þriðjudagur, júní 30, 2009

Atvinnuleysi hefur vaxið gríðarlega á landinu samkvæmt opinberum skýrslum. Það er um 9% (+/- eitthvað smávegis) og hefur ekki verið svo hátt í áratugi eða líklega ekki síðan í síldarhruninu á árunum 1968-1969. Greiddar atvinnuleysisbætur nema um 2.0 milljörðum á mánuði. Atvinnuleysistryggingarsjóður er að verða tómur og því er nýlega búið að samþykkja á Alþingi ákvæði þess efnis að Tryggingargjald verði hækkað um 1.66 prósentustigsem er veruleg hækkun. Tryggingargjald leggst ofan á laun og launatengd gjöld og er greitt af launagreiðendum. Það gerir náttúrulega ekkert annað en að fara út í verðlagið. Hækkun Tryggingargjaldsins er áætluð að gefa ríkissjóði um 12 ma. kr í auknar tekjur á ári. Hér er því um verulegar fjárhæðir að ræða í aukinni skattlagningu. Nú eru að berast fréttir af því að atvinnuleysisbótakerfið sé dálítið götótt svo ekki sé meira sagt. Í fyrsta lagi hefur svört vinna farið vaxandi. Of mörg dæmi hafa komið upp um að þeir næli sér í atvinnuleysisbætur í leiðinni. Það er náttúrulega gjörsamlega óþolandi að skattsvikarar komist ekki einungis upp með að sleppa við að greiða skatta og skyldur til samfélagsins heldur eru þeir einnig að mergsjúga það með því að svíkja fé út úr Atvinnuleysistryggingarsjóði. Þetta gerir ekkert annað en að hækka álögurnar á þann hluta samfélagsins sem greiðir sína skatta og skyldur. Í öðru lagi er það komið upp að fólk sem var á háum launum og hefur minnkað við sig starfshlutfall getur fengið atvinnuleysisbætur enda þótt það hafi einnig um 500 þúsund krónur í laun á mánuði. Þetta er náttúrulega gjörsamlega klikkað ef satt er. Hvernig á að vera hægt að skattleggja almenning til andskotans en hafa kerfið sem ráðstafar peningunum svo hriplegt eins og dæmin sýna. Í þriðja lagi gengur eitthvað ekki upp þegar fólk vill heldur vera á atvinnuleysisbótum eldur en að vinna. Ég þekki persónulega dæmi þess efnis að einstaklingar ganga frekar um atvinnulausir og fá atvinnuleysisbætur en að leita sér að vinnu sem enginn vandi er að fá. Þetta sýnir að opinbera kerfið kann ekki að vinna undir þessum kringumstæðum. Það er alveg á hreinu að þegar lífskjörin versna svo mikið sem raun ber vitni og er þó ekki allt komið fram að þá fara menn að vera meðvitaðri um hvernig hinum gríðarlegu háu sköttum er ráðstafað. Alþingi verður náttúrulega að forgangsraða málum til að sníða vankantana af kerfinu og gera það eins straumlínulaga og skilvirkt eins og hægt er.

Mér finnst þessi Icesafe umræða vera mjög undarleg. Stjórnvöld kynna niðurstöðu samninganna sem heina einu mögulegu. Síðan kemur maður eins og Jón Daníelsson, sem starfar sem ráðgjafi hjá LSE, fram í fjölmilum og segir að það sé gjörsamlega glórulaust að samþykkja hann eins og hann er. Ég kannast við Jón, hann kenndi mér í HÍ fyrir nokkrum árum. Hann hefur unnið víða um heim og hefur mikla reynslu af alþjóðlegum störfum. Hvað á maður að halda?

Engin ummæli: