Það var eins gott að það var ekki búið að gera Álftanesmanninn að þjóðardýrlingi, hengja á hann fálkaorðu eða eitthvað annað álíka eins og margir virtust vilja eftir fyrstu viðbrögðum að dæma. Það kom nefnilega í ljós að þetta var bölvaður skúrkur. Búinn að hafa stórfé út úr saklausu fólki sem hafði treyst honum fyrir fjármunum sínum í góðri trú. Það að einhver hafi böstað þig réttlætir ekki að þú gerir það sama við aðra. Síðan ætti fólk að athuga hvað það hefði í för með sér ef það færi að vera plagsiður að eyðileggja þær eignir sem menn missa út úr höndunum á sér. Lánastofnanir sitja uppi með engar eignir á móti útlánum sem ekki innheimtast. Lánastofnanirnar verða engu að síður að standa skil á peningunum til sinna lánveitenda. Viðkomandi eignir hefðu vonandi selst í fyllingu tímans. Það að skuldir innheimtast ekki og engar eignir eru til fyrir þeim þýðir ekki annað en vaxtastig ílandinu muni hækka því einhver verður að borga brúsann.
Ég veit ekkert hvar ég stend í Icesafe málinu. Maður trúir engum lengur. Þegar aðalsamningamaður landsins segir í einni setningu að þetta sé fínn samningur og í næstu setningu segir hann að öll tiltæk evrópulönd hafi þvíngað Ísland til að skrifa undir samninginn ella myndum við hafa verra af. Hverju á maður að trúa? Kópavogssamningurinn var ekkert sérstakur samningur hér í denn tíð enda gerður undir þvingaðri stöðu. Eru samningar sem gerðir eru þegar einskis annars úrkosta er völ ekki yfirleitt vondir. Þegar Corleone gerði mönnum tilboð sem þeir gátu ekki hafnað var yfirleitt skrifað undir.
Ég er ekkert sérstakur enskumaður en svona slarkfær. Ég er mun betri sænskumaður. Ég hef þó lesið sænska texta á einhverri kontórista sænsku sem ég skil nánast ekkert í. Mér finnst þessi Icesafe texti vera eitthvað í þá áttina. Samansúrraður texti á illskiljanlegri stofnanaensku. Þegar Gísli Ásgeirsson, löggildur og margreyndur skjalaþýðandi úr ensku, á í erfiðleikum með textann og segir að það þurfi að leggja hann fram með ítarlegum skýringum um hvað einstakar setningar og orð þýða þá hangir eitthvað á spýtunni. Það væri gaman að vita hvort aðalsamningamaður landsins gæti snarað honum yfir með einföldum yfirlestri. Vitaskuld þarf að þýða svona samninga af færustu sérfræðingum þar um því einstakar meiningar og einstök orð geta haft úrslitaþýðingu um áhrif hans og stöðu hvors aðila. Það má vera að það þýði ekkert en að ljúka málinu með samningum en það er munur á hvort fram fari samningar milli tveggja aðila sem vilja ljúka ákveðnu máli eða hvort annar aðili málsins er með hlaðna skammbyssu við gagnaugað þegar sest er að samningaborðinu.
laugardagur, júní 20, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli