fimmtudagur, júní 18, 2009

Það var magnað að fylgjast með leiknum í höllinni í gær. Þrátt fyrir að töluverð forföll væru í íslenska landsliðinu þá kom þar maður í manns stað. Íslenska landsliðið tók strax forystu í leiknum og leit aldrei til baka. Sókn og vörn virkaði eins og vel smurð vél og Björgvin markmaður átti stórleik. Markvarlan ræður oft úrslitum í leikjum eins og þessum og gaman að sjá íslenskan markvörð sem heldur virkilegum status leik eftir leik.

Í haust þegar bankarnir hrundu og krónan féll gerðist tvennt af hálfu Seðlabankans sem vakti spurningar. Hið fyrsta var að gefin var út tilkynning um að genginu yrði haldið föstu. Það vissu allir sem vildu vita að það væri ekki hægt að halda genginu föstu. Þegar gjaldeyrisvarasjóðurinn væri uppurinn myndi krónan fara á frjálst fall og lenda enn dýpra en ef henni hefði eki verið haldið uppi með handafli um tíma. Nú er maður farinn að heyra frásagnir af því að tilgangurinn með því að gengið var sett fast þarna um tíma hafi verið sá að þá var þeim sem áttu peninga gefinn kostur á því að forða þeim úr landi á gengi sem var haldið uppi með afli af Seðlabankanum á kostnað gjaldeyrisvarasjóðsins og þar með allra landsmanna. Gengi evrunnar hjá Seðlabankanum á þessum tíma var tæpar 140 kr en í Evrópu var gengi krónunnar nær 300 krónum. Þarna voru því gríðarlegir hagsmunir á ferðinni.
Hið seinna sem vakti furðu var umræðan um lánið frá rússunum. Á því hefur ekki heyrst almennileg skýring.

Mig undrar ekki þótt einhverjum finnist það ekki vera góð tilfinning að hafa andardráttinn í Evu Joly í hnakkagrófinni. Hlaupadrengur Baugs, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar t.d. nýlega leiðara þar sem hann reynir að gera hana eins ótrúverðuga eins og frekast er unnt. Það má segja að manni finnst mikilvægi nærveru hennar hérlendis fara vaxandi eftir því sem fleiri smápeð koma fram í dagsljósið og reyna að níða af henni skóinn. Vitaskuld vilja viðkomandi hagsmunaaðilar að mál verði útkljáð innan litla íslenska klíkusamfélaginu þar sem hlutir eru höndlaðir og til lykta leiddir með þeim formerkjum að ef þú sparkar ekki í mig þá sparka ég ekki í þig.

Mér finnst það ekki vera mikill húmor að draga sovéska fánann að húni á þjóðhátíðardegi Íslands. Ætli það hafi ekki verið drepnar um 20 milljónir í Sovétríkjunum þegar var verið að þröngva samyrkjubúskapnum upp á þjóðina. Aðrar 20 milljónir eru taldar hafa látist í hungursneyðinni sem Stalín skipulagði. Síðan er talið að álíka fjöldi hafi látist í seinni heimsstyrjöldinni. Að mínu mati eru þeir sem enn líta til Sovétskipulagsins með glýju í augum annað hvort illa læsir eða skilja ekki það sem þeir lesa og heyra.

Engin ummæli: