laugardagur, júní 06, 2009

Félag 100 km hlaupara hélt 100 km hlaup í dag. Hlaupin er 10 km leið sem hefur meginstöð í Elliðaárdalnum en liggur annars vegar út Fossvoginn en hins vegar inn í bryggjuhverfið við Gullinbrú. Þessi leið er hlaupin 10 sinnum. Hlaupið varð svo fámennt að það var á nippunni að það yrði haldið. Þegar upp var staðið voru það einungis tveir sem hlupu 100 km. Nokkrir heltust úr lestinni ýmissa hluta vegna s.s. v. meiðsla, veikinda og annarra orsaka. Þrír hlauparar notuðu möguleikann og hlupu maraþon. Meðal annars Bryndís Svavarsdóttir sem lauk þarna sínu 108 maraþoni. Þetta varð hinn prýðilegasti dagur, sól, hiti og logn. Margir komu við yfir daginn og studdu við bakið á hlaupurunum svo það varð hin fínasta útihátíðarstemming í Elliðaárdalnum í vöffluilminum frá Jóa sem bakaði allt hvað af tók yfir daginn.
Sigurjón hljóp afar skipulagt og vel upp sett hlaup og lauk því á nýju íslandsmeti eða 8.23.45 sem er rúmum 19 mínútum betri tími en fyrra met Ágústar Kvaran sem var sett fyrir 11 árum. Sigurjón hefur æft mjög vel í vetur og uppskar þarna árangur erfisins. Karl Martinsson lauk hlaupinu á 13 klst og 11 mínútum en hann er tæplega 18 ára gamall.
Það gekk vel að manna allar drykkjarstöðvar þá rúma þrettán tíma sem hlaupið tók og eru öllu því ágæta fólki sem fórnaði tíma sínum í þetta verkefni færðar bestu þakkir fyrir.

Það eru alltaf ýmis atriði sem þarf að fara yfir eftir hlaup sem þetta. Eitt er t.d. hvort þörf sé fyrir að halda slíkt hlaup árlega eða hvort það sé nægilegt að halda það á tveggja ára fresti. Einnig eru alltaf ýmis atriði sem reynslan kennir manni og ástæða er til að læra af.
Takk fyrir daginn.

Engin ummæli: