyrir konur sem voru eldri en 25 ára og honum fylgdi ekki kjörgengi. Það skal tekið fram að vinnukonur áttu sig ekki sjálfar og voru því mjög fáar konur sem gátu nýtt sér þennan kosningarétt


Konur í Reykjavík og Hafnarfirði - fyrsta framboðið
Árið 1907 fengu konur í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna í Reykjavík og Hafnarfirði. Kosningarétturinn var bundinn sömu skilyrðum og kosningaréttur karla.

Snemma árs 1908 ákváðu fjórar forvígiskonur í kvenréttindafélögum í Reykjavík að stofna kvennaframboð og bjóða sig fram til bæjarstjórnar Reykjavíkur. Framboðið var ákveðið með tveggja vikna fyrirvara og kosningaherferð þeirra var mjög skipulögð. Framboðið náði frábærum árangri, það fékk flest atkvæði allra framboðanna og allar konurnar á listanum komust í bæjarstjórn Reykjavíkur. Konurnar sem voru í framboði voru: Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, Guðrún Björnsdóttir, mjólkursölukona og Bríet Bjarnhéðinsdóttir, ritstýra kvennablaðsins og formaður Kvenréttindafélags Íslands.

Sveitarstjórnir
Árið 1909 voru samþykkt lög um kosningarétt og kjörgengi í málefnum hreppsfélaga og kaupstaða. Í þessum lögum kom m.a. fram að konur fengju kosningarétt ef þær hefðu lögheimili á staðnum, óflekkað mannorð, væru fjár síns ráðandi, stæðu ekki í skuld fyrir sveitarstyrk og greiddu gjald í bæjarsjóð eða hreppsjóð. Giftar konur höfðu einnig kosningarétt og kjörgengi hafði hver sá sem hafði kosningarétt og var ekki vistráðið hjú. Í þessum lögum kom einnig fram að konur mættu skorast undan kosningu en á þessum tíma var hægt að kjósa hvern sem var og karlar máttu ekki skorast undan kosningunni.

Alþingi
Árið 1915 fengu konur og vinnuhjú, 40 ára og eldri, kosningarétt til Alþingis. Aldursmarkið átti að lækka um eitt ár árlega næstu 15 árin. Lögunum var þó breytt eftir 5 ár því árið 1920 fengu konur og vinnuhjú full pólitísk réttindi við 25 ára aldur.

Hér kemur því fram að sú söguskoðun að konur hafi fyrst fengið kosningarétt árið 1915 er beinlínis röng. Þá fengu þær kosningarétt til Alþingis enda var þá verið að endurreisa Alþingi úr rústum á grundvelli stjórnarskrárinnar og nýrra vinda. Kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum fengu þær fyrr.

Hvað með karlana? Á 19. öld var hart deilt um kosningarétt karla í Evrópu þar sem sú hugmynd var ríkjandi að þeir einir ættu að hafa kosningarétt sem greiddu skatta. Þegar fyrst var kosið til þings á Íslandi árið 1844 var t.d. enginn kosningabær maður í Vestmanneyjum, þar sem enginn var svo vel efnum búinn að hann greiddi skatt.
Þótt þingræði ríkti á Englandi á 19 öld fór því fjarri að þar væri lýðræði þar sem einungis um 2% þjóðarinnar hafði kosningarétt. Í Frakklandi fengu karlar kosningarétt í orði kveðnu árið 1848 en hann skipti litlu máli í raun þar sem keisarastéttin réði öllu.

Það er ekki einfalt að goggla fram upplýsingar um hvenær karlar fengu almennt kosningarétt á Íslandi. Þó komst ég að því sem ég vissi ekki að vinnumenn fengu ekki kosningarétt til Alþingis fyrr en árið 1915 eins og konur. Hvað er þá málið? Það er að gerast hið sama hér og í öðrum löndum álfunnar að yfirstéttin er að missa völdin og lýðræðið er að þróast. Hluti af þessari þróun er að almenningur fær aðkomu að stjórnun landsins. Það er merkilegt að í greinum sem maður les og eru skrifaðar eftir talmenn kvennabarátturnnar þá er yfirleitt síterað í andófs- og úrtölumennina þegar farið er yfir umræður um útvíkkun kosningaréttarins. Vitaskuld hafa verið aðrir sem voru drifkraftur breytinganna. Víðsýnir og framsýnir menn, karlmenn. Afhverju er nöfnum þeirra ekki haldið á lofti?

Í ljósi þessarar stuttu söguskoðunar er það því niðurstaðan að það er beinlínis rangt að halda upp á það sem tímamótaviðburð sem snertir konur eingöngu að þær hafi hafi fengið kosningarétt árið 1915. Með því er látið í það skína með þögninni að allir karlar hafi fyrir löngu verið komnnir með þau mannréttindi. Þeir karlar sem voru venjulegir launamenn fengu kosningarétt til Alþingis á sama tíma og konur, árið 1915. Því ætti þetta að vera tímamótadagur alls almennings en ekki bara kvenna. Það er með þetta eins og margt fleira að hreintrúarstefnan lítur á karla eins og Eva leit á óhreinu börnin. Þau fengu ekki að vera með.

Þetta er orðinn nokkuð langur pistill enda hugsaði ég margt í morgun þegar ég náði 34 km. Mikið súrefni er gott fyrir hugsunina. Hvort það gerir hana skarpari er annað mál.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur. Er virkilega bannað að halda kvennahlaup í Reykjavík? Hver ákveður svoleiðis?